Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

20. október 2010 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Sveitirnar, sjórinn og ESB

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifar um landbúnaðar- og sjávarútvegsmál og ESB í DV, 20. október 2010

Sveitirnar, sjórinn og ESB

Flestir Íslendingar eru, líkt og utanríkisráðherrann, komnir af smábændum og sjómönnum. Sveitin og sjórinn eru rík í eðli okkar allra. Margir af minni kynslóð hafa verið á sjó, eða unnið í fiski. Þannig var ég sjómaður á ungum aldri á Vestfjörðum á sama tíma og sá eldri af ritstjórum DV, og við slörkuðum saman í landlegum. Ég ólst líka að hálfu leyti upp innan um virðulegar og gáfaðar verðlaunakýr á Mýrunum. Allir, sem hafa sjóinn og sveitina í blóðinu vilja hag starfstéttanna sem þeim tengjast sem bestan. Efasemdir sumra um Evrópusambandið tengjast því. Þeir heyra sönginn úr Mogganum sem náttlangt og daglangt klifar ranglega á því að fiskimiðin verði tekin af okkur, og bændastéttinni verði hent fyrir björg ef þjóðin samþykkir aðildarsamning. Hvoru tveggja er rangt, og byggt á misskilningi.

Bábiljan um ræningjaflotann

Við heyrum því oft haldið fram að gengi Ísland í Evrópusambandið liði varla dagur áður en sjóræningjaflotar frá Evrópu væru komnir inn fyrir lögsöguna að stela íslenskum fiski. Þetta er hrein bábilja, sem byggir á mikilli vanþekkingu. Engin þjóð innan Evrópusambandsins mun geta fært sannfærandi rök fyrir kröfu um aflaheimildir úr staðbundnum stofnum Íslendinga. Reglur Evrópusambandsins eru ekki þannig, og það hefur legið fyrir um árabil.
Viðsemjendur okkar munu fremur leggja áherslu á gagnkvæmar fjárfestingar í sjávarútvegi en karp um aflaheimildir sem engin rök standa til. Harðsnúið samningalið Íslands þarf að fá í gadda slegið að við aðild flytjist ekki störf innan sjávarútvegsins úr landi, og helst að fjölga þeim. Reynsla annarra þjóða sýnir að það er hægt. Það verður eitt af markmiðunum við samningaborðið.  

Íslenska leiðin

Sjálfum finnst mér að samningsstaðan í landbúnaði sé betri en forystumenn greinarinnar telja. Styrkur okkar liggur í sérstöðunni. Evrópusambandið hefur gert fæðuöryggi þjóða að forgangsatriði. Engri þjóð er þörf á jafn skotheldu fæðuöryggi og sú, sem liggur á jaðri norðurheimskautsins fjarri matarkistum heimsins. Sú sérstaða skapar okkur stöðu.

Áhersla sambandsins á líffræðilegan fjölbreytileika og upprunaleg erfðamengi styðja kröfur okkur um sérstakt svigrúm vegna einangraðra húsdýrastofna frá landnámi. Við höfum líka mikla sérstöðu vegna fábreyttrar framleiðslu, sem stjórnast af óblíðri veðráttu.

Aðild að Evrópusambandinu gæti skapað sóknarfæri inn á markaði Evrópu, ekki síst fyrir útsjónarsama bændur. Í Evrópu eru sívaxandi áhersla á afurðir sem standast æ þyngri kröfur um umhverfisgæði og heilnæmi. Um hágæði og hollustu stenst okkur enginn snúning. Reynslan af grænmetinu sýnir líka, að Íslendingar munu alltaf binda mikla tryggð við afurðir íslenskra bænda.

Dæmið af Finnum er góð lexía. Þeir náðu fram merkilegum samningi um það sem skilgreint var sem heimskautalandbúnaður. Það byggðist ekki síst á því að loftslagið skerðir mögulega framleiðslu og hversu dreifð byggðin er á norðursvæðum Finnlands. Þau rök eru sterkari hvað Ísland varðar. Íslenska leiðin getur því byggt á kröfu um enn rýmri heimildir fyrir íslenskan landbúnað. Við verðum að hafa sjálfstraust.

Störf gegn atvinnuleysi

Reynsla smáríkja sýnir, að aðild að Evrópusambandinu örvar erlendar fjárfestingar. Hún gefur Íslendingum færi á að taka upp öflugan gjaldmiðil, evruna, og innleiða evrópska vexti, þar sem verðtrygging heyrir sögunni til. Allt efnahagsumhverfið yrði stöðugra og traustara með aðild. Aðild okkar er því líkleg til að stuðla að sköpun fjölmargra nýrra starfa. Gleymum ekki, að á næstu tíu árum þarf Ísland á 30 þúsund nýjum störfum að halda til að útrýma atvinnuleysinu. Það væri því hreint ábyrgðarleysi í mesta atvinnuleysi sögunnar að hætta viðræðunum.
Aðild að Evrópusambandinu er ekki töfralausn en hún er ein af leiðunum inn í framtíðina. Þjóðin á að hafa frelsi til að kjósa sjálf hvort hún velur hana eða hafnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta