Semjum og kjósum um ESB
Semjum og kjósum um ESB
Eftir Össur Skarphéðinsson
ÉG HELD ég hafi engan hitt á síðustu vikum og mánuðum sem treystir sér til að fullyrða að íslenska krónan sé rétta framtíðarmyntin fyrir Ísland. Aukakostnaðurinn við að halda dauðahaldi um krónuna er talin geta orðið um 200 milljarðar króna á ári, eða um fjórðungur allra launa í landinu, eins og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ hefur bent á. Sá aukakostnaður leggst með gríðarþunga á íslenskan almenning í formi lægri launa, hærra verðlags, hærri skatta eða lægra þjónustustigs en ella væri raunin ef við notuðum gjaldmiðil sem er gjaldgengur í alþjóðlegum viðskiptum.
Allar skyndilausnir, svo sem einhliða upptaka norskrar krónu, dollars eða evru, hafa verið settar á vogarskálarnir og ekki reynst þungt í þeim pundið. Forystumenn systurflokka stjórnarflokkanna á Íslandi í Noregi hafa báðir hafnað myntsamstarfi. Samningar við Evrópusambandið um aðild og upptöku evru er nærtækasti og besti kosturinn fyrir fólk og fyrirtæki á Íslandi. Það er reynsla þeirra ríkja sem lýsa því yfir að þau hyggist taka upp evru, að á þeim tímapunkti hefst aðlögun gengis þeirra eigin myntar að mögulegu skiptigengi, sem mun hjálpa okkar litlu krónu áfram veginn. Það mun síðan gagnast okkur við að losa um gjaldeyrishöftin.
Aðildarviðræður strax
Krónan hefur verið okkur dýr. Óstöðug örmynt hefur að mati sérfræðinga kallað fram 3-3,5 % hærri vexti en ella og stefnir í að óhagræðið verði 5% meira. Þeir sem eru í fyrirtækjarekstri geta illa unað við óstöðugleikann, gengisáhættuna, vaxtapláguna og gjaldeyrishöftin. Fjölskyldurnar í landinu stynja undan verðtryggingunni, vaxtabyrðinni og matvælaverðinu, svo ég tali nú ekki um reynsluna af myntkörfulánunum.
Er það ekki lýðræðislegur réttur þessa fólks – íslensks almennings – að fá að greiða um það atkvæði hvort það telji sér betur borgið innan Evrópusambandsins eða utan þess? Að sjálfsögðu. Fólk á lýðræðislegan rétt á að fá að heyra rökin með og á móti – og taka síðan afstöðu með atkvæði sínu. Hvaða ríkisstjórn sem tekur við að loknum næstu kosningum verður að geta sagt þjóðinni hvert ber að stefna varðandi gjaldmiðil framtíðarinnar. Sjálfur tel ég því að hagsmunum Íslands sé best borgið með því að næsta ríkisstjórn einhendi sér í aðildarviðræður við Evrópusambandið strax eftir kosningar og að fólk fái að kjósa um málið sem fyrst. Um það hljóta allir lýðræðissinnar að vera sammála.
Ég hef gjarnan haldið því fram að ég sé sá þingmanna sem lengst hefur verið Evrópusinni, enda komið á pólitískan legg í gamla Alþýðuflokknum. Ég tel einfaldlega að hjörtu okkar slái með okkar nágrönnum, þeim sem við eigum langmest viðskipti við (þrír fjórðu af útflutningi okkar er til ESB-ríkja) og ferðumst oftast til. Evrópusambandið er með sínum kostum og göllum eðlilegur pólitískur vettvangur fyrir Ísland til þess að sækja og verja okkar mál og nauðsynlegur bakhjarl í gjaldeyris- og efnahagsmálum. Við afsölum okkur ekki fullveldi, heldur aukum það og treystum með fullri aðild að bandalaginu.
Vilji þjóðarinnar ráði
Þó er rétt að taka fram tvö meginatriði í minni afstöðu alla tíð. Í fyrsta lagi að aðild að Evrópusambandinu sé fyrst og fremst tæki til að búa heimilum og fyrirtækjum hollara umhverfi en ekki markmið í sjálfu sér. Í öðru lagi hef ég ávallt litið svo á að verkefnið sé að vinna málinu fylgi með almennum og lýðræðislegum hætti, fremur en útkljá það með einhverri toppapólitík. Þess vegna beitti ég mér fyrir því sem fyrsti formaður Samfylkingarinnar að skömmu eftir stofnun hennar væri afstaða flokksins til Evrópu ákveðin með póstkosningu meðal allra flokksmanna. Það þótti mörgum djarft, jafnvel fífldirfska, en útkoman varð sú að flokksmenn í Samfylkingunni réðu ferðinni líkt og ég tel að almenningur eigi nú að gera. Samtök iðnaðarins sem hafa innan sinna vébanda stór og smá fyrirtæki hafa barist ötullega um langt skeið fyrir aðildarumsókn. Aðildarfélög Samtaka atvinnulífsins eru flest á sama máli. ASÍ var afdráttarlaust á sínu landsþingi í haust og meira að segja Framsóknarflokkurinn kaus með yfirburðum með aðildarumsókn á sínu flokksþingi í janúar. Öðruvísi mér áður brá, en svona er nú veruleikinn.
Förum færu leiðina
Í kjölfar krónu- og bankahruns þurfum við nú á næstu árum að einbeita okkur að útflutningshugsun og leggja af hugarfar útrásarvíkingsins. Hagfræði næstu ára er einföld: við þurfum að flytja meira út en inn og nota mismuninn til þess að greiða niður skuldir og efla okkar hag. Við þurfum að skapa ný störf í sjávarútvegi, iðnaði og ferðaþjónustu sem verða aflvélar atvinnulífsins á næstunni. Til að svo geti orðið verður að skapa traust á gjaldmiðlinum sem við notum og þannig stöðugleika í efnahagslífinu að útflutningsfyrirtæki telji eftirsóknarvert að taka út sinn vöxt, og fjölga starfsfólki, hér heima á Íslandi. Eina færa leiðin er Evrópuleiðin að upptöku evru sem framtíðargjaldmiðli.
Við stjórnmálamenn verðum að geta fært okkar fólki framtíðarsýn. Mín felst meðal annars í því, að til að atvinnulífið geti þrifist og fjölskyldur lifað góðu lífi og til að unga fólkið vilji búa og starfa á Íslandi, verðum við að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið og ná þar sem bestum samningum fyrir Íslendinga. Verði samningarnir ekki nógu góðir, er líklegt að þjóðin felli þá en að því getum við ekki komist nema með því að hefja aðildarviðræðurnar. Sem bjartsýnismaður tel ég þó einsýnt að okkar besta fólki muni takast að ná samningum sem þjóðin verður ánægð með. Reynslan, rökin og skynsemin hníga í þá átt. Ég treysti því að hinn lýðræðislegi vilji þjóðarinnar gefi sömu niðurstöðu.
Höfundur er iðnaðar- og utanríkisráðherra.