Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. júlí 2009 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Greiðslugeta og erlendar skuldir eftir Gylfa Magnússon viðskiptaráðherra

Í umræðu um Icesave-samkomulagið hafa ýmsir haldið því fram að það sé Íslendingum eða íslenska ríkinu ofviða að standa við þær greiðslur sem þar er lofað. Hafa menn þá einkum vísað til þess að gjaldeyristekjur landsmanna verði ekki nægar. Þetta er sem betur fer augljóslega rangt, eins og sjá má með einföldum útreikningi.

Jafnvel þótt gert sé ráð fyrir sáralitlum raunvexti útflutningstekna landsmanna á næstu 15 árum, sem er líftími Icesave-samkomulagsins, þá verða þær ríflega 100 milljarðar evra samanlagt á tímabilinu. Greiðslur vegna Icesave verða hins vegar varlega áætlað um það bil 2 milljarðar evra, einn milljarður í höfuðstólsgreiðslur og annað eins í vaxtagreiðslur.

Til að búa til afgang á viðskiptum við útlönd sem nægir til að standa undir greiðslum vegna Icesave væri því nægjanlegt að auka útflutning um 2% frá því sem hann væri ella. Önnur leið væri að minnka innflutning um svipað hlutfall og enn önnur að auka útflutning um 1% og minnka innflutning um 1%. Það er ekki með nokkru skynsamlegu móti hægt að komast að þeirri niðurstöðu að þetta sé þjóðarbúinu ofviða. Íslendingar hafa þegar snúið miklum viðskiptahalla í verulegan afgang, nánast á einni nóttu, og ekki er útlit fyrir annað en að svo verði áfram á næstu árum.

Íslenska þjóðarbúið stendur vissulega frammi fyrir mörgum úrlausnarefnum. Mörg þeirra eru erfið en ekkert óviðráðanlegt. Erfiðustu verkefnin tengjast Icesave ekki. Þau eru annars vegar að endurskipuleggja fjárhag og rekstur fjölmargra fyrirtækja sem eru nú í vandræðum vegna skulda og hins vegar að ná endum saman í rekstri hins opinbera á næstu árum. Það mun taka á en ekkert bendir til annars en að Íslendingum muni takast þetta.

Það mun líka taka á að standa í skilum með verulegar erlendar skuldir landsmanna, sem fæstar tengjast Icesave. Þær skuldir eru fyrst og fremst afleiðingar af miklum innflutningi undanfarin ár, bæði á neyslu- og fjárfestingarvörum. Leiðin út úr þeim vanda er sú sama og áður var nefnd, aukinn útflutningur og minni innflutningur. Einnig það er þó vel viðráðanlegt. Það myndi t.d. duga vel að hafa innflutninginn á næstu árum svipaðan og hann var fyrir 6-7 árum, áður en allt fór úr böndunum í neyslu- og fjárfestingaræði útrásarbólunnar. Því fylgir ekkert harðræði.

Höfundur er Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra.

Grein birtist í Morgunblaðinu 31. júlí 2009.




Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta