Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. júlí 2010 UtanríkisráðuneytiðUTN Fréttir

Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins formlega hafnar

270710-Skarphedinsson-og-Vanackere
270710-Skarphedinsson-og-Vanackere

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti í dag inngangsræðu á ríkjaráðstefnu Íslands og Evrópusambandsins sem markaði upphaf aðildarviðræðna Íslands við ESB. Ráðstefnuna ávörpuðu einnig Stefan Fule, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, og Steven Vanackere, utanríkisráðherra Belgíu, en Belgar fara með formennsku í ESB fram til áramóta.

Í ræðu sinni á ráðstefnunni sagði utanríkisráðherra umsókn Íslands vera rökrétt skref enda hefðu Íslendingar ávallt best tryggt sjálfstæði sitt og hagsmuni með virkri þátttöku í samstarfi vestrænna lýðræðisríkja. Hann rakti hvernig Ísland hefur sem rótgróið Evrópuríki tekið virkan þátt í alþjóðlegri samvinnu, til að mynda sem stofnaðili NATO, OECD og ÖSE. Styrkur Íslands fælist m.a. í ríkri sögu og lýðræðishefð, sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, bæði fiskjar og orku, og legu landsins á norðurslóðum.

Utanríkisráðherra gerði í ræðu sinni grein fyrir helstu hagsmunum Íslands í viðræðunum sem í hönd fara. Lagði hann áherslu á efnahagslegt mikilvægi sjávarútvegs fyrir Ísland og benti á þá sérstöðu að íslenska fiskveiðilögsagan liggur ekki að lögsögu nokkurs ESB-ríkis. Finna þyrfti sérlausnir sem tækju mið af sérstökum aðstæðum Íslands, tryggði áframhaldandi öflugan og sjálfbæran sjávarútveg, sem og forræði Íslands yfir auðlindinni. Ráðherra undirstrikaði hagsmuni íslensks landbúnaðar sem væri rótgróinn þáttur af samfélaginu. Lagði hann áherslu á að bændum og fjölskyldum þeirra verði tryggt öruggt lífsviðurværi sem og viðkvæmum samfélögum í dreifbýli.

Utanríkisráðherra sagði aðild Íslands að evrusvæðinu vera mikilvægan þátt í endurreisninni og sagði verkefnið að finna leiðir með hvaða hætti ESB gæti stutt við íslensku krónuna í því skyni að tryggja að Ísland gæti uppfyllt skilyrði fyrir upptöku evru. Styrk efnahagsstjórn er lykillinn að stöðugleika og velsæld, og því eru efnahags- og gjaldmiðilsmál meðal mikilvægustu viðfangsefna aðildarviðræðnanna, sagði utanríkisráðherra.

Nú tekur við rýnivinna þar sem löggjöf Íslands og löggjöf ESB verður borin saman til að greina þá þætti sem um þarf að semja.   Samninganefnd Íslands og samningahópar sem í sitja tæplega annað hundrað manns, þ. á m. fulltrúar helstu hagsmunahópa og félagasamtaka, munu taka þátt í rýnivinnunni. Í framhaldi hennar verður samningsafstaða Íslands í einstökum málum mótuð, í samvinnu við utanríkismálanefnd Alþingis.

Búist er við að hinar eiginlegu viðræður hefjist á næsta ári Viðræðurnar munu snúast um einstaka samningskafla löggjafar ESB sem eru 35 talsins. Skv. áliti framkvæmdastjórnar ESB hefur Ísland þegar tekið upp 10 kafla að fullu og 11 kafla löggjafar ESB að mestu leyti í gegnum þátttöku sína í Evrópska efnahagssvæðinu.

Ávarp utanríkisráðherra á ríkjaráðstefnunni (pdf skjal)

Skrifleg yfirlýsing sem lögð var fram á ríkjaráðstefnunni á íslensku (pdf skjal)

Skrifleg yfirlýsing á ensku (pdf skjal)

Almenn afstaða Evrópusambandsins á íslensku (pdf skjal)

Almenn afstaða Evrópusambandsins á ensku (pdf skjal)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta