Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. mars 2010 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp á afmælisráðstefnu Stígamóta, 8. mars 2010

Ragna Árnadóttir dómsmála- og mannréttindaráðherra

Ráðstefna Stígamóta, 8. mars 2010

----------------------

Komið þið sæl,

Ég vil í upphafi óska Stígamótum hjartanlega til hamingju með stórafmælið. Það er gott að halda upp á slíkt tilefni og tilvalið tækifæri til að minna samfélagið á það öfluga starf sem innt er af hendi hjá Stígamótum. Við skulum hafa það hugfast að það hefði aldrei orðið að veruleika nema með fórnfúsu starfi öflugs hugsjónafólks, og óska ég þeim sérstaklega til hamingju með þennan áfanga.

Og mér finnst það við hæfi að halda upp á afmælið með þeim hætti sem hér verður gert í dag. Vekja athygli á þörfu málefni. Stígamót hafa beitt sér í mörgum þjóðþrifamálum og nú er fókusinn settur á það, hve fá nauðgunarmál rata til dómstóla.

Ég leyfi mér að fullyrða að það er skylda ríkisvaldsins að láta það málefni til sín taka, hvort sem það er löggjafinn, framkvæmdarvaldið eða ákæruvald, lögregla  og dómstólar. Það hlýtur að vera okkum öllum áhyggjuefni hvers vegna málin eru svona fá þegar mun fleiri leita til Neyðarmóttöku og Stígamóta en kærð mál segja til um.

Þetta er vitaskuld úrlausnarefni fyrir fleiri en ríkisvaldið, þetta er úrlausnarefni fyrir samfélagið í heild. Við verðum að berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Tiltölulega óheftur aðgangur að klámi hlýtur að hafa sitt að segja, en rót vandans er kannski öllu dýpri og snýst ekki einungis um aðgang heldur líka eftirspurn. Því eftirspurn eftir klámi er sannarlega til staðar. Og hvað er þá klám? Er skilgreining hugtaksins lifandi – getur hún breyst eftir því sem neytandinn forherðist og þol hans eykst? Verðum við ónæmari fyrir þessu öllu saman eftir því sem afþreyingarefnið gengur lengra, svo sem í sjónvarpi og kvikmyndum? Og er það bara í lagi?

Staða konunnar í þessu öllu saman er mjög umhugsunarverð en við skulum ekki gleyma því að það er staða karlsins einnig.

En ég ætla ekki að gerast einn allsherjar siðapostuli hér í dag. Ég er einungis að vekja máls á nokkrum þáttum okkar samfélags sem ég tel að við ættum að skoða betur jafnframt því sem við hugum að því, hvað sé unnt að gera þegar búið er að fremja glæpinn. 

Eitt brýnasta úrlausnarefni okkar nú að finna saman leiðir til þess að bæta málsmeðferð kynferðisbrotamála.

Okkur er það öllum hollt að endurskoða og endurmeta það kerfi og þær reglur sem við höfum sett okkur um meðferð og rannókn þessara mála, í ljósi reynslunnar. Því það má ekki verða þannig að kerfið tálmi, seinki eða jafnvel komi í veg fyrir að brot gegn svo mikilsverðum grundvallarréttindum rati fyrir dómstóla. Við sem samfélag höfum ekki efni á því að slíkt geti átt sér stað.

Og við þurfum líka að bregðast við nýjum verknaðaraðferðum, því með nýrri tækni hafa skapast ný tækifæri til þess að brjóta gegn kynfrelsi karla og kvenna.

Nýir möguleikar sem felast meðal annars í myndbirtingum á netinu, ærumeiðandi ummælum á heimasíðum, myndaskipti í símum. Slíkar hótanir og slíkar þvingunaraðferðir er nýr raunveruleiki í íslensku samfélagi og við eigum að búa yfir hugrekki til að horfast í augu við það að ef til vill eru þær reglur sem við búum við ekki undir hinn nýja raunveruleika búnar.

Því er það mín skoðum að við eigum að leita til þeirra sem starfa að málaflokknum. Við eigum að heyra þeirra sjónarmið og skoðanir, og draga lærdóm og þekkingu af reynslu þeirra. Og spyrja okkur svo, hvernig getum við gert betur. Hvernig er unnt að búa lagaumhverfi og framkvæmdina þannig úr garði að við bætum okkur þegar kemur að rannsókn og saksókn í nauðgunarmálum.  Það er stóra spurningin!

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta