Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

24. nóvember 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ræða á fundi ungra jafnaðarmanna um mansal

Ræða á fundi ungra jafnaðarmanna, Hallveigarstíg 1, 24. nóvember 2009

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra

Ágæta samkoma,

Það er mér mikil ánægja að vera hér með ykkur í dag þar sem markmiðið er að vekja athygli á því mikilvæga málefni sem mansal er.

Mikil vitundarvakning hefur orðið í íslensku samfélagi um mansal undanfarnar vikur. Þannig hefur það vart farið fram hjá neinum sem fylgst hefur með fjölmiðlum að mansal er staðreynd hér á landi líkt og í svo mörgum öðrum ríkjum heims. Þó Ísland sé mjög ákjósanlegt sem gegnumstreymisland fórnarlamba vegna landfræðilegrar legu sinnar milli Ameríku og Evrópu getum við ekki lokað augunum fyrir því að hér á landi fyrirfinnast einnig fórnarlömb mansals.

Í fyrsta sinn er nú fyrir íslenskum dómstólum mál þar sem ákært hefur verið fyrir brot gegn 227. gr. a almennra hegningarlaga. Þá hefur lögreglan til rannsóknar mál þar sem talið er að mansal hafi átti sér stað með Ísland sem áfangastað fórnarlambsins en ekki viðkomuland eins og oftast er.

---

Mansal er þekkt um allan heim og er það talið vera sú glæpastarfsemi sem er í hvað örustum vexti nú um stundir. Verslun með fólk í hagnaðarskyni er stórkostlegt brot gegn grundvallarréttindum og mannlegri virðingu þeirra sem fyrir verða. Það nútíma þrælahald sem í brotinu felst felur í sér ofbeldi, frelsissviptingu, blekkingu og misnotkun og er það yfirleitt tilkomið vegna fátæktar og atvinnuleysis í heimalandi en glæpirnir eru knúnir af eftirspurn á áfangastað. Fórnarlömbin eru gjarnan blekkt með loforðum um góða atvinnu erlendis sem síðan reynist ekki vera á rökum reist. Fórnarlamba mansals bíður oft vændi á vegum skipulagðra glæpasamtaka eða annars konar kynlífsþjónusta. Ánauð mansals getur einnig falist í nauðungarvinnu eða ólöglegu brottnámi líffæra. Að mati Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eru að minnsta kosti 2.45 miljónir fórnarlamba mansals sem búa við misnotkun í hagnaðarskyni fyrir aðra og að um það bil 1,2 miljónir fórnarlamba séu seld árlega, bæði innan ríkis sem og þvert yfir landamæri.

Þótt mansal sé yfirleitt tengt annarri skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi, svo sem ólöglegri verslun með vopn og eiturlyf, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka sem starfrækt er af stórum, skipulögðum – oft alþjóðlegum – glæpahópum, geta gerendur þess einnig starfað einir eða í litlum hópum. Því getur jafnvel verið þannig háttað að fórnarlambið sé upphaflega selt af einhverjum í nánustu fjölskyldu þess. Það einkennir mansal að fórnarlömb þess eru iðulega seld aftur og aftur á meðan þrælasalinn sér fram á hagnað af sölunni. Algengt er fórnarlambið sjálft sé krafið um ýmis konar kostnað sem leiðir til þess að fórnarlambið festist í neti skuldar sem vex með hverri sölu með þeim afleiðingum það nýtur sjaldnast nokkurs ábata sjálft.

Í mansali felst fyrst og fremst brot gegn mannréttindum þess sem fyrir verður enda ógnar glæpurinn lífi og heilbrigði fórnarlambanna. Auk þessa grefur mansal undan réttarríkinu og stefnir í hættu menningarlegum, félagslegum og efnahagslegum stöðugleika ríkja. Starfsemi sem þessi virðir engin landamæri og er því mikilvægt fyrir sérhvert ríki að taka þátt í alþjóðasamvinnu á þessu sviði. Íslensk stjórnvöld hafa lagt sérstaka áherslu á baráttuna gegn mansali á alþjóðlegum vettvangi og þá helst á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og Evrópuráðsins. Á vegum ÖSE

fer fram margþætt starf á sviði átakavarna og öryggismála auk eflingar mannréttinda og lýðræðis í aðildarríkjunum. ÖSE hefur á undanförnum árum markvisst eflt starfsemi sína gegn mansali með sértækri aðstoð við einstök aðildarríki, m.a. á sviði lagasamvinnu, fræðslu almennings og þjálfunar lögreglumanna og landamæravarða. Í þessu sambandi má einnig geta þess að Ísland á fulltrúa í starfshópi Norðurlandanna og Eyrstrarsaltsríkja sem skipaður var árið 2002 til þess að vinna gegn mansali.

Í matsskýrslu ríkislögreglustjóra á skipulagðri glæpastarfsemi og hættu á hryðjuverkum frá því í febrúar á þessu ári kemur fram að skipulögð vændisstarfsemi er staðreynd hér á landi og að starfsemin tengist oft fíkniefnaheiminum. Efnahagsörðugleikum og vaxandi atvinnuleysi fylgi hætta slík starfsemi eflist hér á landi. Ennfremur kemur fram í skýrslunni að grunur um mansal á Íslandi hafi löngum verið tengdur nektardansstöðum og vændi og að Ísland virðist einkum vera gegnumstreymisland hvað varðar smygl á fólki.

Þau tilvik sem benda til mansals hér á landi eru flest tengd kynlífsþjónustu og í einhverjum tilfellum nauðungarvinnu. Ekki eru þekkt dæmi þess að Ísland sé upprunaland fórnarlamba mansals.

---

Hins síðustu ár hefur verið gripið til ýmissa ráðstafana af hálfu hins opinbera til þess að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi og mansali.

Má þar í fyrsta lagi ber hér að nefna þá breytingu sem gerð var á hegningarlögunum árið 2003 þannig að við lögin bættist nýtt ákvæði, 227. gr. a, þar sem mansali var lýst sem sjálfstæðu broti. Með breytingunni var í fyrsta sinn í íslenskri löggjöf skilgreint hvað felst í mansali sem refsiverðri athöfn. Ég hef nú lagt fyrir Alþingi frumvarp um breytingu á almennum hefningarlögum þar sem lagt er til að orðalag 227. gr. a verði fært til samræmis við 3. gr. Palermó bókunarinnar um mansal og 4. gr. Evrópuráðssamnings um aðgerðir gegn manasali, með nákvæmari hætti en nú er. Þá er í frumvarpinu einnig mælt fyrir um breytingar á hegningarlögunum sem ætlað er að stuðla að samræmi milli íslenskrar löggjafar og Palermó samningsins. Þá get ég einnig upplýst að í ráðuneytinu er nú unnið að gerð frumvarps um breytingu á lögum um útlendinga sem felur í sér rétt fórnarlamba mansals til dvalarleyfis í samræmi við skuldbindingar Íslands samkvæmt Evrópuráðssamningnum um aðgerðir gegn mansali.

Þá var einnig gerð mikilvæg breyting á hegningarlögunum í apríl á þessu ári þar sem kaup á vændi voru gerð refsiverð. Í ákvæðinu er það virt til þyngingar refsingunni ef greiðslu eða annars konar endurgjaldi er heitið fyrir vændi barns undir 18 ára aldri.

Í öðru lagi voru gerðar breytingar á skipulagi lögreglunnar árið 2007 sem ætlað var að gera lögregluna betur í stakk búna til þess að glíma við skipulagða glæpastarfsemi. Var m.a. komið á fót greiningardeild sem heyrir undir embætti ríkislögreglustjóra en henni er ætlað að rannsaka landráð og brot gegn stjórnskipan ríkisins og æðstu stjórnvöldum þess og leggja mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Þá á lögreglan í samstarfi við Norðurlöndin, Shengen ríkin og Bandaríkin á sviði löggæslu og starfar íslenskur tengifulltrúi ríkislögreglustjóra í höfuðstöðvum Europol í Haag.

Í þriðja lagi má nefna að á árinu 2008 voru samþykkt ný lög um meðferð sakamála sem komu í stað laga um meðferð opinberra mála frá 1991. Með lögunum voru rannsóknarheimildir lögreglu í sakamálum styrktar.

Í fjórða lagi má nefna að í löggæsluáætlun fyrir árin 2007 til 2011 var gerð ákveðin forgangsröðun á verkefnum löggæslunnar og kemur þar fram að aðgerðir lögreglu gegn skipulagðri glæpastarfsemi séu þar einkar mikilvægar.

Þrátt fyrir mikilvægi þeirra aðgerða sem ég hef nú lýst er ekki síður mikilvægt að stjórnvöld hafi markað sér ákveðna stefnu í þessum efnum og taki afstöðu til þessara brota.

Félags- og tryggingamálaráðherra skipaði starfshóp um gerð aðgerðaráætlunar gegn mansali í janúar 2008. Var það hlutverk hópsins að fjalla um með hvaða hætti standa mætti að gerð og framkvæmd heildstæðrar áætlunar um aðgerðir gegn mansali á Íslandi. Hópurinn skilaði niðurstöðum um miðjan mars á þessu ári og Þann 17. mars samþykkti ríkisstjórn Íslands fyrstu aðgerðaráætlun stjórnvalda gegn mansali. Með aðgerðaáætluninni er staðfest sú skýra stefna stjórnvalda að berjast gegn þeim skelfilega glæp sem í mansali felst. Markmið aðgerðaáætlunarinnar er m.a. koma betra skipulagi á þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess koma í veg fyrir mansal hér á landi og mansal verði rannsakað nánar. Ennfremur kveður áætlunin á um aðgerðir sem miða að forvörnum og fræðslu um málefnið sem og um aðstoð og vernd fórnarlambanna. Þá er áhersla lögð á aðgerðir sem miða að því gerendur verði sóttir til saka.

Ruth Pojman, varamansalsfulltrúi ÖSE, var tók þátt í opnum morgunverðarfundi um aðgerðir gegn mansali, en fundurinn var haldinn í samvinnu utanríkisráðuneytisins og dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins þann 30. október síðastliðinn. Bar hún lof á aðgerðaráætlun íslenskra stjórnvalda, sem hún sagði vera ítarlega og innihalda þá þætti sem nauðsynlegir væru. Mikilvægast af öllu væri þó að áætluninni væri fylgt í framkvæmd. Minnti hún á að þeir sem standa að baki mansali væru skrefi á undan þeim sem berðust gegn því, og að ímyndunarafli hinna fyrrnefndu séu lítil takmörk sett þegar kemur að því að finna nýjar leiðir til að hneppa fólk í ánauð.

Vinna samkvæmt aðgerðaráætluninni er þegar hafin. Þannig hefur Sérfræði- og samhæfingarteymi verið komið á fót en teyminu er ætlað að hafa yfirumsjón með mansalsmálum á Íslandi og tryggja ætluðum fórnarlömbum mansals, þar á meðal börnum, veitt aðstoð, öruggt skjól og vernd. Aðild teyminu eiga fulltrúar viðeigandi ráðuneyta, opinberra stofnana og frjálsra félagasamtaka. Meðal verkefna teymisins, eins og þeim er lýst í áætluninni, er fræðsla til fagstétta og opinberra starfsmanna sem aðkomu hafa mansalsmálum, fræðsluherferð sem meðal annars hefur það markmiði að koma í veg fyrir ungir karlmenn gerist neytendur á kynlífsmarkaði. Teyminu er einnig ætlað að hafa yfirumsjón með rannsóknum og skráningu mansalsmála. Einnig má hér geta breytinga á hegningarlögum og lögum um útlendinga svo sem áður hefur komið fram.

Ágætu gestir

Atburðir síðustu vikna hafa gert okkur öllum ljóst að Ísland getur verið áfangastaður fórnarlamba mansals líkt og hvert annað ríki í heiminum. Á þessum tíma hefur mikið reynt á lögregluna, félagsmálayfirvöld og frjáls félagasamtök. Hefur samvinna þessara aðila verið til fyrirmyndar og eiga þau öll skilið hrós og ekki síst þakkir fyrir.

Það er íslenskum stjórnvöldum mikilvægt að taka þátt í alþjóðlegri samvinnu sem miðar að því að uppræta þetta nútíma þrælahald sem öllum ríkjum heims stafar ógn af. Hvorki konur, menn né börn ættu að sæta ofbeldi og misnotkun öðrum til hagnaðar. Slíkt brot á grundvallarmannréttindum má aldrei líðast. Til þess að unnt verði að vinna bug á mansali þarf aukna fræðslu, vitundarvakningu meðal almennings og skilvirkt alþjóðlegt samstarf.

Það varðar okkur öll þegar brotið er gegn grundvallarmannréttindum og mannvirðingu einstaklinga með svo stórkostlegum hætti. Aldrei má gleyma að á bak við hvert brot leynist manneskja sem leiðst hefur út í ömurlegar aðstæður í leit að betra lífi.

Mansal kemur okkur öllum við og er nauðsynlegt að við tökum fullan þátt í baráttunni gegn þessum skelfilegu glæpum.

Grein

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta