Litháen og viðurkenning Íslands
Í nístandi 14 gráðu frosti í miðborg Vilníus í síðustu viku afhjúpaði ég ásamt lítháískum kollega, Audroníusi Azubalis, Íslandsskjöldinn. Litháar létu setja hann upp á strætinu sem einnig ber nafn Íslands, í minningu þess að sama dag, 11. febrúar, voru liðin nákvæmlega 20 ár frá því Alþingi samþykkti sögulega ályktun um stuðning við sjálfstæði Litháen. Í frostinu flutti Vytautas Landsbergis, leiðtogi Litháa í sjálfstæðisbaráttunni, tilfinningaþrungna ræðu, berhöfðaður í kuldanum, og rifjaði upp hvernig samþykkt Alþingis braut ísinn og ruddi brautina að viðurkenningu alþjóðasamfélagsins á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna. Litháar höfðu þá búið stærstan part síðustu aldar undir erlendri harðstjórn, mestmegnis Sovétríkjanna, sem innlimuðu Eystrasaltsríkin sumarið 1940 í kjölfar illræmds griðasáttmála Hitlers og Stalíns. Ári síðar réðust þó nasistar inn í Eystrasaltsríkin, þar á meðal Litháen, sem mátti þola blóði drifna hersetu nasista það sem eftir lifði heimsstyrjaldarinnar síðari, en þá tók enn við harðstjórn Stalíns. Áhrifin af langvarandi erlendri harðstjórn á litla þjóð er erfitt að gera sér í hugarlund núna. Heimsókn í gamla KGB-fangelsið í miðborginni, sem nú er orðið að safni um þjáningasögu Litháa á síðustu öld, skerpti þó óþyrmilega skilning aðvífandi gesta af Íslandi um fantatökin sem þjóðin var beitt.
Ísland innrammað
Litháar hafa ekki gleymt þætti Íslands, og íslenskra stjórnmálamanna. Í þinginu, Seimas, hangir uppi mynd af Jóni Baldvin Hannibalssyni með fallegt alskegg og byltingarglit í auga á meðal helstu erlendra stuðningsmanna Litháa frá þeim tíma. Annars staðar í þinginu rakst ég á innrammað skeyti sem Seimas var sent sama dag og Alþingi tók sína afdrifaríku ákvörðun, undirritað af Steingrími Hermannssyni. Hann var þá forsætisráðherra vinstri stjórnarinnar. Á þriðja staðnum í þinghúsinu hangir sjálf ályktunin innrömmuð á íslensku. Á stórum fundi sagnfræðinga og stjórnmálamanna sem haldinn var í gamla þingsalnum um stöðu Litháen í alþjóðasamfélaginu voru enn á dögum vaskar kempur sem spurðu eftir Hannibalssyni. Salurinn stóð upp og þakkaði Íslandi með dynjandi lófataki fyrir frumkvæði hans og Alþingis þegar íslenskur utanríkisráðherra ávarpaði þá 20 árum síðar.
Eins og skjölin sögulegu frá Alþingi og myndin af Jóni Baldvin eru innrömmuð á veggjum Seimas þá er Ísland líka rækilega rammað inn í hjörtu Litháa. Síðar sama dag sat ég drykklanga stund með Landsbergis, sem var að koma þreyttur utan úr Evrópu og var enn að velta fyrir sér íslenskum smáatriðum úr atburðarásinni 20 árum fyrr. Þá kom hann sjálfur heim til Íslands og beitti öllum sannfæringarkrafti manns í miðri byltingu til að fá smáþjóð norður
undir heimskauti til að setja lóð sitt á vogarskál hins litháíska sjálfstæðis. Augu Landsbergis urðu rök þegar hann talaði um Jón Baldvin og Steingrím Hermannsson, að ógleymdum Jörundi Hilmarssyni sem var ræðismaður þeirra þegar mest gekk á.
Hárrétt – en flókin ákvörðun
Í baksýnisspegli sögunnar kann okkur í dag að virðast ákvörðun Íslands hafa verið sjálfsögð. Hún var það þó ekki. Hún krafðist pólitísks kjarks, yfirvegaðs mats, ekki einungis á ávinningum viðurkenningarinnar fyrir Litháen, heldur einnig á afleiðingunum fyrir Ísland. Litháar voru einbeittastir Eystrasaltsþjóðanna á leið sinni til sjálfstæðis og börðu fótastokkinn. Landsbergis orðaði það svo í samtalinu við mig að þeir hefðu brennt allar brýr að baki sér, og fyrir þeim hefði einungis ein leið verið fær: Fram til sjálfstæðis. Á þetta lagði hann þunga áherslu við stjórnmálamenn úr öllum flokkum þegar hann kom í fræga heimsókn til Íslands í október 1990.
Þá var uppi flókin staða heima og erlendis. Íslendingar voru í viðræðum við Sovétríkin um endurnýjun mikilvægra viðskiptasamninga. Það blakti örugglega í hugsanagangi áhrifamikilla stjórnmálamanna í fleirum en einum flokki. Í Sovétríkjunum stóð Gorbatsjef forseti tæpt, einsog kom í ljós þegar hann stóð með naumindum af sér atlögu harðlínumanna síðar á árinu. Í umræðunni heima og erlendis var því teflt fram að liðsinni við Litháa og Eystrasaltsríkin gæti veikt stöðu hans, og hugsanlega gert harðlínuöflum greiðara að taka völdin í Sovétríkjunum. Þannig töluðu menn jafnvel upphátt á Íslandi. Það var því ekki einboðið að Ísland gerðist ísbrjótur Eystrasaltsríkjanna. Til að komast að þeirri niðurstöðu þurfti bæði heitt hjarta og ískalt stöðumat.
Teningunum kastað
Á kaldri janúarnóttu, mánuðum eftir að Vytautas Landsbergis hafði verið heima á Íslandi, hringdi hann í íslenska utanríkisráðherrann. Sovéski herinn hafði þá ráðist á sjónvarpsturninn í Vilníus, drepið 14 mótmælendur og öllum heiminum var ljóst að Litháar hygðust berjast til þrautar fyrir sjálfstæði sínu. Landsbergis reyndi þá að ná sambandi við marga stjórnmálamenn á Norðurlöndum og í Evrópu. Hann náði í Jón Baldvin og sagði honum að ef Íslendingar meintu eitthvað með góðum orðum yrði hann að koma sjálfur í heimsókn til Litháen. Viku síðar var Jón Baldvin kominn í fræga heimsókn sína til Vilníus, og Eystrasaltslandanna allra, ávarpaði fjöldafundi og þjóðþing. Af þeim ástríðuþrótti sem ekki hefur elst af fyrrverandi formanni Alþýðuflokksins gaf hann út skorinorðar yfirlýsingar um að Ísland myndi viðurkenna sjálfstæði þeirra. Þar með var teningunum kastað. Ákvörðun Jóns Baldvins var tekin bæði í krafti heits hjarta og ískalds stöðumats – og var hárrétt.
Á Íslandi var Jón Baldvin efalítið afgerandi drifkraftur í ákvörðun Íslendinga. Hann bjó þó að traustu baklandi. Almenningur studdi baráttu Eystrasaltsþjóðanna heils hugar. Þegar ákvörðunin lá fyrir studdi ríkisstjórnin hana einhuga. Innan Sjálfstæðisflokksins, sem þá var í stjórnarandstöðu, var mjög eindreginn stuðningur við málstað Litháa. Þann 11. febrúar 1991 samþykkti Alþingi svo einróma stuðning við sjálfstæðisbaráttu þeirra. Hann fólst í að ítrekuð var viðurkenning okkar á sjálfstæði Litháen frá 1922, þegar landið naut sjálfstæðis um nokkurra ára skeið í kjölfar fyrri heimstyrjaldar og byltingar í Rússlandi. Jafnframt lýsti Alþingi því yfir að Ísland hygðist taka upp stjórnmálasamband við Litháen.
Það kom svo í hlut nýrrar ríkisstjórnar að formgera stjórnmálasamband við Eystrasaltsríkin þegar utanríkisráðherrar allra ríkjanna þriggja undirrituðu, ásamt Jóni Baldvin fyrir Íslands hönd, staðfestingu á stjórnmálasambandi Íslands við þau við hátíðlega athöfn í Höfða 26. ágúst 1991. Ég var þá nýorðinn formaður þingflokks Alþýðuflokksins og var stoltur af formanni mínum og ríkisstjórn.
Árangursríkur leiðangur
Á þeim 20 árum sem liðin eru frá því Litháar urðu sjálfstæð þjóð hafa þeir unnið þrotlaust að því að styrkja stöðu sína – og tekist vel. Þeir hafa vissulega lent í efnahagslegum stormviðrum á síðustu árum einsog Íslendingar og fleiri þjóðir. Í ljósi sögunnar, og átaka sem þjóðin hefur lent í við öfluga granna í ölduróti tímans, hefur hið kórrétta leiðarljós hins vegar verið að styrkja með öllu móti öryggi þjóðarinnar. Þeir, og grannþjóðirnar tvær við Eystrasaltið, notuðu þær sérstöku aðstæður sem sköpuðust í kjölfar kalda stríðsins til að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu. Íslendingar studdu þær óskir mjög eindregið, og aðild allra tók gildi árið 2004. Sama ár var aðild Litháen að Evrópusambandinu einnig fullgilt. Með þessu tvennu, auk atorku við að byggja upp tvíhliða tengsl við ríki nær og fjær, hafa framsýnir stjórnmálamenn í Litháen tryggt þjóð sína eins vel gegn viðsjám í framtíðinni og unnt er. Með sama hætti er umsókn okkar um aðild að Evrópusambandinu einnig hugsuð til þess m.a. að styrkja öryggi herlausrar þjóðar gegn ófyrirséðum vám.
Við Íslendingar höfum með margvíslegum hætti notið vináttu og hlýhugar Litháa síðan þeir urðu aftur sjálfstæð þjóð. Skemmst er að minnast þess að í hremmingum Icesave-deilunnar töluðu þeir máli okkar linnulaust við þau ríki sem máli skiptu. Þeir studdu okkur heils hugar innan AGS þegar sú deila frestaði afgreiðslu efnahagsáætlunar okkar. Þegar Alþingi tók ákvörðun um umsókn Íslands að Evrópusambandinu samþykkti Seimas stuðningsályktun við Ísland, sem Vygaudas Usackas, þáverandi utanríkisráðherra, kom sjálfur með og afhenti forseta Alþingis.
Söguleg utanríkisstefna
Ákvörðun Íslendinga árið 1991 gagnvart Eystrasaltsríkjunum, og Litháen sérstaklega, var efalítið einn af hátindum íslenskrar utanríkisstefnu. Jón Baldvin lék lykilhlutverk sem sagan á aðeins eftir að stækka. Um svipað leyti og Eystrasaltsþjóðirnar stóðu í sinni baráttu í lok kalda stríðsins hófu aðrar þjóðir leiðangur sinn til sjálfstæðis. Þá, einsog í tilviki Eystrasaltsríkjanna, héldu stórþjóðir að sér höndum. Íslendingar gerðust þá enn ísbrjótar og réttu smáþjóðum hjálpandi hönd, einsog Króötum, sem lýstu yfir sjálfstæði en þurftu að bíða viðurkenningar alþjóðasamfélagsins uns Íslendingar viðurkenndu fullveldi þeirra, einnig fyrstir þjóða. Dæmin eru fleiri. Íslendingar geta með réttu verið stoltir af þessari fortíð. Hin sögulega hefð sem Jón Baldvin mótaði í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar er partur af utanríkisstefnu Íslands. Ef þær aðstæður skapast að við teljum að verulega muni um okkar stuðning, til dæmis varðandi Palestínu, á Ísland að vera ódeigt. Þar, einsog í tilviki Eystrasaltsþjóðanna, þarf að velja tímann af kostgæfni. En lærdómurinn sem við, alveg einsog Eystrasaltsþjóðirnar og aðrar smáþjóðir, eigum að læra af afstöðu Íslands til Litháen á sínum tíma er þessi: Smáþjóðir eiga að vera til staðar þegar aðrar smáþjóðir þurfa liðsinni þeirra.
Skrifað í Vilníus, Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra.
Grein ráðherra í heild sinni, laugardaginn 19. febrúar 2011: