Ávarp á kirkjuþingi 7. nóvember 2009
Ávarp Rögnu Árnadóttur dómsmála- og mannréttindaráðherra á kirkjuþingi 7. nóvember 2009
Biskup Íslands, vígslubiskupar, forseti kirkjuþings, þingfulltrúar, góðir gestir.
I.
Mér er heiður að ávarpa kirkjuþing árið 2009. Þegar kirkjuþing var haldið í fyrra var það í skugga bankahrunsins. Þá urðu einhver mestu þáttaskil í efnahagslífi Íslendinga frá stofnun lýðveldisins og setja varð neyðarlög til að tryggja brýnustu hagsmuni þjóðarinnar. Enn erum við stödd í eftirleik hrunsins.
Ríkisstjórnin hefur unnið hörðum höndum að endurreisn efnahagslífsins og hefur í því skyni gripið til margvíslegra úrræða til þess bregðast við.
Ljóst var að eitt af úrræðunum sem grípa yrði til, var að draga úr tilkostnaði og útgjöldum ríksisins. Í fjárlagafrumvarpi ársins 2010 er því gert ráð fyrir miklum almennum niðurskurði sem og hagræðingarkröfu á ótal sviðum.
Þjóðkirkjan fer ekki varhluta af niðurskurðaráformunum. Til hennar er gerð hagræðingarkrafa um 10% á framlagi ríkisins samkvæmt hinu svokallaða kirkjujarðasamkomulagi frá 1997. Þetta er sama krafa og langflestum er gert að mæta, en þó er hjá menntastofnunum gerð krafa um 7% niðurskurð og hjá velferðarstofnunum er krafan 5%.
Lækkun fjárframlaga er öllum stofnunum dómsmála- og mannréttindaráðuneytis erfið en ég hef litið svo á, að hér verðum við að taka okkar skerf af niðurskurðinum og mæta honum með þeim aðferðum sem við teljum skynsamlegar. Í þessari vinnu er það ein megináskorunin að horfast í augu við að niðurskurðurinn þurfi í raun og veru að eiga sér stað.
Nauðsynlegt er vegna kirkjujarðasamkomulagsins og þjóðkirkjulaganna, sem staðfestu þann samning, að gera viðauka við samkomulagið og breyta lögunum. Mál þar að lútandi eru nr. 25 og 26 fyrir kirkjuþinginu. Ég vænti þess að þingfulltrúar sýni fullan skilning við afgreiðslu málsins á þeim þrönga stakk sem okkur er sniðinn.
Meðal frekari aðgerða til að draga úr útgjöldum ríkissjóðs á kirkjulegum vettvangi má nefna lækkun launa hjá prestum og lækkun sóknargjalds, sem þegar eru komnar til framkvæmda. Eru þar prestar í hópi annarra embættismanna ríkisins, sem þurft hafa að taka á sig launaskerðingu.
II.
Á síðasta kirkjuþingi var fjallað ítarlega um nýtt frumvarp til þjóðkirkjulaga og voru gerðar á því ýmsar góðar og gagnlegar breytingar, sem voru til bóta. Í kjölfarið fól ráðuneytið nefndinni sem samdi frumvarpið að fara aftur yfir einstaka þætti þess og var frumvarpinu síðar komið aftur í hendur ráðuneytisins. Undirbúningur að því að leggja það fram á Alþingi var kominn langt á veg, en því miður vannst ekki nægur tími til þess áður en þing var rofið. Ég hef fullan hug á að leggja frumvarpið fram og freista þess að vinna því fylgi. Eins og forgangsröð verkefna er nú háttað getur ekki orðið af því fyrr en í fyrsta lagi á vorþingi.
III.
Þeir fjárhagserfiðleikar sem þjóðin hefur átt við að stríða og mun áfram eiga við að etja um sinn, reynast mörgum þungir í skauti. Þeim fylgja líka atvinnumissir, fjárhagslegar þrengingar af ýmsum toga, kvíði og óvissa um hvað framtíðin ber í skauti sér. Þegar þjóðin verður fyrir áföllum af þessu tagi reynir hvað mest á þær stofnanir sem fylgt hafa þjóðinni um aldir og þá ríku samhjálp sem einkennt hefur þjóðina frá fyrstu tíð.
Þó svo að félagsþjónusta hafi á síðari tímum flust til sveitarfélaga hvílir nú á tímum, eins og fyrrum, gífurlegur þungi á þjónum kirkjunnar að sinna sálusorgun, að hlusta á raunir og áföll fólks og að hugga og hugtreysta það og telja kjark í þá sem eru þjakaðir. Í þrengingunum reynir á hina líknandi hönd kristinnar kirkju og þann boðskap sem hún flytur. Við megum vera þakklát fyrir hið góða og gjöfula starf sem kirkjan innir af hendi og fyrir það vil ég færa þjóðkirkjunni þakkir. Nú sem aldrei fyrr er mikið leitað til Hjálparstofnunar kirkjunnar. Aðdáunarvert er hversu miklu hún fær áorkað í starfi sínu. Það starf verður seint fullþakkað.
IV.
Ég vil nota tækifærið til þess að fullvissa kirkjuþing um að sem fyrr varði kirkjumálin miklu í starfi dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins. Vissulega er eftirsjá af heitinu kirkjumál í heiti ráðuneytisins, því neita ég ekki, en verðugur staðgengill eru þar mannréttindi. Heyrst hefur, að þversögn geti fólgist í því að sinna málefnum dómsmála og málefnum mannréttinda. Því er ég ósammála. Í því felst ekki þversögn, heldur áskorun. Það er ekki unnt að gefa afslátt af mannréttindum en aftur á móti má heldur ekki hugtakið verða svo gildishlaðið, að ekki sé unnt að framkvæma neina þá íþyngjandi ákvörðun gagnvart borgurunum, sem lög mæla fyrir um.
Stöðugt vaxandi sjálfstæði kirkjunnar í öllum málum veldur því að hlutverk kirkjumálaráðherra minnkar að sama skapi. Þetta hefur verið farsæl þróun sem gerir kirkjunni kleift að ráða sjálf æ fleiri málum. Engu að síður lítur ráðuneytið á sig sem kirkjumálaráðuneyti og þar er enginn vafi á ferð um gildi ákvæðisins í stjórnarskránni um þjóðkirkjuna.
Ég hef lýst þeirri skoðun minni, að ekki eigi að breyta því fyrirkomulagi sem stjórnarskráin mælir fyrir um, að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja hér á landi og að ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda. Ekki verður séð að það fyrirkomulag brjóti gegn trúfrelsi þeirra, sem kjósa að standa utan þjóðkirkjunnar, hvort heldur í öðrum trúfélögum eða utan skráðra trúfélaga, og hefur það reyndar verið staðfest af Hæstarétti.
Með því að viðurkenna ákveðinn söfnuð sem þjóðkirkju er að mínu mati ekki gert lítið úr vægi annarra trúfélaga. Þau eru í sínum fulla rétti og þjóna nauðsynlegu og mjög mikilvægu hlutverki í okkar þjóðfélagi, þótt prestar þar séu ekki embættismenn íslenska ríkisins og hluti af þjóðkirkjunni. Boðskapur kærleika og trúar, af hvaða rótum sem hann er, á erindi til allra. Treysti ég þar jafnt á þjóðkirkju sem og öll önnur trúfélög að flytja þann góða boðskap til að minna okkur á það sem vegur upp á móti þeim sársauka sem efnahagshrunið hefur valdið okkur, og leiðbeina okkur fram veginn.
Ég óska kirkjuþingi velfarnaðar í störfum sínum.