Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. nóvember 2009 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Framsöguræða sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Framsöguræða

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um

frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 116/2006,

um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

 

Hæstvirtur forseti.

 

Í dag legg ég  fram á Alþingi nýtt frumvarp. Frumvarpið er samið í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, en með því eru lagðar til breytingar á lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Eru þær helstar eftirfarandi: 

1.      Heimilað verði að stunda veiðar í atvinnuskyni á sama tímabili og frístundaveiðar eru stundaðar.

2.      Dregið verði úr heimild til að flytja aflamark milli fiskveiðiára úr 33% í 15%, en sérstaklega kveðið á um í bráðabirgðaákvæði að á þessu fiskveiðistjórnunarári verði heimildin 10%.

3.      Línuívilnun aukin.

4.      Heimild til að kveða á um vinnsluskyldu á uppsjávarfiski.

5.      Svokölluð veiðiskylda aukin en í því sambandi tekið tillit til veiða utan lögsögu úr stofnum sem ekki teljast til deilistofna.

6.      Heimild til flutnings aflamarks frá skipi takmörkuð.

7.      Bráðabirgðaákvæði er lýtur að veiðistjórnun á skötusel og gjaldtöku fyrir úthlutun aflamarks í þeirri tegund.

8.      Skipting leyfilegs heildarafla í karfa.

Meginmarkmiðin með framlagningu frumvarpsins eru tvenns konar. Annars vegar er verið að leggja til ýmsar brýnar lagfæringar á núverandi kerfi og hins vegar er verið að leggja til tímabundnar breytingar, sem til eru komnar vegna sérstakra aðstæðna sem skapast hafa. Undirliggjandi fyrir öllum þeim hóflegu breytingum sem lagðar eru til eru efnisleg rök sem eru vel ígrunduð.

Undanfarin áratug eða lengur var á Íslandi rekin einstök tilraun sem tók til þjóðfélagsins alls. Frelsi fyrirtækja til athafna var meira en víðast hvar þekktist.  Frjálshyggja sem var heimatilbúin en einnig andaði sama napra andardrættinum frá höfuðvíginu í Brussel. Tilraunin gekk lengi og þær fáu gagnrýnisraddir sem heyrðust fyrir ári síðan voru þaggaðar niður sem afturganga löngu liðins tíma. Svo gerist það þann 6. október sl. að tilrauninni lauk snögglega. Ekki var þó ráð fyrir því gert í tilraunaskipulaginu. Henni lauk vegna eigin bresta því sennilega er þetta ein misheppnaðasta tilraun með nokkra þjóð sem gerð hefur verið. Afleiðingarnar eru lamað þjóðríki sem sleikja mun sár sín næsta áratuginn. Sú spurning vaknar hvað gerir þjóð sem í slíkum hörmungum lendir. Fer hún í sama hjólfarið og hún var í fyrir hrunið eða leitar hún annarra lausna og lagar það sem aflaga hefur farið.

Tilraunin gegnsýrði alla hluta  þjóðfélgsins og þá var sjávarútvegur þjóðarinnar ekki undanskilinn. Reikningur hans eftir veisluna miklu er ámóta og annarra. Eftir stendur svo þjóð sem er ekki lengur sátt við þennan höfuðatvinnuveg sinn og veit ekki hvað upp á sig stendur veðrið í þeim efnum.

Hluta af ósætti þjóðarinnar má beint rekja til þeirrar stöðugu kröfu útgerða að skapað verði sem mest svigrúm og sveigjanleiki í fiskveiðistjórnunarkefinu. Allt annað komi í veg fyrir hagkvæma útgerð er sagt. Þetta er krafa sem hlotið hefur slíkan hljómgrunn að til eru aðilar innan kerfis sem náð hafa endanlegu mörkum sveigjanleikans og þurfa sjaldan að dýfa öngul í sjó. Mörg önnur dæmi í svipuðum dúr mætti rekja. Margir aðilar reka hins vegar útgerð til fyrirmyndar og veiða allar sínar heimildir, en mín skoðun er að of langt hafi verið gengið í þessum efnum og næg tilefni séu til að taka skref tilbaka.

Raddir innan útgerðarinnar hafa einnig haldið því fram að hið opinbera ætti yfirleitt ekkert að koma nálægt fiskveiðistjórnuninni. Þessu væri að best fyrirkomið hjá útgerðinni sjálfri. Við þessu segi ég bara: Er þetta fyrirkomulag sem menn halda að þjóðin sætti sig við eftir það sem á hefur gengið.

Stefna stjórnvalda hefur verið að halda nokkuð styrkri hönd á þessu tímabili utan um einn þátt fiskveiðitjórnunarinnar. Það er ákvörðun heildarafla. Sú ákvörðun hefur ekki verið látin í hendur annarra þó þrýstingur hafi verið mikill. Mikilvægt er að við gerum okkur grein fyrir því að gagnstætt því sem víða er uppá teningnum í heimshöfunum, þá eru fiskimiðin í kringum landið enn gjöful og ein aðal kjölfestan sem við höfum á að byggja til framtíðar. Ekki er þó allt yfir gagnrýni hafið og þannig farið að ekki hefði mátt betur gera. Ég skal fúslega taka undir það að ég hefði viljað sjá betri árangur af uppbyggingu fiskistofna undanfarinna áratuga. Segi þó bara: Hvernig væri ástandið ef þetta hefði ekki verið gert!

Frú forseti.  Nú mun ég víkja máli mínu að einstökum efnisatriðum frumvarpsins. Megintilgangur þess er eins og áður sagði að lagfæra ýmsa smærri ágalla og hafa sum ákvæðin ekki miklar breytingar í för með sér, en þegar allt er tekið saman hef ég þá trú að frumvarpið, verði það að lögum, leiði til heilbrigðara fiskveiðistjórnunarkerfis þó grundvallarþáttum þess sé ekki hnikað.

 

Jafnframt því sem það er lagt hér fram til meðferðar Alþingis þá er rétt að vekja athygli á störfum starrfshóps sem ég skipaði í sumar. Nefndin mun mun skila af sér álti sem mun taka á hinum stóru þáttum kerfisins til þess að ná fram sátt um það meðal þjóðarinnar. Bind ég miklar vonir við vinnu þessa hóps.  Þegar að hún hefur lokið störfum og skilað af sér verða tillögur hennar metnar á eigin forsendum og um það er full sátt. Ef þær tillögur hennar sem samþykktar verða ganga þvert á það sem hér er lagt til verður auðvitað þegar að því kemur tekið tillit til þess.

Með frumvarpinu eru heimildir útgerða sem stunda frístundaveiðar, og eiga  aflaheimildir, rýmkaðar þannig að þeim skipum sem einnig hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði eftirleiðis heimilt innan sama fiskveiðiárs að stunda frístundaveiðar og veiðar í atvinnuskyni á sama tíma. Í núgildandi lögum er þetta  óheimilt og hefur það skapað vandamál fyrir þá sem leggja stund á hvorutveggja.

Frá upphafi kvótakerfisins hefur verið að finna ákvæði í lögum sem heimilar að ákveðið hlutfall aflamarks sé flutt á milli fiskveiðiára. Á síðasta ári var heimild þessi hækkuð úr 20% í 33% af aflamarki hverrar botnfisktegundar, úthafsrækju, humars og síldar. Nú er lagt til að þessi heimild verði lækkuð í 15% en ráðherra hafi þó heimild til hækkunar fyrir einstakar fisktegundir séu fyrir því haldbær rök. Sveigjanleikinn verðu eftir sem áður mikill að mínu mati. Allt að 15% geymd og í gildi eru ákvæði 11. gr. sem heimilar útgerðum að veiða 5% umfram aflamark hverrar botnfisktegundar. Sveigjanleikinn yrði sem sagt 20% og þætti sumum nóg um. Fleiri ákvæði eru í núgildandi lögum sem skapa útgerðum sveigjanleika af ýmsu tagi, eins og t.d. tegundatilfærslurnar.

 

Gengið er enn lengra á þessu fiskveiðistjórnunarári þar sem lagt er til að flutningsheimildin verði 10%. Rökin eru einfaldlega að sem mestur afli berist að landi á fiskveiðiárinu.  Þau varða því öðrum þræði ríka þjóðarhagsmuni þar sem áherslan er á að sem mestur afli komi að landi þetta árið vegna efnahagslegra ástæðna sem óþarfi er að rekja hér. Auk þess skapar of mikill sveigjanleiki af þessu taginu óvissu í fiskveiðistjórnuninni ef aðstæður breytast skyndilega líkt og allir geta séð. Samkvæmt mati Fiskistofu, með öllum fyrirvörum um aðra þætti, má áætla að þessi breyting úr 33% í 10% sé tekið mið af síðasta fiskveiðiári, hefði valdið því að 4.077 tonnum af þorski, 7.084 tonnum af ýsu, 4.026 tonnum af ufsa og 544 tonnum af steinbít hefði þurft að ráðstafa á annan hátt en með flutningi á milli ára eins og gert var ef að heimild til flutnings á milli ára hefði verið aðeins 10% það ár. Það er auðvitað ekki gefið að allur þessi fiskurinn hefði verið veiðanlegur  en menn sjá af þessu ljóslega að mikið liggur undir. Hér  er svo um að ræða breytingu sem lögð er fram rétt þegar að liðnir eru aðeins rúmir 2 mánuðir af fiskveiðiárinu sem auðvitað er aldrei æskilegt. Breytingin er þó þess eðlis að fyrir henni eru almanna rök, hún kemur jafnt við alla og felur því ekki í sér mismunun. Nægur tími ætti jafnframt að vera fyrir hlutaðeigandi til að aðlaga sig að breyttu ástandi.

Lagt er til að svokölluð veiðiskylda verði aukin þannig að miðað verði við að 50% af aflamarki skips sé nýtt með veiðum þess á hverju fiskveiðiári en ekki að það sé gert annað hvert ár eins og kveðið er á um í núgildandi lögum. Meginmarkmiðið með úthlutun aflaheimilda er að þeim sé ráðstafað til veiða innan fiskveiðiársins. Hér er lagt til að svigrúm til annarrar nýtingar verði takmarkað sem þessu nemur. Að mínu mati er ákvæði núgildandi laga alltof rúm og skortir rökstuðning. Þau er auk þess til þess fallin að ala á tortryggni.

Samkvæmt núgildandi lögum er óheimilt að flytja frá skipi meira en sem nemur 50% úthlutaðs aflamarks í þorskígildum talið nema þegar breyting hefur orðið á skipakosti útgerðar eða skip hefur horfið úr rekstri um lengri tíma vegna alvarlegra bilana eða sjótjóns. Til að stuðla að því að aflaheimildir séu nýttar til veiða er lagt til að einungis verði heimilt að flytja af fiskiskipi 50% þess aflamarks sem skipi var úthlutað á fiskveiðiárinu, í þorskígildum talið. Hér er að sama skapi verið að herða reglur í þá veru að þeir sem hafi aflaheimildir ráðstafi þeim til veiða en þær séu ekki nýttar til þess að auka tilflutninga á öðrum fisktegundum. Að mínu mati leiðir þessi breyting einnig til heilbrigðara fiskveiðistjórnunarkerfis.

Ennfremur er lagt til að framvegis verði að koma til varanleg breyting á skipakosti til að breyting á skipakosti leiði til aukinnar flutningsheimildar aflamarks. Með varanlegri breytingu á skipakosti er átt við þau tilvik þegar útgerð selur skip sitt, útgerð kaupir til sín skip og gerir út og þegar skip er tekið af skipaskrá. Ákvæði þetta er sett fram til þess að styrkja heimildir framkvæmdavaldsins til að tálma aðferð sem þekkt er og oft er kölluð “kínverska leiðin” og verður seint talin æskileg. Verði þessi breyting að lögum tekst okkur vonandi að afmá þennan blett af stjórn fiskveiða.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á ákvæði laganna sem snýr að línuívilnun, þ.e. þeirri reglu að afli sem veiddur er á línu reiknast ekki, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, að fullu til aflamarks hlutaðeigandi báts. Samkvæmt núgildandi lögum nær línuívilnun einungis til afla sem veiðist á línu sem beitt hefur verið í landi en í frumvarpi þessu er lagt til að sé lína stokkuð upp í landi taki ívilnunarregla einnig til þess afla sem á hana veiðist. Þá er hlutfall hefðbundnar línuívilnunar aukið úr 16% í 20% og ný 15% regla kemur til fyrir þá sem stokka línu í landi og ætti þá að vera tryggt að þær aflaheimildir er tilheyra línuívilnun sem m.a. eru ákveðnar í lögum verði veiddar að fullu en það hefur ekki náðst undanfarin fiskveiðiár. Ekki nýttust í línuívilnun á síðasta fiskeveiðári 1.518 tonn af þorski, 28 tonn af ýsu og 78 tonn af steinbít þrátt fyrir heimildir.  Línuívilnun á yfirstandandi fiskveiðiári er 3.375 tonn af þorski, 2.100 tonn af ýsu og 700 tonn af steinbít. Jafnframt er fallið frá þeirri skyldu vegna öryggissjónarmiða að bátur skuli landa í sömu höfn og haldið var til veiða frá. Línuívilnun er ákveðin með lögum frá Alþingi. Henni er ætlað að styðja við bakið á þeirri atvinnusköpun sem felst í beitningu í landi. Með breytingunni er eingöngu verið að aðlaga reglur þannig að lögin nái markmiði sínu um magn eins og Alþingi hefur sett það fram.

Þá er gert ráð fyrir að sett verði í lög ákvæði sem heimilar ráðherra að skylda útgerðir skipa er stunda veiðar á uppsjávarfiski til að vinna hluta aflans. Þekkt er að veiðar á ýmsum uppsjávarfiski til bræðslu hafa verið umdeildar útfrá því sjónarmiði að um sé að ræða fisk sem fyllilega sé hæfur til manneldis. Ekki síst hefur þessi gagnrýni komið erlendis frá og bið ég Alþingi að gera ekki of  lítið úr henni. Verðhlutföll afurða stjórna því að stærstum hluta hvernig útgerðir haga sinni vinnslu. Það er mat mitt að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld af ýmsum ástæðum ekki síst siðrænum og þeim er varða umgengni við auðlindina að stjórnvöld hafi þetta tæki til að hlutast til um þegar að nauðsyn krefur. Það er mat margra að það verði ekki liðið til langs tíma í samfélagi þjóðanna að góður matfiskur sé bræddur í mjöl og lýsi í heimi þar sem fyrirsjánlegur skortur er á mat. Það er áréttað að hér er beðið um heimild sem eðli málsins samkvæmt getur verið á bilinu 0 - 70%. Heimildin er stefnumarkandi og alls ekki er víst að henni þurfi að beita. Með samþykkt verður hinsvegar alveg ljóst til hvers vilji Alþingis stendur í þessum efnum þegar til framtíðar er litið.

Útbreiðsla skötusels við Ísland virðist aukast í samræmi við hærri sjávarhita við landið. Þessar breytingar koma mjög skýrt fram í upplýsingum frá Hafrannsóknastofnuninni um veiði og breytingar á sjávarhita á síðast liðnum árum. Fiskifræðingar og starfsmenn Hafrannsóknastofnunarinnar lýsa þessum breytingum á veiðisvæðum, hækkandi sjávarhita, nýliðun og vexti skötusels afar vel í grein í tímariti hins íslenska náttúrufræðifélags, Náttúrufræðingnum 2006.

 

Við upphafsúthlutun kvóta í skötusel 2001 voru 402 skip með úthlutun, að vísu sum með aðeins fá kíló. Þróunin síðan hefur verið sú að veiðiskipum með kvótaúthlutun í upphafi fiskveiðiárs fækkar um 20-40 árlega og er nú 157 fiskiskip með upphafsúthlutun. Af þeim fjölda eru 51 fiskiskip með 2.037 tonn af skötusel ef miðað er við 10 tonn eða meira. Samtals eru þessi 51 skip með 90% af kvótanum, en 106 fiskiskip með 213 tonn eða 10% af kvótanum. Við skoðun á þeim sem eru með mest virðist svo að það séu einnig sömu útgerðir og leigja mest frá sér. Fyrir liggur að 11 af kvótahæstu skipunum ráðstafa frá sér 83% af aflaheimildunum með öðru en veiðum sem er þá annaðhvort leiga eða skipti. Tvö þeirra veiða svo ekki neinn skötusel.

 

Árið 2001 er ákveðið að skötuselur verði færður í aflamarkskerfið. Væntanlega var kvótasetning á hvert skip byggð á veiði áranna 1998 til 2000 en athygli vekur að ekki lá á þeim tíma fyrir ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar sem þó hefur yfirleitt verið talin forsenda heildaraflamarksákvörunar. Samkvæmt upplýsingum úr aflaskýrslum veiðiskipa var öll veiði á skötusel árin 1995-2000, bæði ár meðtalin, frá Selvogsbanka í vestri og austur í Hornafjarðardýpi.  Skötuselsafli var hægt vaxandi á þessu svæði við Suðurströndina frá 176 tonnum árið 1995 upp í 1.023 tonn árið 2000. Síðan minnkar skötusels aflinn niður í 571 tonn árið 2002 og fer ekki að aukast aftur fyrr en frá árinu 2003 og þá með mjög vaxandi veiði skötusels á nýjum veiðisvæðum við Reykjanes, í Faxaflóa og við Snæfellsnes. Nú síðustu ár í Breiðafirði og allt norður á Vestfirði er orðið mikið vart við skötusel og jafnvel útaf Norðurlandi líka. Frá 2005 hefur afli af skötusel verið yfir 2.000 tonn og var 3.400 tonn 2008/2009 og mest af veiðinni er á nýjum veiðisvæðum vestan Selvogsbanka og fyrir Vesturlandi sem voru ekki inni þegar skötuselur var settur í kvóta árið 2001 eins og áður sagði.

 

Við ákvörðun heildar aflamarks í sumar fyrir fiskveiðiárið 2009/2010 var úthlutað heildaraflamarki upp að 2.500 tonnum sem var í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunarinnar en veiðin 2008/2009 var 3.400 tonn. Núverandi umráðamenn hludeildar hafa því fengið hefðbundna úthlutun og á rétt þeirra er ekki gengið. Ég tiltók þá að ég myndi úthluta viðbótaraflamarki en það yrði gert með öðrum hætti. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins dagsett tíunda júlí síðast liðinn sem fylgdi ákvörðun um heildaraflamark frá því í sumar sagði:

 

“Ráðherra tekur þó fram að hann hefur í hyggju að skoða aðrar leiðir til viðbótar varðandi fiskveiðistjórn í skötusel.”   

 

Að þessu sést að það hefur allan tímann verið unnið eftir ákveðinni áætlun sem ekkert hefur breyst og með þessum opna hætti.

 

Rökin fyrir viðbótinni er hin gríðarlega aukna útbreiðsla, ekki liggja fyrir áhrif þessa fiskjar á lífríkið og veiðin hefur aukist. Þessu til staðfestingar er hér bent á að í dag skv. skýrslum Fiskistofu er nú þegar búið að veiða tæp 56% af heildaraflamarki ársins og það þrátt fyrir að aðeins séu liðnir rúmir tveir mánuðir af þessu fiskveiðiári. Þetta er hærra hlutfall en áður þekkist.  Með vísan til þessa er hér lagt til að sett verði ákvæði til bráðabirgða sem heimilar ráðherra á fiskveiðiárunum 2009/2010 og 2010/2011 sérstaka ráðstöfun hvort ár á allt að  2.000 lestum af skötusel án þess að þeim verði úthlutað á grundvelli aflahlutdeilda í tegundinni. Gert er ráð fyrir að útgerðum skipa sem hafa leyfi til veiða í atvinnuskyni verði heimilað að sækja um að fá í hvert sinn að hámrki 5 tonn af þeim aflaheimildum gegn greiðslu gjalds. Aflaheimildir þessar eru ekki framsegjanlegar, skapa engan rétt og geta ekki nýst á nokkurn annan hátt í fiskveiðistjórnunarkerfinu en til veiða. Gert er ráð fyrir reglugerðarheimild í frumvarpinu þar sem þetta o.fl. verður útfært nánar.  Eins er gert ráð fyrir að tekjur af aflaheimildum renni í ríkissjóð og skuli ráðstafað á þann veg að 40% hluti þeirra renni í rannsóknasjóð til að auka verðmæti sjávarfangs og 60% hluti renni í byggðaáætlun með það að markmiði að stuðla að atvinnuþróun og nýsköpun í sjávarbyggðum undir forsjá iðnaðarráðherra. Tiltekið er að um brýna ráðstöfun er að ræða sem er í samræmi við stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar um brýnar aðgerðir vegna stjórnunar fiskveiða. Aðgerðin er tímabundin og einstök að því leyti að hún tekur á nær fordæmislausum breytingum á útbreiðslu nýs stofns sem eru tilkomnar að líkindum vegna hlýnunar loftslags og hækkandi hita sjávar.  Af þessu leiðir að ráðuneytið telur að málefni skötusels séu svo sérstök að ekki sé um að ræða fordæmi fyrir grundvöll fiskveiðistjórnunarinnar yfirleitt og er ákvæðið sett til bráðabirgða til að taka af allan vafa í því sambandi. 

Þá eru bráðabirgða ákvæði sem varða skiptingu úthlutunar karfaaflaheimilda í gullkarfa og djúpkarfa þar sem Hafrannsóknunarstofnunin setur nú fram tvískipta ráðgjöf fyrir karfann og ákvæði sem kveður á um að úthlutað aflamark í úthafsrækju leiði ekki til þess að fiskiskip missi aflahlutdeild í úthafsrækju eða öðrum tegundum 2009/2010, en samhljóða ákvæði hefur verið í gildi síðast liðin fjögur fiskveiðiár. Vakin er athygli á því að ekki er endunýjuð heimild til þess að eingöngu veiðar á úthafsræju skuli bera veiðigjald. Það ásamt takmörkun á flutningi á milli skipa ætti að stuðla að auknum veiðum á þessari tegund. Jafnframt er ákvæði sem takmarkar heimild til flutnings aflamarks á yfirstandandi fiskveiðiári við 10% sem ég hef áður getið.

Hæstvirtur forseti!

 

Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstvirtrar sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar og annarrar umræðu.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta