Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. desember 2009 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp í Hafnarfjarðarkirkju

 

Ávarp í Hafnarfjarðarkirkju 13. desember 2009
Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra

------------------

Það er mér mikill heiður og ánægja að vera boðin hingað í Hafnarfjörðinn í kvöld í tilefni aðventunnar og jólanna, hátíðar gleði og friðar. Ég ákvað að nota þetta tækifæri til að líta upp úr daglegum verkefnum og láta hugann reika – að fílósófera um lífið og tilveruna, í stað þess að þylja yfir ykkur allt það sem við erum að gera í ráðuneytinu um þessar mundir. Ég á líka rætur mínar að rekja hingað í fjörðinn svo sem ég kem nánar að á eftir og því finnst mér vera við hæfi að vera persónulegri við ykkur en ég hefði kannski ella verið.

Það er mjög hollt að líta uppúr dagsins önn eitt andartak. Ég hef reyndar sjaldan veitt mér þann munað á aðventu. Því valda langir vinnudagar og allt það sem maður þarf að gera fyrir jólin – áður en hendi veifað eru nokkrir dagar til jóla og ótal hlutir ógerðir. Ég heiti því á hverju ári að í þetta skipti skuli það vera öðruvísi – en ég á greinilega margt ólært því mér hefur enn ekki tekist að komast á það stig að undirbúa jólin í rólegheitunum.

Á aðventu er samkennd og samhjálp í fyrirrúmi – vitaskuld ætti að vera svo allt árið um kring. Við ættum að strengja þess heit að halda áfram á þessari braut eftir hátíðarnar og láta það endast út árið. Margir eru hjálpar þurfi og enginn veit í raun hvort og hvenær hann þarf líka á hjálp að halda – við getum öll lent í áföllum.

Kynslóðirnar eiga því að venjast núorðið að vera framar kynslóðinni á undan. Þeir, sem vaxið hafa úr grasi síðustu áratugina hafa almennt séð haft það betur en mamma og pabbi eða afi og amma. Ég verð reyndar að játa það, að þegar yfir okkur dundu jákvæðar fregnir af auknum hagvexti, þá velti ég því fyrir mér: Hvaðan kemur allur þessi hagvöxtur?

Er það svo að heimurinn býr yfir ótakmarkaðri auðlegð – að það sé bara galdurinn að kalla hana fram? Af hverju voru menn þá ekki búnir að því fyrir löngu síðan?

Nú kemur í ljós að öll þessi auðlegð var bara tilbúningur. Unga fólkið, sem þekkti varla annað en að fá jákvæðar fregnir af efnahagi landsins, örvæntir og hefur kannski orðið fyrir áfalli í fyrsta sinn. Og það er svo skrýtið við áföll, að fyrstu áföllin eru þau allra verstu. Því maður hefur enga reynslu til að byggja á sem segir manni að það sé hægt að komast yfir þau.

Þarna hafa eldri kynslóðirnar mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Unga fólkið verður að fá leiðsögn um það, að það er hægt að komast yfir áföll, þótt útkoman á endanum er ekki alveg sú sem vonast var eftir. Leiðsögnin getur verið innan fjölskyldu, í kirkjunni eða annars staðar þar sem fólk á samskipti. Það er svo mikilvægt að missa ekki trúna á lífið og tilveruna. Jákvæðni er dýrmætur eiginleiki sem má ekki glatast.

Ég hef verið svo lánsöm að hafa notið samvista við afa og ömmur sem sögðu mér frá liðinni tíð. Þótt öll séu þau nú gengin á braut enduróma margar reynslusögur í minningunni, sem kenna mér það, að nota allra reynslu til góðs. Það er ómetanlegt að heyra þá eldri segja frá reynslu sinni – hvað ungur nemur, gamall temur. Þetta verðum við öll að muna þegar kemur að okkur að segja frá.

Þeir sem eldri eru geta sagt frá áföllum og hvernig við var brugðist. Áföll á borð við dauðsföll, eignamissi og hungur. Og nú vill svo til að ég ætla að segja ykkur sögu um áfall í Hafnarfirðinum árið 1912, en sagan gæti allt eins verið jólasaga.

Langamma mín, Guðrún Árnadóttir, fædd árið 1879, var alin upp á Kjalarnesi og átti 9 systkin, 3 systur og 6 bræður, og voru þeir allir sjómenn.

Rétt fyrir aldamótin 1900 giftist hún Sigurði Jónassyni  og þau byrjuðu fljótlega að búa í  Ási hér við bæinn. Eignuðust þau 9 börn. Sigurður varð ekki langlífur og  drukknaði 1912 með kútter Geir. Stóð Guðrún þá  ein  uppi með stóran barnahóp í Ási, það yngsta var afi minn, Jónas Sigurðsson, þá  eins árs gamall. Slíkt áfall var gífurlegt en langt frá því að vera af óþekktri stærðargráðu á þeim tímum. Við Guðrúnu og börnum hennar blasti ekki björt framtíð; kjörin voru bágborin og hætta á að heimilið, án fyrirvinnu, yrði leyst upp.

Enda fór í framhaldi allur bústofninn á uppboð, og án bústofnsins yrði vonlaust fyrir fjölskylduna að búa saman að Ási. Þau tíðindi gerðust hins vegar að enginn mætti á uppboðið til að bjóða í bústofninn. Í fjölskyldu minni er almælt að þannig vildu Hafnfirðingar sýna  Guðrúnu og börnum hennar samhug í verki. Í framhaldinu gafst Guðrúnu  tími til að finna  ráð til að halda saman heimilinu.

Þegar þrír bræður Guðrúnar drukknuðu síðar með  togaranum Róbertson í Halaveðrinu þá tók hún ásamt seinni manni sínum Oddgeiri Þorkelssyni dóttur Björns bróður síns í fóstur í Ás. Guðrún stundaði alla tíð sinn búskap að Ási og tókst að sjá fjölskyldunni farborða.

Börn Guðrúnar urðu allt dugnaðarfólk og synirnir allir þekktir sjómenn á sinni tíð.  

Þessi saga, um samhug í verki, finnst mér viðeigandi að rifja upp nú og einkar gaman að segja frá henni hér í firðinum. 

 Guðrún þótti vel gefin og vitur kona. Hún lést í hárri elli árið 1973 hér í bæ.

Í blaðinu Hamri á jólunum 1967 á Guðrún Árnadóttir frá Ási þessi heilræði handa ungu fólki.

„Því segi ég við þig unga stúlka, og þig ungi maður: Stundaðu nám þitt af kostgæfni og  trausti á sjálfan þig, berðu virðingu fyrir kennurum þínum og yfirboðurum þínum – því þegar fram í sækir nýtur þú virðingarinnar sjálfur.“

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og árs og friðar.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta