Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

19. maí 2010 DómsmálaráðuneytiðRagna Árnadóttir, dómsmála- og mannréttindaráðherra 2009-2010

Ávarp á fundi með foreldrum og aðstandendum samkynhneigðra, 19. maí 2010

Ragna Árnadóttir
dómsmála- og mannréttindaráðherra

Ávarp á fundi með foreldrum og astandendum samkynhneigðra,
19. maí 2010

-------------------

 Kæru fundargestir.

Ég vil byrja kvöldið á að þakka ykkur fyrir að bjóða mér á ykkar fund, til að ræða frumvarpið um ein hjúskaparlög fyrir alla. Sem reyndar er efnislega í samræmi við ályktun félags ykkar sem beint var til Alþingis í desember 2005. 

Og nú fimm árum síðar er það mér mikill heiður að fá að ræða þetta mál við ykkur, og vonast ég til þess að hér komi fram allar þær spurningar og þær athugasemdir, sem þið kunnið að hafa um málið. Því öll sjónarmið eru mikilvæg og þurfa að heyrast. Hér er ekkert undanskilið.

En ég vil fyrst fara yfir efni frumvarpsins. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum lögum, það er svokallaður bandormur og það er sjálft kannski ekki mjög læsilegt. 

Innihaldið bætir samt fyrir þetta, en megin efnisbreytingarnar eru lagðar til á sjálfum hjúskaparlögum auk þess sem lagt er til að lög um staðfesta samvist verði felld á brott því þau verða óþörf.

Rauði þráðurinn í þessari fyrirhuguðu lagasetningu er að koma á einum hjúskaparlögum, líkt og fram kemur í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarflokkanna, en yfirlýsing er kveikjan að því að við réðumst í þetta verkefni nú.

Í frumvarpinu er því lögð til sú meginregla að allir séu jafnir fyrir lögunum, hvort sem þeir eru af gagnstæðu eða sama kyni, þegar kemur að hjúskap.  

Hér eftir gildi sú regla að tveir einstaklingar geti gengið í hjúskap óháð kynferði.

Þetta er í rauninni stórt skref, þótt færa megi rök fyrir því að svo sé ekki  lagalega. Við gerð frumvarpsins,  sem var samið á vegum Rannsóknastofnunar Ármanns Snævarr að tilhlutan dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, var litið til þróunar réttinda samkynhneigðra á Íslandi. Þá var aflað upplýsinga um þróun löggjafar í öðrum löndum og þær leiðir sem farnar hafa verið þar til að heimila samkynhneigðum að stofna þar til hjúskapar. Einnig var tekið tillit til alþjóðlegra samninga sem Ísland er aðili að og mannréttindasjónarmiða.

Hafa verður í huga að hjúskapur er fyrst og fremst borgaraleg stofnun. Löggjöf um hjúskap skilgreinir þetta viðurkennda sambúðarform á hverjum tíma og markar hverjir megi ganga í hjúskap og hver hjónavígsluskilyrði skuli vera. Þá er það löggjafans að ákveða hvaða réttaráhrif fylgja stofnun hjúskapar.  

Löggjafinn hefur styrkt þetta sambúðarform umfram önnur með tilliti til þess að hjúskapurinn er ein af sterkustu grunnstoðum fjölskyldunnar í samfélaginu. Hjúskapurinn á sér djúpar rætur í löggjöf og menningu og segir í greinargerð með frumvarpinu að grunnstoðir hjónabandsins séu byggðar á hugmyndum um gagnkvæma ást, festu og varanleika.

Því ætti löggjafinn með þetta í huga að gera greinarmun á því hvort einstaklingar í hjúskap séu af gagnstæðu eða sama kyni? Þessi spurning verður einkum áleitin þegar litið er til þeirrar þróunar sem átt hefur sér stað undanfarin ár í réttindum samkynhneigðra. Og í því sambandi er sú spurning áleitin hvort rétt sé að gera greinarmun á þeirri umgjörð sem löggjöfin skapar slíku borgaralegu sambandi – sambandi sem byggir á gagnkvæmri ást og trausti?  

En nú búum við að því að það er gerður slíkur greinarmunur í gildandi lögum.  

Nú geta tveir einstaklingar af sama kyni stofnað til staðfestrar samvistar, en karl og kona geta stofnað til hjúskapar. Staðfesting samvistar hefur með tilteknum undantekningum sömu réttaráhrif og stofnun hjúskapar og gilda ákvæði laga um hjúskap því almennt um staðfesta samvist. Sá mismunur sem enn er á þessum tveimur sambúðarformum var réttlættur á sínum tíma með því að staðfest samvist þyrfti að festa sig í sessi sem viðurkennt sambúðarform og því væri réttast að fara hægt í sakirnar.

En það var árið 1996 og því má leiða rök að því að þau rök sem sett voru fram fyrir því að hafa mun á þessu tvennu, hjúskap og staðfestri samvist, séu orðin úrelt, nú sé tími kominn til að löggjafinn festi enn frekar hjúskapinn í sessi sem sterkustu grunnstoð fjölskyldunnar í samfélaginu og það séu í raun grundvallarréttindi að fá að ganga í hjúskap. Ekki verði lengur við lýði sú mismunun sem núgildandi löggjöf hefur í för með sér gagnvart samkynhneigðum þegar kemur að réttinum til að ganga í hjúskap. Þess vegna er lagt til að þessu verði breytt, þannig að enginn greinarmunur verði gerður á þessum sambúðarformum.

Að auki er lagt til að lög um staðfesta samvist, nr. 87/1996, verði felld úr gildi, enda á ekki að vera gerður greinarmunur á þessum tvennum sambúðarformum eftirleiðis. 

En þrátt fyrir afnám laganna, heldur gildi sínu staðfest samvist þeirra sem til slíks sambands hafa stofnað. En þeir sem eru í staðfestri samvist er frjálst að fá samvist sína viðurkennda sem hjúskap. Það gæti þá annaðhvort verið með þeim hætti að sameiginleg yfirlýsing verði send til þjóðskrár eða stofnað verði til hjúskapar fyrir presti, forstöðumanni skráðs trúfélags sem hefur vígsluheimild eða borgaralegum vígslumanni í samræmi við ákvæði hjúskaparlaga.

Þar sem ekki er víst að allir þeir sem nú eru í staðfestri samvist óski eftir að skráningu á sambúðarformi þeirra sé breytt í hjúskap er í frumvarpinu kveðið á um að staðfest samvist hafi sömu réttaráhrif og hjúskapur og að ákvæði laga sem varða hjúskap og maka gildi um staðfesta samvist og einstaklinga í staðfestri samvist.  

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum vegna þessara breytinga á hjúskaparlögunum og er gert ráð fyrir að lagður verði niður sá greinarmunur sem gerður hefur verið á annars vegar sambúð karls og konu og hins vegar sambúð einstaklinga af sama kyni í ýmsum lögum, enda þykir slík aðgreining ekki þjóna tilgangi frumvarpsins heldur fara gegn markmiðum þess.

Þá er í 5. gr. frumvarpsins áfram gert ráð fyrir að einstaklingar í staðfestri samvist geti fengið meðferð og úrlausn mála sem varða samvistina fyrir dómstólum og stjórnvöldum hér á landi án tillits til atriða eins og búsetu og ríkisfangs. Þrátt fyrir þá þróun sem hefur orðið á þessu sviði víða um heim, eru rökin að baki rýmri lögsögu dómstóla og stjórnvalda hér á landi í þessum málum þau sömu og við setningu laganna um staðfesta samvist, þ.e. að samkynhneigðum geti reynst ómögulegt að fá úrlausn mála annars staðar en hér á landi. Þetta er því praktískt atriði sem verður að hafa í lögunum, þar sem þetta sambúðarform er ekki viðurkennt í sumum löndum og við verðum þá bara að horfast í augu við það. Og við gerum það með því að hafa þennan möguleika fyrir hendi, og var við samningu þessara reglna litið til sambærilegra reglna í Noregi.

 

--- ooo OOO ooo ---

 

En eins og okkur hér inni er kunnugt um kom upp umræða innan þjóðkirkjunnar í kjölfar þess að frumvarpið var lagt fram á þingi. Kom sú umræða mér nokkuð á óvart. Ég tek fram að ég tel að frumvarpið gefi ekki tilefni til þess að taka vígsluvaldið af prestum, en það er sjálfstæð ákvörðun trúfélaga ef þau vilja taka það vald alfarið af vígslumönnum og óháð því hvort þetta frumvarp nái fram að ganga eða ekki.

Því það er alveg skýrt í frumvarpinu að ráð er gert fyrir því að vígslumanni geti áfram verið heimilt að synja um hjónavígsluna líkt og gildir nú um staðfesta samvist. Þetta er sérstaklega áréttað í athugasemdum við frumvarpið að ekki hvíli sú skylda á tilteknum kirkjulegum vígslumanni að framkvæma hjónavígslu.  

Enn síður gefur frumvarpið tilefni til þess að taka það afdrifaríka skref að skilja að ríki og kirkju. Það er algerlega sér umræða sem verður einnig að taka mið af raunveruleikanum hvað varðar samninga ríkis og kirkju; það er flókið samband.

 

--- ooo OOO ooo ---

 

En þetta voru þær meginbreytingar sem er að finna í frumvarpinu, þótt ég hafi að vísu stiklað á stóru. Vonandi gefst okkur nú tóm til þess að ræða einstök atriði sem þið kunnið að hafa skoðun á eða að hafa rekið augun í. 

 

Að lokum við ég segja þetta:

 

Mörg skref hafa verið stigin í baráttu samkynhneigðra og margir lagt gott til á þeirri vegferð. Það var mér mikið ánægjuefni að geta sett fram þetta frumvarp og með því lagt mitt af mörkum til réttindabaráttu samkynhneigðra hér á landi. En eins og öll mannanna verk, þá er það ekki yfir gagnrýni hafið og því hlakka ég til að eiga við ykkur samræður um efni þess.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta