Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. febrúar 2011 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Norðurslóðir auka vægi Íslands

Fyrir tæpum tveimur árum kom í heimsókn til mín kínverskur ráðherra. Heimsóknin var í þeim tilgangi einum að ræða hugsanlegt samstarf Kínverja við Ísland í tengslum við skipaleiðir yfir norðurheimskautið. Hann taldi líklegt að þær opnuðust innan skamms. Ég tók kínverskri bjartsýni hans með íslensku hiki. Gestur minn lygndi aftur augum og spurði hvað ég héldi að það tæki langan tíma. Ég skaut á hálfa öld. Þá brosti kínverski ráðherrann og sagði: »Það þykir okkur stuttur tími í Kína.«

Skipaleiðir yfir heimskautið

Framtíðina þarf að undirbúa í tíma ef hún á að heppnast vel. Allar líkur eru á því að nýjar skipaleiðir opnist í einhverjum mæli milli Kyrrahafs og Atlantshafs yfir norðurheimskautið. Sumir segja fyrr en seinna. Sjálfur tel ég varlegast að ýfa ekki upp of miklar væntingar. Nýju skipaleiðirnar eru eftirsóknarverðar af því að þær stytta vegalengdina milli hafnarborga í Asíu og Evrópu um 4.000 kílómetra. Kostnaður við vöruflutninga minnkar að sama skapi til hagsbóta fyrir bæði neytendur og framleiðendur. Í ofanálag mun stytting skipaleiðanna líka draga úr umhverfiskostnaði - sem vitaskuld hljómar eins og þverstæða í ljósi þess að bráðnun ísþekjunnar rekja menn til loftslagsbreytinga af manna völdum.

Nýju leiðirnar eru nú þegar skipgengar stuttan tíma síðsumars. Síðustu tvö ár hafa stök skip brotist um þær í fylgd ísbrjóta. Fyrsta risaolíuskipið fór þannig norðausturleiðina svokölluðu í byrjun síðasta hausts. Ég kynnti í janúar hina nýju norðurslóðastefnu Íslendinga á ráðstefnu í Tromsö og þar spáðu menn því að innan tveggja áratuga gætu nýju skipaleiðirnar farið að skipta efnahagslegu máli. Hvort sem það er rétt eða rangt er hitt klárt að þær eru raunhæfur möguleiki. Við þurfum að búa okkur undir hann. Það gildir bæði um tækifærin sem tengjast þeim en ekki síður háskann sem fylgir aukinni umferð á norðurhöfum. Mikilvægt er meta heildstætt hvernig tryggja má öryggi og sóknarfæri íslenskrar strandbyggða með tilliti til aukinnar skipaumferðar.

Björgunarmiðstöð á Íslandi

Í þessum breytingum hafa Íslendingar eygt tækifæri til að gera landið að miðstöð fyrir ýmiss konar þjónustu fyrir skip sem fara um heimskautið þegar ísa leysir. Bæði á Vestfjörðum og á norðausturhorninu, kannski víðar, eru vormenn að búa sig undir ný tækifæri. Ísland liggur vel fyrir þjónustu við auðlindir í og undir hafinu fyrir norðan okkur, og athafnaskáld sjá mikil tækifæri í umskipun gáma og varnings frá Asíu til dreifingar á evrópskar hafnir.

Sjálfur tel ég að Ísland geti gegnt mikilvægu hlutverki sem alþjóðleg miðstöð fyrir eftirlit, leit og björgun, að ógleymdum mengunarvörnum gagnvart norðrinu. Hér þarf að byggja upp mikla alþjóðlega þjónustugetu á þeim sviðum. Við búum að gríðarlega sterkum kjarna þar sem Landhelgisgæslan er og hún mun aðeins eflast á næstu árum og áratugum. Reynslan sem björgunarsveitirnar hafa byggt upp er líka ómetanleg. Staðsetning landsins er eins og best verður á kosið. Ísland er því beinlínis kjörið til að verða miðstöð slíkrar þjónustu og markmið ríkisstjórnarinnar er að Ísland verði í framtíðinni einn af miðpunktum alþjóðlegrar samvinnu um hana.

Umskipunarhafnir

Nýjar skipaleiðir hafa vakið athygli fjarlægra þjóða á Íslandi, sem ýmist hafa sérhæft sig í að reka stórar, alþjóðlegar hafnir víðs vegar um heiminn eða sjá í þeim færi til að koma vörum sínum á markað með hagkvæmari hætti. Dæmi um þetta er furstadæmið Dúbaí, sem rekur eitt stærsta hafnarfyrirtæki heimsins, og hefur sýnt möguleikum Íslands á þessu sviði mikinn áhuga. Utanríkisráðherra Singapúr kom nýlega til Íslands til að kynna sér af eigin raun tækifærin hér á landi. Singapúrar eru umsvifamiklir í flutningum og sjá góðar líkur á samstarfi við Ísland ef nýjar skipaleiðir opnast. Mestan áhuga hefur þó Kína sýnt hugsanlegu samstarfi við okkur á þessu sviði. Fjöldi sérfræðinga og mjög háttsettra stjórnmálamanna hefur heimsótt Ísland á síðustu árum, ekki síst vegna áhuga á samstarfi um norðurslóðir og þjónustu við nýjar skipaleiðir yfir heimskautið. Hlutverk vökullar ríkisstjórnar er að næra og byggja upp þessi tengsl.

Norðurslóðir og vaxandi þýðing þeirra á næstu áratugum getur því í senn aukið alþjóðlegt vægi Íslands og um leið búið til ný og mikilvæg tækifæri. Það felst ekki þversögn í því að Íslendingar skipa sér í fremstu röð þeirra ríkja sem berjast gegn ógninni sem stafar af loftslagsbreytingum, en búa sig jafnframt undir þau sóknarfæri sem skapast í ölduróti þeirra. Þvert á móti er hvorutveggja ábyrg afstaða og sterk og þrauthugsuð norðurslóðastefna er forsenda beggja.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta