Framtíðin og frelsið til að velja
Á þeim krossgötum sem Íslendingar standa í dag er þýðingarmikið að þeir fái sjálfir að velja hvert ber að stefna í kjölfar þungbærs efnahagshruns. Ein af leiðunum í boði liggur í gegnum Evrópusambandið. Samningar um aðild eru formlega hafnir og samkvæmt ákvörðun Alþingis á ferlinu að ljúka með því að þjóðin fær frelsi til að velja hvort hún vill standa innan, eða utan sambandsins. Forsenda upplýstrar ákvörðunar er að fullgerður samningur liggi fyrir. Þá fyrst getur sérhver Íslendingur á grundvelli jafnræðis tekið sjálfstæða og upplýsta afstöðu. Þeir sem tala fyrir því að ónýta hina þríþættu ákvörðun Alþingis um viðræður, samning og þjóðaratkvæðagreiðslu, vilja því í reynd svipta þjóðina frelsinu til að velja sér og börnum sínum framtíð. Það væri ólýðræðislegt og ekki fallið til að setja niður deilur í samfélaginu. Ábyrgðarleysi af því tagi er skaðlegt fyrir hagsmuni, og orðstír, Íslands og því væri óráð að hætta við formlegar samningaviðræður núna.
Traustur undirbúningur
Í samningunum verður fjallað um mörg mikilvæg hagsmunamál, s.s. möguleika okkar til að taka upp nýjan og öflugan gjaldmiðil, og um málefni sem varða sjávarútveg og landbúnað.
Samningarnir, sem hófust formlega í júlí, eru vel undirbúnir. Öflugasti samningamaður Íslands, Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra, veitir þeim forystu, en hann hefur verið eftirsóttur af hálfu stórþjóða til að leiða til lykta erfiða samninga. Hann hefur nýlokið lotu upplýsingafunda með margskonar samtökum um allt land. Á annað hundrað sérfræðingar og fulltrúar hagsmunasamtaka undirbúa viðræðurnar sjálfar. Ég hef lagt mikla áherslu á að hagsmunasamtök, s.s. bænda og útgerðarmanna, komi eins sterklega að undirbúningi viðræðnanna og þau sjálf kjósa og komi þannig sjónarmiðum sínum á framfæri með beinum hætti. Náið samráð er haft við utanríkismálanefnd Alþingis. Stjórnsýslan íslenska, þó lítil sé, hefur þegar hlotið lof fyrir þá flóknu vinnu sem hún hefur innt af höndum í aðdragandanum. Við höfum notið ráðgjafar og liðsinnis reyndra vinaþjóða á Norðurlöndum og við Eystrasaltið sem sjálfar hafa farið gegnum samningaferilinn. Undirbúningsvinnan er því í traustum farvegi.
Vestræn samvinna
Undir forystu Ólafs Thors og Bjarna Benediktssonar tóku Íslendingar sér afgerandi stöðu með vestrænum þjóðum á sviði alþjóðamála. Ísland gerðist stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu. Þjóðin tók framfarastökk þegar við síðar urðum aðilar að EFTA, fríverslunarsamtökum Evrópu. Annað mikilvægt skref var stigið með þátttöku okkar í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Full aðild að Evrópusambandinu er því rökrétt skref í sömu átt. Hún skiptir Ísland ekki aðeins máli vegna viðskiptasjónarmiða, heldur líka í ljósi öryggishagsmuna, þ.á.m.með tilliti til efnahagslegs öryggis. Ísland er og verður herlaust land. Í kjölfar ákvörðunar Bandaríkjamanna um að fara frá Íslandi sköpuðust nýjar aðstæður. Með hliðsjón af öryggishagsmunum til langs tíma veitir aðild að Evrópusambandinu Íslandi skjól við hlið menningarlega skyldra þjóða sem tilheyra Vesturlöndum. Það er okkur mikilvægt líkt og þjóðum Eystrasaltsins og Mið-Evrópu.
Mikilvægir fiskveiðihagsmunir
Ýmsir óttast að aðild leiði til þess að Íslendingar tapi auðlindum sínum. Í skriflegri greinargerð Íslands við upphaf samningaviðræðnanna í júlí er skýrt af Íslands hálfu að aldrei verður fallist á framsal á yfirráðum auðlinda. Mitt mat er jafnframt að reglur Evrópusambandsins skapi engri þjóð rétt til að krefjast aflaheimilda úr staðbundnum stofnum innan íslensku efnahagslögsögunnar. Erfiðasta viðfangsefnið verður fremur á sviði gagnkvæmra fjárfestinga, og að tryggja að aðild færi ekki atvinnu á sviði sjávarútvegs úr landinu. Skýrsla framkvæmdastjórnarinnar um sjávarútveg á Íslandi kvað skýrt að orði um að innganga Íslands myndi leiða til breytinga á sjávarútvegsstefnu sambandsins. Vart verður það skilið með öðrum hætti en menn telji æskilegt að taka tillit til sjónarmiða Íslendinga. Á þetta verður að reyna við samningaborðið. Niðurstaðan í sjávarútvegi mun ráða mestu um hvort Íslendingar samþykkja eða hafna aðild.
Samningsstaðan í landbúnaði
Um landbúnað er staða okkar betri en margir gefa sér fyrirfram. Finnska leiðin, sem leiddi til þess að norðurskautslandbúnaður varð til í reglum Evrópusambandsins, byggði á rökum, sem eiga enn betur við Ísland. Með harðfylgi ættum við því að geta náð enn rýmri heimildum en þeir. Reglur sambandsins geta tekjið tillit til fábreytni tegunda í framleiðslu, til fjarlægðar frá mörkuðum, og til einangraðra erfða, sem njóta sérstakrar verndar út frá sjónarmiðum líffræðilegrar fjölbreytni.
Evrópusambandið hefur jafnframt gert fæðuöryggi að forgangsþætti. Ísland liggur fjarri matarkistum heimsins. Það er landfræðilega einangrað, og viðkvæmt gagnvart hamförum á borð við eldgos, stríð, eða faraldra í skepnum og mönnum. Engin evrópsk þjóð er því í jafn ríkri þörf fyrir skothelt fæðuöryggi og við Íslendingar.
Sterkustu vopnin liggja þó í landbúnaðinum sjálfum. Íslenskir bændur framleiða afurðir sem flokka má sem hágæðavörur. Reynslan, einsog af grænmetinu, sýnir að Íslendingar eru líklegir til að halda mikla tryggð við innlenda framleiðslu. Aðild að Evrópusambandinu mun jafnframt opna tækifæri til að brjótast inn á nýja markaði, þar sem vaxandi áhersla er á hágæðavörur, og strangar kröfur með tilliti til umhverfisgæða í framleiðslu og heilsu neytendanna. Í þessu felast sóknarfæri, ekki síst fyrir unga bændur framtíðarinnar.
Sköpun starfa og stöðugleiki
Fyrir hrun reyndu Íslendingar það á eigin skinni hversu erfitt það er að halda úti örsmárri mynt í alþjóðlegum heimi, þar sem hákarlar vogunarsjóðanna geta sveiflað til örmyntum smárra og millistórra þjóða til að taka stjarnfræðilegan gróða á kostnað almennings. Í kjölfar hrunsins er veruleikinn sá að Íslendingar þurfa að velja á milli varanlegra gjaldeyrishafta í einhverri mynd eða taka upp nýjan, öflugan og stöðugri gjaldmiðil. Kostir okkar í þessum efnum eru einungis tveir. Króna í fjötrum hafta eða evran. Fyrri kosturinn leiðir til þess að íslenskt viðskiptalíf stendur aldrei jafnfætis viðskiptalífi samkeppnisþjóðanna. Smám saman drægi úr samkeppnisgetu landsins, og um síðir yrði erfiðara að skapa íslensku þjóðinni sömu velsæld og öðrum þjóðum. Evran tryggir okkur viðskiptafrelsi á nýjan leik, agar fjármálalífið, og skapar stöðugra umhverfi, þar sem vextir verða sambærilegir helstu viðskiptalöndum okkar.
Aðild að Evrópusambandinu mun leiða til aukinna erlendra fjárfestinga, ef marka má reynslu ýmissa annarra smáþjóða. Nægir þar að benda á Eista, Maltverja og Slóvaka. Þetta, ásamt skýrri stefnu um upptöku evru, mun auka líkur á að okkur takist að skapa þau 30 þúsund störf sem hér þarf á næstu tíu árum til að eyða atvinnuleysi á Íslandi. Aðild mun ekki síst nýtast við uppbyggingu hátæknifyrirtækja og nýrra skapandi greina.
Einn af kostum aðildar er frelsið til að taka upp nýjan gjaldmiðil, ef Íslendingar kjósa það með samþykkt aðildarsamningsins.
Frelsið til að velja
Evrópusambandið, með skýra stefnu á upptöku evru, og evrópuvexti án verðtryggingar, aukna erlenda fjárfestingu og sköpun starfa til að vinna bug á atvinnuleysi, tryggir Íslandi aftur það verslunarfrelsi sem Jón Sigurðsson, forseti, barðist fyrir allt sitt líf og hefur verið að hverfa eftir hrun. Sú leið er skýr valkostur við framtíð sem byggir á krónu í viðjum gjaldeyrishafta, með minnkandi viðskiptafrelsi. Samningaferlið snýst því um að veita Íslendingum frelsi til að velja. Hafi það einhvern tíma verið tímabært, þá er sú stund runnin upp.
Össur Skarphéðinsson er utanríkisráðherra og ber stjórnskipulega ábyrgð á samningaviðræðunum um aðild.
Greinin í Morgunblaðinu 12. október 2010