Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. maí 2010 MatvælaráðuneytiðGylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptaráðherra 2009-2013

Ávarp við afhendingu upplýsingatækniverðlauna Skýrslutæknifélagsins 2010

Það er mér ánægja að veita hér fyrstu heiðursverðlaun Skýrslutæknifélagsins, til einstaklings fyrir framúrskarandi framlag til upplýsingatækni á Íslandi. Verður afhending þeirra framvegis árlegur viðburður.

Valið fór þannig fram að félagsmönnum í Skýrslutæknifélaginu var boðið að tilnefna einstakling eða forsvarsmann fyrirtækis sem hefur skarað framúr á sviði upplýsingatækni. Fimm manna dómnefnd skipuð af stjórn Skýrslutæknifélagsins valdi heiðursverðlaunahafann úr hópi þeirra sem voru tilnefndir.

Sá einstaklingur sem hlýtur Upplýsingatækniverðlaun Skýrslutæknifélagsins árið 2010 hefur lengi starfað í upplýsingatækni og er sannkallaður frumkvöðull á fleiri en einu sviði tækni og viðskipta. Sem einn brautryðjenda í hugbúnaðarþróun og markaðssetningu hugbúnaðar á Netinu seint á níunda áratug liðinnar aldar, löngu fyrir daga alheimsvefsins, hefur hann verið þeim sem á eftir komu mikilvæg fyrirmynd. Hann var í hópi þeirra sem kenndi sér sjálfur fyrstu handtökin í forritun á þeim frumstæðu einkatölvum sem komu fyrst á markað í upphafi níunda áratugarins, þá nemandi í menntaskóla en lauk síðar prófi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands og setti upp sprotafyrirtæki í Tæknigarði Háskólans, sem nú hefur starfað í nærri 20 ár og veitir um 50 manns atvinnu. 

Fyrsti viðtakandi heiðursverðlaunanna var þannig einn af fyrstu Íslendingum til að hagnýta möguleika Netsins til hins ýtrasta við að selja sérhæfðan hugbúnað innanlands og til útlanda. Þetta gerði hann áður en flestir Íslendingar, eða atvinnurekendur höfðu gert sér grein fyrir möguleikum Netsins og Veraldarvefsins, eða vissu yfirhöfuð af því að þessi fyrirbæri væru til.

Heiðursverðlaunahafinn vann einnig mikið brautryðjendastarf í að hagnýta tölvutækni við að greina málfræði íslenskunnar og smíðaði útbreiddasta hugbúnað til ritvilluleitar á íslensku. Hann hefur þar með aðstoðað þúsundir Íslendinga við að skrifa villulausan texta og lyft grettistaki í að setja íslenskuna á sama stall og erlend  tungumál í ritvinnslu í einkatölvum.

Þá átti hann frumkvæði að því að setja saman einn stærsta og metnaðarfyllsta gagnagrunn með ættfræðiupplýsingum sem til er í veröldinni og laðaði þar með inn í tölvuheiminn ýmsa þá sem ella létu tölvur og tölvunotkun sig litlu skipta.

Það er mér því mikil ánægja að kynna að fyrsti handhafi upplýsingatækniverðlauna Skýrslutæknifélagsins er tölvunarfræðingurinn Friðrik Skúlason, stofnandi samnefnds fyrirtækis og höfundur veiruvarnarforritsins Lykla Péturs,  villuleitarforritsins Púka og ættfræðigrunnsins Espolín og  Íslendingabókar .
Býð ég Friðriki að stíga fram til að taka við verðlaunagripnum sem er verk eftir Ingu Elínu, hönnuð og myndlistarmann. 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta