Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. janúar 2011 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Framsöguræða ráðherra um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða

Frú forseti.

Það er með sérstakri ánægju sem ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða sem liggur fyrir þinginu á þskj. 408.

Okkur sem erum í þessum sal og höfum fylgst reglulega með tíðindum af þróun norðurslóða í gegnum fréttir og skýrslur dylst ekki að gríðarleg umskipti eiga sér stað á norðurslóðum af völdum loftslagsbreytinga. Þessar breytingar undirstrika í sjálfu sér rækilega hversu brýnt það er að við Íslendingar og aðrar þjóðir bindumst samtökum um að grípa til róttækra ráðstafana til að draga úr hlýnun andrúmsloftsins af mannavöldum. Það breytir engu um það að þessi miklu umskipti eru að eiga sér stað. Breytingarnar eru staðreynd.

Í þessum breytingum felast bæði tækifæri og háski fyrir Íslendinga. Vegna bráðnunar íssins verður æ líklegra að síðar á þessari öld opnist hafsvæði sem áður voru harðlæst sökum ísþekju fyrir margvíslegri nýtingu, siglingum með ferðafólk, frakt á milli heimsálfa og fiskveiðum en þó verður líklega horft með mestri spennu en líka ugg til olíu- og gaslinda.

Ég held að það sé staðreynd að fjölmörg tækifæri gætu opnast fyrir Íslendinga í tengslum við þjónustu gagnvart slíkri nýtingu, ekki síst við vinnslu kolefnis við norðausturströnd Grænlands á Jan Mayen svæðinu, bæði Noregsmegin og eins á Drekanum, en líka í tengslum við fraktflutninga á nýjum siglingaleiðum sem kynnu að opnast frá Kyrrahafinu um Norður-Íshafið til Norður-Atlantshafsins.

Ég er líka þeirrar skoðunar að ný tækifæri gætu legið í mannvirkjagerð vegna þess að íslensk fyrirtæki hafa getið sér ákaflega góðan orðstír og hafa gott orðspor á því sviði á norðlægum slóðum, svo sem á Grænlandi, og örugglega mun heldur ekki standa á íslenskum frumkvöðlum að tengja sig ferðatengdri útgerð norður eftir. Þar að auki hef ég lengi verið þeirrar skoðunar að Ísland sé kjörin miðstöð, bæði fyrir vöktun og eftirlit með náttúru þess hluta norðursins sem að okkur snýr og sömuleiðis sem miðstöð fyrir alþjóðlegt samstarf á sviði björgunar og leitar á Norðurhöfum sem er forsenda þess að menn geti sótt fram til nýtingar á þessum slóðum.

* * *

Opnun hafsvæða sem núna er undir lás og slá þess sem okkar forna skáld kallaði landsins forna fjanda mun líka óefað leiða til veiða á nýjum sjávartegundum, bæði fiskstofnum en hugsanlega líka einhvers konar dýrum sem eru lægra í fæðukeðjunni. Þar opnast enn fremur ný tækifæri fyrir Íslendinga. Við þurfum því í senn að haga stefnu okkar þannig að hún bæði tryggi hlutdeild okkar í þeim stofnum sem kunna að opnast, við vitum að sumir eru giska stórir, en sporni um leið gegn rányrkju á þeim. Ég nefni rányrkjuna sérstaklega vegna þess að vitað er að stór alþjóðleg fyrirtæki sem sinna sjávarútvegi hafa augastað á alþjóðlegum svæðum á þessum slóðum.

Sömuleiðis tel ég rétt að geta þess að aukin umsvif á svæðinu geta líka, ef við spilum rétt úr kortum okkar, styrkt pólitíska stöðu Íslands í alþjóðlegu tilliti. Til marks um það er áhugi ýmissa Asíuþjóða, eins og t.d. Kína, sem og Evrópusambandsins og fleiri á að efla samstarf við okkur í tengslum við þróun norðursiglinga. Í þessum breytingum liggja því margvísleg jákvæð tækifæri fyrir okkur en því er hins vegar ekki að leyna að vissar hættur geta líka fylgt auknum umsvifum á norðurslóðum.

Umhverfisslys, annaðhvort við vinnslu eða flutning á eldsneyti, gæti haft alvarlegar afleiðingar fyrir afkomu okkar og við vorum auðvitað rækilega minnt á þennan möguleika með olíuslysinu mikla í fyrravor í Mexíkóflóa. Þá skulum við ekki gleyma því hvar við erum staðsett, bókstaflega í útfalli Norður-Íshafsins, og fyrir tilstilli kraftmikilla strauma vestan lands og austan geta slys haft áhrif á hafsvæðum innan lögsögunnar. Í þessu samhengi bið ég hv. þingmenn að gleyma því ekki að í fimbulkulda norðursins verður náttúrulegt niðurbrot á olíu miklu hægara en sunnar á hnettinum og sömuleiðis virka ekki ýmsir efnahvatar sem menn nota til að brjóta niður olíu þegar slys verða af þessum sökum.

Það er líka rétt að undirstrika sterklega að einmitt vegna kuldans verður lífríkið miklu viðkvæmara eftir því sem norðar dregur. Það áréttar í sjálfu sér svo enn nauðsyn þess að við förum í öllu með ýtrustu gætni. Í þessu ljósi er brýnt að Íslendingar móti sér skýra stefnu til að tryggja hagsmuni sína og svæðisins í heild. Ég hef þess vegna lagt fram þá tillögu sem hér er að finna, tillögu ríkisstjórnarinnar um þessa stefnu. Hún er í ellefu liðum en kjarnann má draga saman í fimm meginþætti.

Forgangsverkefnið er að tryggja stöðu Íslands sem strandríkis innan norðurskautssvæðisins hvað varðar allar alþjóðlegar ákvarðanir sem því tengjast og þar með þróun þess á grundvelli lagalegra, efnahagslegra, vistfræðilegra og landfræðilegra raka. Þar er mikil vinna óunnin. Við þurfum að líta á hana sem fjárfestingu í framtíðarhagsmunum og við verðum sem þjóð að tryggja fjárveitingar til að kosta það akademíska atgervi sem þarf til að smíða hin traustustu rök í málflutning okkar inn í öldina. Náskylt þessu er jafnframt að róa öllum árum að því að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem þann vettvang þar sem málefnum er ráðið til lykta af þeim átta þjóðum sem þar eiga sæti. Hagsmuna Íslands tel ég að sé best gætt með því að leggja rækt við marghliða samstarf þar sem norðurskautsríkin átta, Ísland, Noregur, Bandaríkin, Rússland, Finnland, Svíþjóð, Kanada og Danmörk fyrir hönd Grænlands, sitja við borðið ásamt fulltrúum frumbyggja, áheyrnarríkja og að sjálfsögðu alþjóðlegra samtaka sem láta svæðið sig varða. Fyrir Ísland er jafnframt mjög mikilvægt að tryggja þann skilning að norðurslóðir eru svæði sem ná yfir norðurheimskautið en spanna jafnframt þann hluta Norður-Atlantshafsins sem tengist norðurheimskautinu nánum böndum í gegnum efnahagsleg, vistfræðileg og pólitísk rök en líka í gegnum öryggistengd vensl. Út frá þessu sjónarhorni tel ég einfaldlega rangt að einblína á þröngar landfræðilegar skilgreiningar eins og stórveldunum, sem eru nú nágrannar okkar á norðurhvelinu, hefur stundum hætt til.

Í þessu efni tel ég líka mikilvægt að byggja eins náið samstarf við Grænlendinga og Færeyinga og hægt er. Þessi þrjú ríki hafa misþunga en þó öll sameiginlega hagsmuni af velferð norðurslóða og það er t.d. líklegt að breytingarnar á norðurslóðum skapi þríþjóðinni færi á sérstakri samvinnu á sviði orkumála og umhverfisverndar. Sömuleiðis tel ég að inngróinn partur af stefnu af því tagi sem við erum að ræða í dag eigi að vera stuðningur Íslands við réttindi frumbyggja svæðisins á öllum sviðum.

Við Íslendingar höfum reyndar spyrnt við fæti og mótmælt því kröftuglega þegar samtökum frumbyggja hefur verið bægt frá samráði um svæðið. Frumbyggjarnir eiga líf sitt í dag og framtíð sína á morgun undir farsælli þróun norðurslóðanna og eins og ég horfi á þetta mál tel ég að það væri siðferðilega óverjandi að rökstyðja að þeir hafi ekki fullan rétt til að koma að henni.

Fyrir Íslendinga er sömuleiðis lykilatriði að ná samstöðu um að byggt verði á hafréttarsáttmálanum þegar kemur að úrlausn hvers konar álitaefna sem varða hafrétt á norðurslóðum. Við þekkjum það auðvitað öll í þessum sölum að Íslendingar eiga a.m.k. part af frumburðarrétti að hafréttarsáttmálanum. Þeir komu ríkulega að gerð hans og hann er í dag auðveldasta og jafnframt einfaldasta alþjóðlega tækið til að vinna að lausn á ágreiningsmálum, hvort sem þau verða á sviði siglinga, fiskveiða eða tengjast nýtingu jarðefna á borð við olíu og gas.

Norðurslóðirnar eru sömuleiðis ríkulega tengdar öryggishagsmunum Íslands eins og ég hef að vissu leyti komið að fyrr í framsögu minni í dag. Ég tel að við eigum að nálgast þessa öryggishagsmuni undan tvenns konar sjónarhorni, í fyrsta lagi að tryggja eins ríkt alþjóðlegt samstarf og okkur er kleift um borgaralegt öryggi, ekki síst gagnvart umferð um sjó en líka í lofti, líka gegn umhverfisvám, sem hugsanlega er hægt að sjá fyrir að gætu gerst. Við eigum sömuleiðis að hafa allan þann viðbúnað, t.d. í formi samstarfs við aðrar þjóðir, sem hægt er að byggja upp gegn einhvers konar óhöppum sem við sjáum ekki beinlínis fyrir í dag. Forsenda þess er vitaskuld aukið samstarf við önnur ríki um mengunarvarnir, um björgunaratgervi og um rannsóknir. Í Reykjavík var fyrir skömmu gerður fyrsti samningur allra norðurskautsríkjanna átta um leit og björgun á norðurslóðum. Ég lít á þann samning sem sögulegt og glæsilegt fordæmi fyrir aðra samninga norðurskautsríkjanna átta á sviði annarra málefna sem tengjast norðurslóðum og krefjast samvinnu.

Í öðru lagi tel ég það líka í samræmi við utanríkisstefnu Íslands að vinna gegn hvers konar hervæðingu norðurslóða. Ég tel að þær megi aldrei aftur verða vettvangur vígbúnaðarkapphlaups eða átakasvæði milli stórvelda. Sem betur fer les ég stöðuna svo að það blási þannig í pólitík okkar heimshluta að það sé tækifæri til þess núna að gera norðurslóðir að fyrirmynd um samstarf um sameiginlega hagsmuni, frið og öryggi. Sömuleiðis, og leiðir af sjálfu frá upphafi mínu í dag, tel ég líka að það eigi að vera hluti af norðurslóðastefnu okkar að Íslendingar byggi markvisst upp viðskiptasambönd við önnur ríki á norðurslóðum til að tryggja að við getum keppt um þau tækifæri sem verða til í kjölfar aukinna efnahagsumsvifa á þessu svæði.

Ég tel líka að frá sjónarhóli umhverfisverndar sé mikilvægt að við nýtum aukna þátttöku okkar og ábyrgan málflutning til að skerpa og styrkja stöðu okkar sem skýrs málflytjanda varðandi aðgerðir alþjóðasamfélagsins gegn loftslagsbreytingum af völdum mannsins. Stefna okkar um norðurslóðir og framkvæmd hennar á þess vegna að geta gefið okkur aukinn slagkraft, bæði í umræðum og ákvörðunum um aðgerðir gegn loftslagsvánni en hún birtist með miklu meiri hraða á norðurslóðum en nokkurs staðar annars staðar og miklu hraðar en menn höfðu áður séð fyrir. Á síðasta áratug rýrnaði ísþekjan um 8% í stað þeirra 4% sem spáð var og þótti mörgum nóg um þær spár.

Síðast en ekki síst, frú forseti, tel ég ákaflega nauðsynlegt að byggja upp sem mesta þekkingu á Íslandi á öllum sviðum sem tengjast norðurslóðum. Við Íslendingar eigum þegar ákaflega öflugan og raunar fjölþættan rannsóknarkjarna við Háskólann á Akureyri, og Háskóli Íslands spýtir líka duglega í lófana um þessar mundir í þessum efnum. Þaðan hafa m.a.s. verið kvaddir menn til ráðgjafar við stór þjóðabandalög um málefni norðurslóða.

Ég vil líka láta þess getið að í ýmsum öðrum stofnunum íslenska ríkisins og ráðuneytum er mikil þekking á málefnum norðurslóða. Þar er unnið ákaflega vel í þeim málaflokki þannig að ég tel að fjárfestingar í rannsóknum sem efla stöðu Íslands gagnvart norðurslóðum séu fjárfestingar sem munu skila sér margfalt í framtíðinni.

Frú forseti. Ég legg svo til að þegar þessari umræðu sleppir verði málinu vísað til umfjöllunar hjá hv. utanríkismálanefnd. Án þess að það sé á mínu færi að mæla fyrir um það tel ég að það væri líka heppilegt fyrir framvindu málsins í þinginu að leitað yrði skoðunar hv. umhverfisnefndar á þessari tillögu.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta