Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. júní 2009 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Ávarp viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar við afhendingu EDI verðlaunanna 2009, flutt þann 4. júní 2009

Mér er það sönn ánægja að ávarpa aðalfund Icepro nefndarinnar, og afhenda EDI verðlaunin í þetta sinn.

Icepro er í fararbroddi við innleiðingu rafrænna viðskipta hér á landi. Tilgangur með starfsemi Icepro er samstarf hagsmunaaðila um rafræn viðskipti þar sem fyrirtæki, stofnanir og einstaklingar geta unnið saman að þróun og uppbyggingu með áherslu á samþættingu og stöðlun. Þátttaka í alþjóðlegu samstarfi gerir Icepro kleift að miðla Íslendingum fremstu lausnum heims á sviði rafrænna viðskipta.

Viðskiptaráðuneytið hefur það hlutverk að móta stefnu í tengslum við lög um rafræn viðskipti og undirskriftir og til að stuðla að rafrænum viðskiptum. Ráðuneytið leggur áherslu á að forgangsraða aðgerðum til að skjóta styrkari stoðum undir umhverfi rafrænna viðskipta á Íslandi á næstu árum, í þeim tilgangi að tryggja samræmt og skilvirkt umhverfi rafrænna viðskipta á Íslandi með tilliti til alþjóðlega samfélagsins, sérstaklega með hliðsjón af þróun á innri markaði ESB.

Nýlega var gerð skýrsla fyrir viðskiptaráðuneytið um stöðu rafrænna viðskipta hér á landi og er niðurstaða hennar að ávinningur af rafrænum viðskiptum hefur ekki skilað sér hér á landi eins og væntingar hafa staðið til. Ýmsar hindranir og fyrirstaða gera það að verkum að þróun og uppbygging rafrænna viðskipta er hæg. Það eru hins vegar ýmsar forsendur og drifkraftar sem eru öflugri hér á landi en víðast annarsstaðar og því mikil tækifæri til að auka sjálfvirkni og skilvirkni viðskipta með því að nýta möguleika rafrænnar úrfærslu viðskiptanna til fulls.

Nær öll fyrirtæki á Íslandi stunda rafræn viðskipti á einhvern hátt, að minnsta kosti ef öll ómótuð samskipti yfir Internetið við viðskiptavini, opinbera aðila eða aðra viðskiptaaðila teljast til rafrænna viðskipta. Tækifæri til ávinnings eru hins vegar mest þegar viðskipti eru gerð sjálfvirk með mótuðum rafrænum samskiptum, þar sem stöðluðum viðskiptaskeytum er miðlað á milli viðskiptaaðila.Samkvæmt nýlegri rannsókn Hagstofunnar nota einungis um 28% fyrirtækja á Íslandi mótuð rafræn samskipti.

Það eru ýmsar hindranir í vegi framþróunar á rafrænum viðskiptaháttum sem koma í veg fyrir að mögulegt sé að nýta rafræna tækni til fulls. Í áðurnefndri skýrslu kemur fram að ábendingar um hindranir eru margskonar og varða flesta þætti í umhverfi rafrænna viðskipta. Helstu hindranir eru þó taldar vera skortur á fjármagni fyrir þróun og útfærslu, að ávinningur sé ekki sýnilegur og að kostnaður við innleiðingu sé hár. Byrjunarkostnaður viðskiptaaðila er oft sýnilegri en mögulegur ávinningur. Það þarf að gera ávinning augljósan, ná sátt í samfélaginu um stefnu og viðmið og sameinast um bestu leiðir til að lækka kostnað við innleiðingu.

Það þarf að efla þá þætti sem liðka fyrir framgangi rafrænna viðskipta. Flestir telja að ef ávinningur af rafrænum viðskiptum er gerður sýnilegri þá verði það ekki einungis til þess að fækka hindrunum heldur verði það einnig hvati til aðgerða. En einstaklingar þurfa að hafa trú á framtíðinni til að vilja taka þátt í róttækum breytingum á nánasta umhverfi sínu. Það er því forsenda fyrir hvata og frumkvæði að þekking og skilningur á ávinningi, ógnum og áhættu sé til staðar..

Einn mikilvægasti hvatinn er frumkvæði stórra fyrirtækja og stofnana. Stórir aðilar hafa oft burði til að bera upphafskostnað, sem felst m.a. í þróun og prófunum, þannig að smærri aðilar geta komið inn í mótaða útfærslu sem skilar þeim ávinningi strax. Stórir aðilar þurfa að taka af skarið, tileinka sér hlutverk frumkvöðla og leiða uppbygginguna. Stærstu stofnanir ríkisins eru æskilegir frumkvöðlar í ljósi stærðar sinnar og áhrifa. Það þarf jafnframt að tryggja að smærri aðilar verði ekki þvingaðir í lausnir sem gefa þeim ekki ávinning. Uppbygging þarf því að vera í samræmi við stefnu og viðmið sem almenn sátt er um og byggja á öflugu samstarfi allra hagsmunaaðila í öllum atvinnugreinum og hjá hinu opinbera.

Hér er um gífurlegt hagsmunamál að ræða. Hagræðing rafrænna viðskipta felst í því að vinna sparast við prentun, sendingu, móttöku, flokkun og geymslu pappírs. Tímafrek handavinna verður að sjálfvirkri tölvuvinnslu og endurskráning gagna með tilheyrandi villuleiðréttingum hverfur. Tími og fjármunir sparast þar sem gögn og greiðslur berast hraðar.

Í Evrópu er reiknað með 8 evra sparnaði á hvern reikning, sem berst rafrænt í stað pappírs. Raunar gerir ICEPRO frekar ráð fyrir helmingi lægri sparnaði, eða 500 kr. á reikning, en hagræðingin er engu að síður umtalsverð.

Sjálfvirk rafræn viðskipti bæta einnig vistræna þætti með því að minnka þörf á pappír og spara tíma og orku.

Á árinu 2008 gaf ríkisstjórnin út nýja stefnu í sem ber yfirskriftina „Netríkið Ísland" og er hún vegvísir hins opinbera að þróun rafrænnar stjórnsýslu og nýtingu upplýsingatækni á árunum 2008-2012.

Samkvæmt stefnunni verða tekin í notkun rafræn skilríki, rafrænar greiðslur og rafræn innkaup á tímabilinu auk þess sem gögn verða samnýtt og dregið úr margskráningu upplýsinga. Upplýsingatækni verður notuð í auknum mæli við nám og kennslu samkvæmt stefnunni, auk þess sem hana á að nýta til að auka möguleika fólks til lýðræðislegrar þátttöku. Í því skyni er stefnt að tilraun með rafrænar kosningar í tveimur sveitarfélögum í kosningum árið 2010. Jafnframt verður lögð áhersla á útvistun og notkun upplýsingatækni til að bæta alþjóðlegt samkeppnisumhverfi íslenskra fyrirtækja.

Í stefnunni er fólgin sú framtíðarsýn að Íslendingar verði fremstir þjóða í rafrænni þjónustu og nýtingu upplýsingatækni. Þar eru jafnframt tilgreind fjölmörg þróunarverkefni í upplýsingatækni á vegum hins opinbera sem miða að því að bæta og auka rafræna þjónustu hins opinbera við almenning og fyrirtæki. Leiðarljós Netríkisins Íslands er að þjónusta hins opinbera verði notendavæn og skilvirk án biðraða.Nú er komið af afhendingu verðlaunanna en í ár hlýtur Fjársýsla ríkisins EDI bikarinn. Matsnefnd EDI bikars voru Vilhjálmur Egilsson Samtökum Atvinnulífsins, Júlíus Sæberg Ólafsson Ríkiskaup og formaður Icepro Karl Garðarson

Á undanförnum árum hefur Fjársýsla ríkisins unnið töluvert brautryðjandastarf í innleiðingu á rafrænni stjórnsýslu. Nægir þar að nefna þróun rafrænna greiðslna hjá ríkissjóði, rafrænan launaseðil og rafræna reikninga.

Þegar á árinu 2001 setti stofnunin fram í útboðsgögnum fyrir nýtt fjárhags og mannauðskerfi ríkisins kröfur um að nýtt kerfi gætti nýtt möguleika á rafrænum viðskiptum sem víðast og tilgreind voru nokkur rafræn viðskiptaskeyti s.s. pantanir og rafrænir reikningar.

Á árinu 2005 stóð danska ríkið fyrir miklu átaki í notkun rafrænna reikninga. Þeir völdu lögleiddu tiltekinn XML staðal og skylduðu alla birgja til að senda reikninga til hins opinbera á rafrænu formi.

Þetta átak Dana vakti mikla athygli. Í framhaldi af því tóku nokkrar þjóðir sig saman um að vinna að þróun á sameignlegum staðli byggðum á danska staðlinum. Sú vinna var síðan víkkuð út enn frekar á vegum Evrópusambandsins. FJS tók þátt í þessu starfi fyrir hönd íslenska ríkisins og var útkoman sameiginlegur staðall sem fékk vinnuheitið NES. Á árinu 2007 ákvað Fjársýslan að hefja vinnu við að aðlaga sín kerfi út frá þessum staðli.

Lausnin var í þróun og prufu fram á mitt ár 2008. Þá var opnað fyrir almenna notkun og í dag getur íslenska ríkið tekið við reikningum frá hverjum þeim birgja sem vill senda þá inn á NES formi.

Frá þeim tíma fóru fjölmargir reikningar að streyma inn í fjárhagskerfi ríkisins. Þeir berast fullskráðir inn í kerfið að öðru leyti en því að eftir var að fylla út bókunarupplýsingar, svo sem á hvaða kostnaðartegund á að bóka. Þetta var leyst með því að smíða svokallaða bókunarvél, þar sem skilgreint hefur verið fyrirfram hvernig viðkomandi reikningar eiga að bókast, t.d. út frá samningsnúmeri, mælanúmeri eða símanúmeri.

Í dag eru um 20 stofnanir að taka við reikningum frá um 10 birgjum. Fyrstu viðbrögð notenda eru frekar jákvæð. Þetta fyrirkomulag getur sparað mikla vinnu við skráningu, bókunarvélin tryggir að reikningar eru rétt bókaðir og vinna við leiðréttingar minnkar. Jafnframt gefa rafrænir reikningarnir aukna möguleika á stýringum þar allir reikningar koma inn á einum stað.

Fjársýslan hefur allt frá árinu 2005 unnið að því að kynna þá möguleika sem rafrænir reikningar bjóða upp á og reynt að vinna þeim brautargengi hjá birgjum og hinu opinbera.

Staðan í dag er í stuttu máli þessi. Við höfum kerfi sem er tilbúið til að taka á móti og senda út rafræna reikninga. Flestir þeir sem láta sig málið varða eru sammála um að hið opinbera eigi að leika stórt hlutverk í innleiðingu á rafrænum reikningum bæði sem kaupandi og seljandi. Fjársýslan hefur lagt sig fram um að sinna því hlutverki markvisst og verið í fararbroddi við að ryðja þessari nýjung braut hér á landi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta