Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. apríl 2009 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Aðild að ESB þýðir stórbætt lífskjör

Össur Skarphéðinsson skrifar:

Kosningarnar á laugardag eiga Íslendingar að nota til að tryggja þeim framgang sem vilja sækja um aðild að ESB og taka upp evruna. Ástæðan er einföld. Krónan dugar ekki lengur, einsog þeir vita best, sem horfa á húsnæðislánin sín hlaðast upp vegna veikleika hennar. Yrði Ísland hluti af ESB, og tæki upp evruna, fælist í því langbesta leiðin til að stórbæta lífskjör á Íslandi. Með því næðist efnahagslegur stöðugleiki, erlendir fjárfestar - sem í dag fælast krónuna - myndu taka á nýjan leik þátt í uppbyggingu atvinnulífsins, og vextir á lánum jafnt heimila, fyrirtækja og ríkis myndu lækka um háar upphæðir. Hægt væri að afnema verðtrygginguna hratt, og matarverð almennings myndi lækka umtalsvert. Evran og ESB er því besta leiðin til að tryggja farsæla endurreisn heimila og atvinnulífs, og endurvinna traust Íslands í útlöndum.

Stjórnmálamenn verða að þora
Þess vegna tel ég að mikilvægasta málið, sem kosið er um á laugardaginn sé afstaðan til Evrópusambandsins og evrunnar. Ekkert annað mál skiptir jafnmiklu fyrir uppbyggingu nýja Íslands, og viðsnúning á afkomu heimila og fyrirtækja. ESB og evran er ekki töfralausn sem breytir öllu á svipstundu, en með ákvörðun um hvorutveggja er í senn brugðist með ákveðnum og raunsönnum hætti við þeim bráðavanda sem blasir við í efnahagslífinu, og traustur grunnur lagður að lengri framtíð.
Valið á milli krónu og evru mun ráðast af því, hvort Samfylkingin - eini stjórnmálaflokkurinn sem hefur sett aðild að ESB og evru í forgang - nær afgerandi forystu. Samfylkingin hefur sett fram skýran valkost við alla hina flokkana með því að segja það skýrt, að við munum setja í forgang að sækja um aðild að Evrópusambandinu og taka upp evru við fyrsta tækifæri. Í núverandi kreppu Íslendinga er það langbesta leiðin til að tryggja betri lífskjör á Íslandi.

Miklu minni vaxtabyrði
Í dag er vaxtamunurinn milli Íslands og Evrópu að minnsta kosti 3%. Það þýðir í reynd, að íslensk heimili og fyrirtæki þurfa að greiða sérstakt 3% vaxtaálag fyrir það að hafa krónu – en ekki evru. Miðað við skuldir heimilanna í árslok 2008, þá eru venjulegar íslenskar fjölskyldur samtals að greiða 60 milljarða á ári í vaxtaálag vegna krónunnar. Miðað við áætlaðar skuldir fyrirtækja í dag, þá eru fyrirtækin að greiða í hærri vöxtum 135 milljarða á ári vegna krónunnar, samanborið við evru.  
Samtals myndi því evran lækka vaxtagreiðslur íslenskra heimila og fyrirtækja um tæplega 200 milljarða á ári. Þegar við bætast lægri vaxtagreiðslur af skuldum ríkissjóðs þá mun heildarsparnaður þjóðarinnar vegna ESB og evrunnar nema röskum 220 milljörðum króna á ári. Er hægt að kasta svona möguleika frá sér?
Þær svimandi upphæðir, sem sparast við inngöngu í ESB, eru ákaflega sterk efnahagsleg rök, sem stjórnmálamenn verða að þora að ræða. Staðreyndin er sú, að engin önnur aðgerð getur til framtíðar haft jafn jákvæð áhrif á afkomu íslenskra fjölskyldna og fyrirtækja og umsókn um aðild að ESB og upptaka evrunnar.

Matarverð og verðtrygging
Með aðild að ESB og evrunni myndi verðtryggingin heyra sögunni til, og íslenskar fjölskyldur myndu greiða niður húsnæði sitt jafnt og þétt – einsog evrópskir bræður og systur – í stað þess að borga sífellt hækkandi vexti. Fyrir utan þann sparnað, sem felst í lægri vöxtum, þá gæti aðild að ESB lækkað matarreikning íslenskra heimila varlega áætlað um 10 milljarða, og hugsanlega allt að 25 milljörðum á ári.
Þegar allt er talið, ávinningur af lægri vöxtum til heimila, fyrirtækja og ríkis, ásamt lægri matarútgjöldum, þá má leiða rök að því að aðild að ESB og upptaka evru gæti lækkað útgjöld fjögurra manna fjölskyldu um fast að milljón á ári. Ótalinn er þá sá ávinningur sem birtast mun í fleiri störfum vegna meiri erlendra fjárfestinga.

Sterkasta framtíðarlausnin

Veikleiki krónunnar mun ekki hverfa. Sagan hefur sýnt að óstöðugleiki, gengissveiflur og verðbólga eru fylgifiskar hennar. Við Íslendingar þurfum að ávinna okkur traust umheimsins. Við þurfum á bak við efnahagslíf okkar þann styrk sem felst í aðild að ESB og evrunni. Við þurfum erlendar fjárfestingar – sem í dag sneiða hjá hagkerfi krónunnar – og við þurfum efnahagslegan stöðugleika. Umfram allt – Íslendingar þurfa skýra framtíðarsýn í þessu máli.
Við jafnaðarmenn treystum okkur til að verja hagsmuni Íslands í samningaviðræðum við Evrópusambandið. Við höfum áður gert það. Við þurfum hins vegar afgerandi stuðning í þingkosningunum á laugardaginn til að hafa styrk til að hrinda Evrópustefnunni í framkvæmd. Það er því algerlega á valdi kjósenda, hvort lífskjarabætur sem fylgja evru og ESB verða að veruleika.
 

Greinin birtist í DV 22. apríl 2009.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta