Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

1. júlí 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Koma landhelgisgæsluflugvélarinnar TF-SIF 1. júlí 2009

Koma landhelgisgæsluflugvélarinnar TF-SIF 1. júlí 2009

Flugskýli 2 Reykjavíkurflugvelli

Ávarp

Þetta er fagnaðarstund.

 

TF-SIF hin nýja löggæslu og eftirlitsflugvél okkar íslendinga er komin heim. 

 

Ég óska áhöfn vélarinnar í þessu fyrsta heimflugi þeim Benóný Ásgrímssyni flugstjóra og Hafsteini Heiðarssyni flugmanni, Auðunni Kristinssyni og Friðriki Höskuldssyni  stýrimönnum,  Höskuldi Ólafssyni flugvirkja, Georg Kr. Lárussyni yfirflugþjóni og Joar Grönlund tæknilegum  ráðgjafa til hamingju með þessa heillaför. Velkomnir heim.

 

Koma flugvélarinnar til landsins markar tímamót og skapar stóraukna möguleika til  eftirlits-, björgunar- og löggæslustarfa á hafinu umhverfis landið jafnt á nóttu sem degi.

 

Meginhlutverk Landhelgisgæslu Íslands er að fást við öryggis- og löggæslustörf á hafinu og hafa starfsmenn gæslunnar lögregluvald í efnahagslögsögu Íslands. Eitt af meginverkefnum LHG undanfarna áratugi  hefur verið að sinna fiskveiðieftirliti innan efnahagslögsögunnar. Allt frá stofnun Landhelgisgæslunnar hefur hún sinnt mikilvægum löggæslu og öryggisverkefnum sínum með miklum ágætum, ekki síst í tveimur þorskastríðum vegna 50 mílnanna 1972–1973 og 200 mílnanna 1975–1976.

 

Góðir gestir, í kjölfar breyttra tíma hefur almenn löggæsla á hafinu breyst. Eins og einstök og árangursrík samvinna lögreglunnar og Landhelgisgæslunnar á undanförnum missirum ber vitni um gegnir Landhelgisgæslan nú burðarhlutverki innan löggæslunnar við að sporna gegn umferð alþjóðlegrar skipulagðrar glæpastarfsemi um ytri landamæri landsins þ.e. á hafsvæðinu umhverfis Ísland í þessum málum og að aðstoða við uppljóstran fíkniefnamála.

 

Einnig snýr gæsla á öryggishagsmunum Íslendinga ekki síst að verndun fiskistofna og vörnum gegn mengun hafsins og mengunarslysum. Hér hefur í vaxandi mæli verið litið til Landhelgisgæslunnar, enda gegnir hún veigamiklu hlutverki við að fylgjast með mengun á hafi í samvinnu við umhverfisyfirvöld, farartálmum á sjó sem valdið geta sjófarendum tjóni og hvort vitar og önnur siglingamerki eru í lagi í samvinnu við siglingamálayfirvöld.

 

Þessi margþættu hlutverk LHG endurspeglast í hönnun, smíði og tækjabúnaði þessarar nýju flugvélar, svo og hins nýja varðskips.

 

Hér verður einnig að minnast á hið mikilsverða hlutverk Gæslunnar við leit og björgun á hafinu umhverfis Ísland.

 

Leitar-  og björgunarsvæði landhelgisgæslunnar nær fyrst og fremst yfir íslensku efnahagslögsöguna en að auki á svæði sem nær yfir um 1,8 millj ferkílómetra. Þetta geysi víðfeðma hafsvæði er talið vera eitt það erfiðasta á jörðinni vegna mikillar veðurhæðar, ölduhæðar, ísingar og kulda.

 

Þá skapar rekís hættu fyrir skip norður og norðvestur af landinu og getur hrakið skip nær landi en æskilegt er. Slíkt skapar aukna hættu á að skip verði fyrir áföllum sem leitt geta til mannskaða og alvarlegra umhverfisslysa

 

Landhelgisgæslan á langt og farsælt samstarf við systurstofnanir sínar erlendis hvort heldur er um að ræða strandgæslur og flotadeildir nágrannaríkja, en í sumum ríkjum starfa strandgæslur innan flotadeilda ríkis. Virk þáttaka okkar í slíku öryggissamstarfi er okkur  mikilvæg til þess að tryggja skjótari viðbrögð þessara aðila við löggæslu- og björgunarstörf.

 

Notkunarmöguleikar flugvélarinnar til öryggis og löggæslu sem og leitar og björgunar eru nánast ótakmarkaðir eins og forstjóra landhelgisgæslunnar mun koma að hér á eftir.  

 

Ég óska áhöfnum flugvélarinnar TF SIF og Landhelgisgæslu Íslands allra heilla og velgengni í þeirra störfum. 

 

 

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta