Skýr efnahagsstefna gegn kreppu
Eftir Össur Skarphéðinsson
"Þrátt fyrir erfitt fjárlagafrumvarp og þunga bagga sem alltof margir bera vegna hrunsins er eigi að síður ljóst að margt ákaflega jákvætt er að gerast á Íslandi."
RÍKISSTJÓRNIN er að ná betri árangri á stjórn efnahagsmála en fyrstu áætlanir Seðlabanka og AGS gerðu ráð fyrir. Það birtist meðal annars í því að atvinnuleysi er mun minna en ætlað var, og samdráttur í landsframleiðslu er einnig mun minni. Verðbólga er nú á hraðri niðurleið. Svigrúm er að skapast fyrir myndarlega vaxtalækkun, enda stýrivextir aftur byrjaðir að lækka. Afnám gjaldeyrishamla er sömuleiðis hafið. Íslendingar eru byrjaðir að endurvinna trú alþjóða fjármálamarkaða eins og staðfest er með því að skuldatryggingaálag íslenska ríkisins hefur hríðfallið undanfarna mánuði. Krónan hefur sömuleiðis styrkst mikið á aflandsmarkaði. Á sama tíma er ríkisstjórnin að gjörbreyta umhverfi sprotafyrirtækja, sem tryggja þúsundir starfa, og sömuleiðis ferðaþjónustunnar. Tímarnir eru erfiðir, en Íslendingar eru að ná árangri.
Sjö lykilþættir
Markmið ríkisstjórnarinnar var að ljúka fyrir jól sjö lykilþáttum. Þessir þættir voru að framlengja stöðuleikasáttmálann, ljúka Icesave-deilunni, sigla AGS-samkomulaginu til hafnar, koma fram lögum um leiðréttingu húsnæðisskulda, ná samningum við kröfuhafa bankanna og ganga frá endurfjármögnun þeirra, ásamt því að afgreiða sterkan framkvæmdapakka samhliða endurbótum á starfsumhverfi sólrisugreina eins og ferðaþjónustu og sprotafyrirtækja. Allir þessir þættir eru að ganga upp um þessar mundir.
Í fyrsta lagi er búið að ljúka framlengingu stöðugleikasáttmálans. Fyrir það ber ekki síst að hrósa ASÍ, BSRB, og Samtökum atvinnulífs. Þessi samtök sýndu kjark og stöðuglyndi í afstöðu sinni. Þjóðin stendur í þakkarskuld fyrir þeirra framlag.
Í öðru lagi er unnið hörðum höndum að því að ljúka lausn Icesave-málsins á þingi. Fyrir liggur frumvarp, þar sem helstu fyrirvarar laganna frá í sumar eru til staðar, en ríkisábyrgðin látin ná til þess sem kann að standa út af eftir árið 2024. Á sama tíma blasir við, að virði eignanna í þrotabúi Landsbankans er meira en ætlað var. Heimtur eru því áætlaðar ríf 90%, sem er langt umfram þau 75 % sem áður var unnið út frá. Um leið er ljóst, að hagkerfi heimsins eru að taka við sér, og það eykur möguleika á að afsetja eignirnar fyrr. Takist það munu vaxtagreiðslur Íslendinga lækka. Heildargreiðslur eru því líklegar til að verða mun minni, en margir ætluðu í upphafi sumars.
Vaxtalækkun og styrkara gengi
Í þriðja lagi er endurskoðun efnahagsáætlunar Íslands lokið hjá AGS. Pólitískar aðgerðir ríkisstjórnarinnar eiga þar ekki sístan hlut. Ávinningurinn er tvíþættur: Annars vegar mun losna um lán frá AGS, Norðurlandalánin, og pólska lánið, og hægt að byggja upp sterkan gjaldeyrisvarasjóð. Hann mun í senn leiða til meira jafnvægis um gengi krónuna, styrkja hana þegar fram í sækir og lækka þarmeð gengisbundnar skuldir. Þetta eykur enn líkur á lækkun vaxta. Ríkisstjórnin mun einnig skoða grandgæfilega, hvort ekki sé unnt að komast af með mun minni lán en fyrirhugað var, og spara þannig umtalsverðar vaxtagreiðslur. Í annan stað er afgreiðsla AGS opinber vitnisburður um að Ísland fylgir skynsamri og heilbrigðri efnahagsstefnu við að vinna sig út úr hruninu. Það mun hafa jákvæð áhrif á lánshæfi landsins og lykilfyrirtækja, og styrkja í senn möguleika innlendra fyrirtækja til að fjármagna sig, og greiða fyrir fjármagni til nýrra iðjukosta.. Lánið til Orkuveitu Reykjavíkur er lýsandi dæmi um það. Árangur ríkisstjórnarinnar varðandi AGS er lykilatriði í endurreisninni.
Endurreisn banka og skuldaleiðrétting
Í fjórða lagi hefur ríkisstjórnin unnið hörðum höndum að því að koma bönkunum í starfhæft form. Búið er að ganga tryggilega frá skilum milli gömlu og nýju bankanna, samningar við kröfuhafa eru á lokastigi og verður að öllum líkindum lokið fyrir jól. Sömuleiðis er tryggt að hluti bankanna verður í erlendri eigu sem bætir sannarlega stöðuna gagnvart erlendum fjármagnsmörkuðum. Endurfjármögnun bankanna af ríkisins hálfu er jafnframt að ljúka – með snöggtum minni kostnaði en ætlað var. Öflugir bankar munu ásamt vaxtalækkun verka einsog súrefnisrík blóðgjöf inn í atvinnulífið.
Í fimmta lagi hefur ríkisstjórnin þegar fengið samþykkt á Alþingi í góðri samvinnu við stjórnarandstöðuna lög, sem fela í sér mikilvægar úrbætur fyrir stóran hóp skuldugra landsmanna. Einstaklingar með fasteignaveðlán, hvort sem er í krónum eða erlendri mynt, eiga nú kost á greiðslujöfnun. Lenging lána verður að hámarki 3 ár, og að því loknu er kostur á niðurfellingu eftirstöðva. Sömuleiðis er búið að undirrita samkomulag um greiðslujöfnun vegna bílalána. Þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar skiptir þá sem búa við neikvæða eiginfjárstöðu og bera mikla greiðslubyrði verulegu máli.
Opinberar framkvæmdir
Í sjötta lagi er ríkisstjórnin nú búin að gefa grænt ljós á sterkan pakka opinberra framkvæmda sem margar byggjast á sterkri samvinnu. Búið er að ganga frá viljayfirlýsingu um byggingu hátæknisjúkrahúss upp á 30 milljarða. Samþykkt er að ganga frá útboði vegna Landeyjahafnar, lagningu Suðurlandsvegar sem ríkisframkvæmdar upp að Litlu Kaffistofunni sem hægt væri að þætta síðar inn í einkaframkvæmd á lúkningu alls verksins, og sömuleiðis hefur ríkisstjórnin heimilað fyrir sitt leyti að ráðist verði í bæði samgöngumiðstöðvar norðan- og sunnanlands í einkaframkvæmd, og sömuleiðis Vaðlaheiðargöng með stuðningi af gjöldum.
Í orku- og stóriðjumálum eru þegar í gangi mjög jákvæðar viðræður við lífeyrissjóði um að koma að fjármögnun Búðarhálsvirkjunar. Áformað hefur verið að þau 85 MW sem falla til í Búðarhálsi verði seld Alcan í Straumsvík, sem mun þá ráðast í innri endurbætur á álverinu í Straumsvík, og skapa við það hundruð starfa. Nógir verða um hituna hafi Alcan ekki þörf eða áhuga.
Fyrir norðan hefur iðnaðarráðherra fyrir hönd ríkisstjórnar skrifað undir viljayfirlýsingu með Landsvirkjun og þremur sveitarfélögum um stofnun félags til undirbúnings orkuframkvæmdum. Þar eru þegar til reiðu 90 MW í Bjarnarflagi og Þeistareykjum. Yfirlýsingin gefur öllum iðjukostum færi á að standa jafnfætis gagnvart nýtingu orkunnar á þessu stigi.
Um suðvesturlínu er það að segja, að falli úrskurður umhverfisráðherra á þann veg, sem orkugeirinn telur einboðinn, þá mun Landsnet æskja framkvæmdaleyfis í upphafi nýs árs, og framkvæmdir gætu hafist snemmsumars einsog ráð var fyrir gert. Línuframkvæmdirnar munu kosta 30 milljarða, og fjármögnun fyrir framkvæmdir næsta árs eru þegar tryggðar. Þegar lánshæfi Íslands batnar í kjölfar lausnar Icesave-málsins og afgreiðslu AGS munu orkufyrirtækin eiga auðveldara um fjármögnun framkvæmda á suðvesturhorninu – og annars staðar.
Athafnaskáldin
Í sjöunda lagi er ríkisstjórnin að styrkja stöðu sólrisugreina einsog sprotafyrirtækja og ferðaþjónustu með marktækum hætti. Báðar þessar greinar vinna kraftaverk á hverjum degi og frumkvöðlaþróttur beggja er einstakur. Á síðustu misserum hafa margvíslegar aðgerðir leitt til mikilla bóta á umhverfi ferðaþjónustunnar. Næsta skref er að samþykkja frumvarp um nýja Íslandsstofu, sem ekki síst mun styrkja sókn ferðaþjónustunnar og samhliða nýjum áherslum í utanríkisþjónustunni slá vel undir nára markaðssóknar erlendis.
Í sama anda hefur ríkisstjórnin ráðist í margvíslegar umbætur á starfsumhverfi sprotafyrirtækjanna. Þar má nefna markaðsstyrki, sem hafa reynst ótrúlega vel, sérstaka frumkvöðlastyrki, sex ný þróunarsetur, og reglur sem heimila að ráða sérfræðinga af atvinnuleysisskrá þannig að atvinnuleysisbætur fylgja. Frumtakssjóðurinn, sem hefur milljarða til að fjárfesta í þroskuðum sprotum, hefur haldið áætlun, og sannarlega unnið í þeim anda sem fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, ætlaði honum. Í tíð minnihlutastjórnarinnar var samþykkt tillaga mín um að hefja smíði frumvarps um skattalegar ívilnanir, sem mun gjörbreyta möguleikum sprotafyrirtækja til að þróa nýja framleiðslu. Það frumvarp, sem felur í sér flutning á 1,5-2 milljörðum árlega frá ríkinu til sprotafyrirtækja, hefur þegar verið lagt fram og rætt á Alþingi. Full ástæða er til að óska fjármálaráðherra og núverandi iðnaðarráðherra til hamingju með undirtektir við því á nýafstöðnu Sprotaþingi. Þegar áhrif þessara miklu breytinga verða að fullu komnar fram mun rekstrarumhverfi sprotafyrirtækja hvergi verða betra en á Íslandi.
Þrátt fyrir erfitt fjárlagafrumvarp og þunga bagga sem alltof margir bera vegna hrunsins er eigi að síður ljóst að margt ákaflega jákvætt er að gerast á Íslandi. Saman fer elja ríkisstjórnar við að leysa tröllaukin vandamál efnahagskreppunnar, og einstakur dugur og útsjónarsemi frumkvöðla og einstaklinga í atvinnurekstri. Stjórnarandstaðan á líka viðurkenningu skilda fyrir margar málefnalegar hugmyndir, sem hafa haft jákvæð áhrif á ákvarðanir ríkisstjórnarinnar. Menn þurfa að vinna saman. Þjóðin, þingið og ríkisstjórnin verða að einhenda sér með jákvæðum hætti í að tryggja að út úr kreppunni komi Ísland sterkara samfélag, með öflugt velferðarkerfi, og dreifðari áhættu í atvinnulífinu en áður. Það er meira en mögulegt – og innan seilingar leggist menn saman á árar.
Höfundur er utanríkisráðherra.
Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 14. nóvember 2009 (pdf)