Beinir skattar og óbeinir rýra kaupmátt á svipaðan hátt og áhrifin á greiðslubyrði verðtryggðra lána eru svipuð
Það er að vísu vitaskuld rétt að hækkun óbeinna skatta kemur sér alla jafna illa fyrir þá sem greiða þá. Það er hins vegar enginn grundvallarmunur á áhrifum óbeinna skatta og beinna, svo sem tekjuskatts, á þá sem hafa verðtryggð lán. Það er misskilningur.
Til að skýra þetta er hægt að taka mjög einfaldað dæmi af ímynduðu landi. Í þessu landi er bara ein vara sem gengur kaupum og sölu, fiskur. Hver fiskur kostar 1.000 krónur þegar sagan hefst. Landsmenn hafa ákveðið að koma sér upp heilbrigðis- og menntakerfi og ætla að verja til þess fimmtungi landsframleiðslu. Til að greiða það þurfa þeir að leggja á skatta, sem þeir hafa ekki gert áður.
Valið stendur á milli tekjuskatts (beinn skattur) og virðisaukaskatts (óbeinn skattur). Til að tekjuskattskerfið skili fimmtungi landsframleiðslu til hins opinbera þarf tekjuskattshlutfallið að vera þetta sama hlutfall, þ.e. fimmtungur eða 20%. Til að virðisaukaskattskerfið skili þessu hlutfalli af landsframleiðslu þarf skatthlutfallið að vera fjórðungur eða 25%. Skýringin á því að virðisaukaskatthlufallið þarf að vera 25% en ekki 20% er að virðisaukaskattur leggst ofan á verð. Ef hver fiskur hækkar um 25%, í 1.250 krónur og ríkið fær hækkunina, þá fær ríkið 250 krónur af 1.250 krónum eða fimmtung heildarinnar.
Skoðum nú áhrif þessara tveggja leiða á dæmigerðan landsmann, sem er með launatekjur og verðtryggt lán. Hvor leiðin sem farin er þá minnkar kaupmáttur hans. Það er óhjákvæmilegt en hann nýtur vitaskuld á móti opinberrar þjónustu, sem hann hefði ekki notið ella.
Setjum sem svo að maðurinn sé með 400 þúsund í tekjur á mánuði og greiði 100 þúsund í afborgun og vexti af verðtryggðu láni á mánuði.
Sé tekjuskattsleiðin farin þá greiðir maðurinn 20% af 400 þúsundum eða 80 þúsund í tekjuskatt. Hann heldur eftir 320 þúsundum, sem nægir fyrir 320 fiskum, á 1.000 krónur hver. Af því borgar hann 100 þúsund í vexti og afborgun af láninu, eða sem samsvarar 100 fiskum. Eftir það hefur hann því 220 þúsund til ráðstöfunar, eða sem samsvarar 220 fiskum.
Sé virðisaukaskattsleiðin farin þá hefur maðurinn 400 þúsund til ráðstöfunar en nú dugar það einungis til að kaupa 320 fiska, því að hver og einn kostar nú 1.250. Lánið hækkar um 25% vegna verðtryggingar og hann þarf því að borga 125 þúsund í vexti og afborgun af láninu eða sem samsvarar 100 fiskum. Hann hefur því til ráðstöfunar 275 þúsund sem dugar fyrir 220 fiskum.
Staða mannsins er því nákvæmlega sú sama, hvort heldur virðisaukaskattsleiðin eða tekjuskattsleiðin er farin. Það er jafnerfitt eða auðvelt fyrir hann að standa í skilum með lán sitt í báðum tilfellum. Greiðslubyrðin er sú sama.
Það skiptir heldur engu fyrir lánveitanda mannsins hvor leiðin er farin. Sé virðisaukaskattleiðin farin þá fær hann fleiri krónur í hverjum mánuði en hver króna er minna virði. Þess má þó geta að ef innheimtur væri fjármagnstekjuskattur í þessu einfalda dæmi þá væri virðisaukaskattleiðin verri fyrir lánveitandann. Skýringin er að hann þyrfti að greiða skatt af verðbótunum.
Þetta dæmi er eins og fyrr segir mjög einfaldað. Grunnniðurstaðan verður þó sú sama þótt miðað sé við flóknari forsendur. Beinir skattar og óbeinir rýra kaupmátt á svipaðan hátt og áhrifin á greiðslubyrði verðtryggðra lána eru svipuð. Séu beinir skattar hækkaðir hafa menn færri krónur á milli handanna en áður. Séu óbeinir skattar hækkaðir hafa menn jafnmargar krónur á milli handanna en geta keypt minna fyrir hverja og eina.
Í grundvallaratriðum er hægt að takast á við vandann í ríkisfjármálum Íslendinga með fimm leiðum. Fyrsta leiðin er að hækka óbeina skatta, önnur að hækka beina skatta, sú þriðja að draga úr opinberri þjónustu og þar með ríkisútgjöldum, sú fjórða að velta vandanum yfir á kynslóðir framtíðarinnar með því að skuldsetja ríkissjóð og sú fimmta að ná með hagvexti að auka tekjur ríkissjóðs.
Engin leiðanna er auðveld. Sú fjórða gæti verið í boði við betri aðstæður, hefði einhver hug á henni, en er það ekki nú, af þeirri einföldu ástæðu að ríkið hefur takmarkaðan aðgang að lánsfé til að fara hana. Sú fimmta er ánægjulegust og við munum án efa feta hana fyrr en varir. Það er þó ekki hægt að bíða eftir því að hún leysi vandann og því sitjum við uppi með fyrstu þrjár leiðirnar um skeið.
Það er lykilatriði við uppbyggingu íslensks efnahagslífs að jöfnuður náist í ríkisfjármálum. Án þess nær íslenskt efnahagslíf ekki aftur vopnum sínum. Það skiptir líka afar miklu hvernig það er gert. Aðgerðir til að vinna á miklum halla á rekstri ríkisins verða aldrei vinsælar en þær þurfa að vera eins sanngjarnar og hægt er. Það þarf að dreifa byrðunum á réttlátan hátt og gæta sérstaklega þeirra sem eiga undir högg að sækja. Það er hins vegar engin lausn að neita að horfast í augu við vandann.
Höfundur er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra
Grein birtist í Morgunblaðinu 30. maí 2009.