Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

6. mars 2011 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Ræða ráðherra á Búnaðarþingi 2011

Ræða Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Búnaðarþingi 2011

 

Ágætu búnaðarþingsfulltrúar og góðir gestir

 

Búnaðarþing kemur nú saman og á sem fyrr  fullt mikið erindi við okkur, bæði landbúnaðinn og íslenska þjóð. Við lifum á miklum umbrotatímum, hvort heldur litið er út í heim eða til okkar eigin þjóðfélags.  Íslensk þjóð stendur á rústum þeirrar hugmyndafræði sem taldi æðstu verðmæti í efnislitlum pappírum og viðskiptavild stórfyrirtækja. Þegar þeim veruleika er sópað í burtu standa þó altjent eftir þau verðmæti sem landið og hafið umhverfis það gefa okkur. Sumir vilja við þetta kannast og ekki yfirgefa þennan hrunda veruleika heldur byggja aftur upp á sömu fúnu stoðunum.

 

Úti í hinum stóra heimi riðlast heilu samfélögin, harðstjórar hrökklast frá völdum en allur almenningur sömu landa gerir kröfur til réttlætis og mannsæmandi lífs. Eins og í byltingaröldu löngu fyrr, nefnilega þeirri frönsku, er það staða landbúnaðar í heiminum sem er hinn sívirki drifkraftur breytinga og gerjunar.  

 

En víkjum nánar að ástandinu hér heima.

 

Við skulum ekki gera lítið úr þeim vanda er fjármálakreppan hefur skapað og þeim viðfangsefnum sem framundan eru . Það er engu að síður svo að við sjáum nú glöggt, meðal annars með samanburði við frændur okkar Íra, að með okkar eigin samfélagsskipan og fullveldi mun okkur takast að vinna bug á erfiðleikunum Það höfum við áður gert og enn skal á það minnt að fyrir aðeins örfáum árum ef litið er til Íslandssögunnar í heild – var hér sú stjórnskipan að okkur var stjórnað af evrópskum konungi. Þá voru efasemdir um að okkur væri hollt að taka stjórnina í eigin hendur en sagan er hér ólygnust. Fullveldistími okkar í hartnær öld hefur verið samfelld saga framfara og aukinna lífsgæða. Við höfum á undraskömmum tíma náð að þróast í þá átt að verða meðal fremstu velferðarsamfélaga heims og erum það enn þrátt fyrir heimskreppu. Nú er á heimsvísu tekið eftir hve vel okkur gengur að feta okkur fram úr þeim ógöngum sem þjóðfélag okkar rak í við sofandahátt, óstjórn og múgmennsku hinnar óheftu markaðshyggju. En sýn okkar á lausnir morgundagsins eru með ýmsum hætti.

 

Sú þjóð sem veit sér ekkert æðra mark

en aurasníkjur, sukk og fleðulæti,

mun hljóta notuð herra sinna spark

og heykjast lágt í verðgangsmanna sæti.

Sú þjóð sem dottar dáðlaus, viljasljó,

og dillar þeim er ljúga, blekkja, svíkja,

skal fyrr en varir hremmd í harða kló.

Hægt er að festast, bágt mun úr að víkja!

 

Svo orti Jón Helgason prófessor í Árnastofnun í Kaupmannahöfn fyrir liðlega hálfri öld síðan og enn eiga þessi orð erindi við okkur. Kannski fremur nú en þá.    

 

Stór hluti þjóðfélagsumræðunnar snýst um hugsanlega aðild okkar að Evrópusambandinu. Ég hef ekki farið leynt með mína skoðun á þessu máli og hefur viðhorf mitt farið í taugarnar á sumum – ekki síst þar sem ég gegni embætti ráðherra. Það getur hins vegar enginn vænt mig um að hafa þar gengið gegn því sem ég hefi áður sagt. Skoðanir mínar til ESB mála lágu fyrir við myndun núverandi ríkisstjórnar og þær hafa ekki breyst.

Sama er að segja um þann flokk sem ég hefi starfað fyrir á vettvangi þings í meira en áratug. Stefna Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs er skýr í þessum efnum, hefur verið það og verður. Skýr áherslumunur stjórnarflokkanna tveggja til þessa eina máls er raunar það stærsta sem þeim ber í milli. Þingsályktunartillaga um aðildarviðræður við Evrópusambandið var samþykkt með naumum meirihluta og við vorum nokkur í stjórnarliði sem lögðumst þar á móti. Réttur hvors flokks fyrir sig og einstakra stjórnarþingmanna til að halda fram sinni skoðun í þessu máli var undirstrikaður í samkomulagi flokkanna og er í fullu gildi. Eins og til þessa máls var stofnað þarf því engan að undra að það mæti andstöðu innan stjórnar og má miklu fremur spyrja sig að því hvort ekki væri eðlilegt að sú andstaða væri meiri og virkari þegar horft er til viðhorfa, ekki bara í einstökum atvinnugreinum eins og þeim sem undir mitt ráðuneyti heyra heldur ekki síður til viðhorfa almennings í landinu.

Allmargir lögðu upp í þessa ferð í þeirri trú að hér væri mögulegt og raunhæft að sjá án skuldbindinga hvað í boði er og ég mun hér víkja aðeins að því hversu vel sú sýn hefur staðist.

Eftir því sem á umsóknarferlið hefur liðið hef ég fengið staðfest það álit mitt að samningaferlið yrði rekið á forsendum Evrópusambandsins, lögum þess og reglum. Í umræðunni hafa margir horft til þess að Noregur hafi oftar en einu sinni farið í gegnum aðildarviðræður og síðan nýtt sér sinn lýðræðislega rétt til að hafna aðild.

Staðreyndir þær sem blasa við íslenskum samningamönnum og ráðuneytum hér heima tala öðru máli. Það Evrópusamband sem Noregur átti í viðræðum við er ekki lengur til staðar og aðferðafræði stækkunarstjóra ESB er í reynd innlimunar- og aðlögunarferli. Fái ESB og talsmenn þess meðal Íslendinga að ráða ferðinni verður Ísland að miklu leyti orðið aðili að ESB með margháttuðum aðlögunum íslenskra samfélagshátta áður en þjóðinni stendur til boða að ganga til kosninga um málið. Þær kosningar geta þá hæglega snúist upp í að verða kosningar um afarkosti.

Þegar við bætist að Evrópusambandið heitir hér stórum fjárhæðum til styrkja og verkefna inni í íslensku samfélagi er ljóst að allar hugmyndir manna um lýðræðislegt ferli eru horfnar okkur. Hér stendur smáþjóð í efnahagslegri kreppu frammi fyrir þeim Trójuhesti gulls og fagurgala sem illt getur verið að verjast.

 

Það er því mikilvægt að íslenskir stjórnmálamenn, stéttarfélög, sveitarfélög og allur almenningur standi fast gegn fémútum Evrópusambandsins á þessum viðsjárverðu tímum. Um leið verðum við að verjast öllum tilhneigingum hins erlenda stórveldis til að taka hér stjórnartauma af réttkjörnum og lýðræðislegum stjórnvöldum landsins með innleiðingu breytinga sem gerðar eru til þess eins að flækja Ísland í net innlimunar og missi fullveldis.

 

Í þingsályktun um aðildarumsókn að Evrópusambandinu frá 13. júlí 2009 segir að við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skuli ríkisstjórnin fylgja þeim leiðbeiningum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Hvað varðar landbúnaðarþátt míns ráðuneytis má segja að fyrri þætti þessa verkefnis, sé lokið. Það gerðist í fyrsta lagi með svörum sem voru gefin við fyrirspurnum ESB um gildandi löggjöf og framkvæmd hennar í þeim málaflokkum sem undir landbúnað heyra Síðan með undirbúningi og þátttöku í svonefndum rýnifundum sem Evrópusambandið hefur boðað til þar sem greindur er mismunur á löggjöf ESB og löggjöf Íslands í landbúnaði.

 

Framkvæmdastjórn ESB mun nú taka næstu skref í þessu ferli, sem er að ákveða hvort og með hvaða skilyrðum Íslandi verður boðið að samningaborðinu. Verði af því er komið að okkur að móta samingsskilyrði fyrir landbúnaðinn. Hvað varðar þá ákvörðun skal byggt m.a. á meirihlutaáliti í greinargerð eins og skýrt er tekið fram í samþykkt Alþingis;

 

„Meirihlutinn leggur áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða. Að mati meirihlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á Alþingi.“

 

Það er því síður en svo að Ísland gangi skilyrðislaust til viðræðna við ESB því þar gilda þeir fyrirvarar sem settir eru í nefndarálitinu og þeir eru mjög skýrir þegar kemur að forræði okkar á sviði landbúnaðar sem og margra annarra þátta. Næsta skref okkar í þessum efnum er einmitt að setja þessi skilyrði með skýrum hætti og árétta þar með þá línu sem við getum sagt þjóðinni og viðsemjendum okkar að ekki verði hvikað frá og veit ég að afstaða Bændasamtakanna er þar mjög skýr og heil. Það er vitaskuld ekki hlutverk íslenskra samningamanna og embættismanna að setja þessi skilyrði eða að vera sérstakir talsmenn þeirra sjónarmiða sem ESB stendur fyrir. Umboð þeirra og ríkisstjórnarinnar til þessara samninga er skilyrt af hálfu Alþingis og það vona ég að allir geri sér grein fyrir.

Að lokum þetta um þennan þátt mála. Deilur um utanríkismál eru hverri þjóð vandmeðfarin og við sem stöndum gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið erum og eigum að að vera framherjar í baráttu fyrir víðsýni en ekki þröngsýni, umburðarlyndi og gæta okkar á öllum stigum á hverskyns talsmönnum þjóðrembu og einangrunar. Ísland er hluti af alþjóðasamfélaginu og getur sem slíkt borið höfuðið hátt. Okkur er lífsnauðsyn að eiga mikil og góð samskipti í allar áttir og vera minnug alþjóðlegrar þátttöku okkar í heimssögunni fyrr og síðar. Það er þessvegna mjög af hinu góða þegar menn minnast nú þess mæta Íslendings, Guðríðar Þorbjarnardóttur sem fyrst evrópskra kvenna ól barn sitt á meginlandi Norður Ameríku og var lengi vel víðförulust íslenskra kynsystra sinna. Hennar saga minnir okkur á að horfa vítt yfir og að smæð þjóðar minnkar ekki þann sem ætlar sér annað.

 

Góðir áheyrendur

Mér er það ekkert launungarmál að ég hef haldið fast fram þeirri skoðun að hvorki eigi að leggja niður ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðar né heldur að veikja stjórnsýslulega stöðu þess með því að sameina það eða fella inn í önnur ráðuneyti.

Við Búnaðarþing vil ég í þessu samhengi koma á framfæri þakklæti fyrir órofa samstöðu og stuðningsyfirlýsingar frá félagasamtökum bænda um allt land sem hafa lagt mikla áherslu á að halda öflugu og sjálfstæðu ráðuneyti sjávarútvegs- og landbúnaðarmála og sama afstaða heyrist nú jafnt frá sjávarútvegi og úr af öðrum atvinnugreinum sem hér eru undir.

Menn skulu horfa til þess að hjá þessum atvinnugreinum míns ráðuneytis - með svo sterka jarðtengingu - er hörðust andstaða við aðilda að ESB. Þetta mál snýst þess vegna alls ekki um mína persónu.

 

Góðir samkomugestir.

 

Það hefur skapast sú venja að ráðherra geri í þessu ávarpi sínu við upphaf Búnaðarþings, grein fyrir helstu viðfangsefnum sem hann er að vinna að og hvert hann stefnir í málefnum landbúnaðarins.  Ég ætla að byrja hér á svínaræktinni.

Þá hyggst ég á næstunni leggja fram lagafrumvarp sem miðar að því að svínarækt verði stunduð í auknum mæli á fjölskyldubúum. Staða þessara mála er með þeim hætti í dag að ekki er við búandi. Ný aðbúnaðarreglugerð svína mun einnig líta dagsins ljós innan skamms tíma.

Við getum dregið mikinn lærdóm af því hvernig þessi búgrein hefur þróast undanfarin ár. Á síðastliðnum árum hefur svínaræktin farið í gegnum nokkur tímabil offramleiðslu og verðhruns sem leitt hefur til gjaldþrota búa, nú síðast í kjölfar bankahrunsins. Fjármálastofnanir hafa ítrekað leyst til sín bú, afskrifað skuldir sem nema margföldu verðmæti dæmigerðs fjölskyldbús og selt þau aftur oftar en ekki til aðila sem fyrir eru á markaðnum.  Á skömmum tíma hefur framleiðslan færst á fárra manna hendur og er nú svo komið að aðeins um tugur bænda stendur að allri framleiðslu svínakjöts á Íslandi þar sem stærsti frameiðandinn ræður yfir meira en helmingi framleiðslunnar. Til að setja þessar tölur í samhengi þá er hún sambærileg því að einn mjólkurframleiðandi hefði hér 70 milljón lítra framleiðslurétt. Það liggur í augum uppi að slík staða skekkir mjög samkeppnisstöðu innan búgreinarinnar og smærri framleiðendur láta í minni pokann fyrir þeim stóra vegna yfirburða hans á markaði.

Þessi þróun er líka alvarleg út frá sjónarmiðum um traust fæðuframboð og öryggi við framleiðsluna. Smitálag eyskt í stærri einingum og þar með hættan á að upp komi alvarlegir sjúkdómar. Ekki þarf að tíunda þau áhrif sem það hefði á kjötmarkaðinn á Íslandi ef svo stór framleiðandi yrði fyrir alvarlegu áfalli og myndu þau áhrif teygja sig yfir í aðrar búgreinar. Fyrir ríkissjóð sem er bótaksyldur í slíkum tilfellum yrði þetta einnig stór biti að kyngja

Í ljósi gríðarlegs ójafnvægis í samkeppnisstöðu innan búgreinarinnar vekur það óneitanlega undrun að Samkeppniseftirlitið hefur ekki séð sér fært að ógilda samruna á þessu sviði þrátt fyrir að þar hafi nú einn aðili ”óumdeilanlega markaðsráðandi stöðu sem skapað getur umtalsverðar samkeppnishömlur,” eins og það er orðað í áliti eftirlitsins. Við slíku úrræðaleysi hljóta stjórnvöld að þurfa að bregðast og búa svo um hnútana að hægt sé að tryggja eðlilegt rekstrarumhverfi í landbúnaði og þar með öruggt framboð matvæla.

 

Í ljósi þeirrar stöðu sem komin er upp í svínaræktinni, hljótum við að varpa fram spurningunni um í hvaða átt við viljum sjá íslenskan landbúnað þróast. Eigum við á hættu að sjá fleiri búgreinar feta þessa slóð með tilheyrandi afleiðingum fyrir búsetu og atvinnu á landsbyggðinni?

Ég tel að snúa verði af þessari braut og svínarækt á Íslandi eigi að reka á sömu forsendum og aðrar búgreinar íslensks landbúnaðar. Við framleiðslu í landbúnaði ber að taka mið af fæðuöryggi þjóðarinnar og hollustu afurðanna ásamt samfélagslegum áhrifum búgreinannanna hvað varðar verðmætasköpun, aukna atvinnu og því hlutverki að treysta byggð í landinu. Það er stefnt að því að frumvarp um svínaræktina komi til afgreiðslu Alþingis á yfirstandandi þingi.

Aðra nefnd skipaði ég sem er að ljúka störfum og varðar alifuglaframleiðslu. Þótt staða þeirrar búgreinar sé tiltölulega góð veit ég að nefndin mun leggja þar áherslu á nokkur atriði sem vert er að koma í framkvæmd m.a. hvað úrganginn varðar og atriði er varða stærðir búanna. Alifuglaræktin glímdi á liðnu ári við meiri vanda hvað varðar salmonellusýkingar en verið hefur lengi. Það ánægjulegt að þær fregnir sem við nú höfum úr greininni eru mun betri og að innan hennar er mikil og almenn samstaða um að verjast þessum vágesti og að við höldum okkur við þær ströngu reglur um heilbrigði og hollustu sem hér gilda þó þær gangi umtalsvert lengra en almennt er í okkar samanburðarlöndum.

 

 

Í desember undirritaði ég tvær reglugerðir. Önnur þeirra fjallar um hámark transfitusýra í matvælum en samkvæmt henni er óheimilt að markaðssetja matvæli sem innihalda meira en 2 grömm af transfitusýrum í hverjum 100 grömmum af heildarfitumagni. Reglugerðin gildir ekki um transfitusýrur sem eru í dýrafitu frá náttúrunnar hendi.

Hin reglugerðin varðar merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og fóðurs. Samkvæmt henni er matvæla- og fóðurfyrirtækjum gert skylt að merkja matvæli sem mögulega samanstanda af eða innihalda erfðabreytt efni. Markmið reglugerðarinnar er að tryggja upplýst val neytenda við kaup á matvöru.

Frestur til að uppfylla ákvæði beggja þessara reglugerða rennur út 1. ágúst næstkomandi. Með báðum reglugerðunum er markmiðið að tryggja enn frekar hreinleika íslenskra matvæla sem er afar mikilvægt í harðri samkeppni á markaðnum og til að halda uppi þeirri ímynd hreinleika og hollustu sem íslensk matvæli eru þekkt fyrir. Áfram verður unnið á þessari braut með hagsmuni landbúnaðar og neytenda að leiðarljósi.

 

Eins og oft hefur áður komið fram í máli mínu þá hef ég mikinn áhuga á að gera ýmsar breytingar á jarðalögum, einkum til að formfesta skynsamlega landnýtingu með tilliti til fæðuöryggis þjóðarinnar. Ég skipaði vinnuhóp haustið 2009 í þessu skyni og skilaði hann drögum að frumvarpi þann 1. desember.

Fyrir hverja sjálfstæða þjóð er grundvallaratriði að þurfa ekki að treysta á að aðrir sjái henni fyrir fæðu. Landbúnaðarland er ein af stærstu auðlindum hverrar þjóðar og þessa auðlind líkt og aðrar ber okkur skylda til að nýta og umgangast af virðingu, skynsemi og ábyrgð, með langtímahagsmuni í huga. Í þessum málum líkt og öðrum þurfum við að endurskoða stöðu okkar og átta okkur á þeim raunveruleika sem blasir við. Á meðan aðrar þjóðir leggja kapp á að tryggja sér nægjanlegt ræktunarland höfum við leyft okkur, ég leyfi mér að segja, óásættanlegt kæruleysi í þessum efnum og horft aðgerðarlaus á bestu bújarðirnar í okkar frjósömustu sveitum teknar úr ræktun og jafnvel gerðar ónýtanlegar til matvælaframleiðslu fyrir komandi kynslóðir. Slíkt er mikill ábyrgðarhluti að gera þegar fyrirsjáanlegt er að á næstu árum mun samkeppni um fæðu heimsins harðna svo um munar

Það hefur löngum verið ríkt í þjóðarsálinni að eiga land. Í aðdraganda hrunsins kepptust fjármálamenn og stórfyrirtæki við að kaupa jarðir enda engin maður með mönnum nema hann ætti góða jörð og helst fleiri en eina. Allt var falt fyrir rétt verið og hugtök eins og framtíðarhagsmunir, ábyrgð og fæðuöryggi þóttu óþægilegt nöldur sem settu mönnum óeðlilegar hömlur í gróðabraskinu. Af þessari braut hömlulausrar frjálshyggu og skammtímahagsmunahyggju verðum við að snúa áður en í óefni er komið. Ég tel að við eigum mikla möguleika að efla okkar innlendu matvælaframleiðlsu til hagsbóta fyrir þjóðina til framtíðar. Tryggja þarf ábúð á bújörðum og að landbúnaðarland sé nýtt af skynsemi með hliðsjón af sjónarmiðum fæðuöryggis og samfélagslegum hagsmunun til langs tíma litið.

Þetta mál snertir okkur einnig þegar kemur að nýliðun í bændastétt. Framtíð hverrar einustu atvinnugreinar byggir á því að eðlileg nýliðun verði í greininni þannig að kynslóð taki við af kynslóð. Það er því ákveðið áhyggjuefni að meðalaldur íslenskra bænda heldur áfram að hækka sem bendir til þess að óeðlilega lítil nýliðun sé í greininni. Við verðum því velta fyrir okkur hvaða ástæður liggja þarna að baki og til hvaða aðgerða er hægt að grípa til að sporna við þessari þróun. Einnig hér er stefnt að frumvarpi á yfirstandandi þingi.

 

           

Margt hefur þrátt fyrir allt lagst á betri veg fyrir bændum. Þar vil ég nefna útflutning á lambakjöti sem hefur gengið vel. Á sl. ári var t.d. heildarútflutningur þess 3.400 tonn og fékkst fyrir hann rúmur 2,1 milljarður króna. Meðalverð á kíló í útflutningi á árinu nam 616 krónum en útflutningsverðið er nú sambærilegt og/eða jafnvel betra en það verð sem fæst fyrir lambakjötið hér innanlands. Þetta eru vissulega góðar fréttir.

Hvað mjólkurframleiðsluna varðar vil ég nefna að sala mjólkurvara gengur vel og við búum þar að mjög góðri markaðsstöðu sem öflug fyrirtæki bænda hafa rækt af kostgæfni. Þann 1. febrúar sl. ákvað verðlagsnefnd búvara hækkun á afurðarstöðvarverði til bænda um 3,25 kr. á lítra mjólkur, þ.e. úr 71,13 í 74,38 kr., eða um 4,56%. Mjólkurframleiðendur hefðu eflaust kosið meiri hækkun en þessi hækkun var engu að síður sameiginleg ákvörðun verðlagsnefndar og án ágreinings í nefndinni. Í heildina hefur tekist mjög vel til að halda verðlagningu mjólkurvara og vinnslu hennar sanngjarnri og mikilvægt að svo verði áfram.

Á síðastliðnu ári voru einnig gerðar breytingar á reglum sem gilda um aðilaskipti vegna greiðslumarks í mjólk. Breytingarnar fólu í sér að tekinn var upp kvótamarkaður með tveim markaðsdögum á ári. Fyrir utan eigendaskipti á jörðum í rekstri og nú eftir breytingar á reglugerð, aðilaskipti milli aðila innan sömu jarðatorfu, fara öll viðskipti með greiðslumark fram á markaði. Fyrsti markaðurinn samkvæmt nýju fyrirkomulagi var haldinn 1. desember síðastliðinn og þótt viðskipti hefðu að ósekju mátt vera meiri er ánægjulegt að þrátt fyrir efasemdir náðist jafnvægisverð og viðskipti urðu á fyrsta markaði. Næsti markaður verður svo haldinn 1. apríl næstkomandi og mun næsta ár gefa frekari reynslu af þessu fyrirkomulagi.

Ég minntist hér áðan á verðlag mjólkurvara og þar skiptir þátttaka ríkisins miklu. Greiðslumarkið sem er arftaki beinna niðurgreiðslna í mjólk er pólitísk ákvörðun um að stuðla að lágu vöruverði. Það er þessvegna mikilvægt og raunar alger forsenda þess kerfis sem við búum við að viðskipti með greiðslumark mjólkur sé ekki með þeim hætti að bændur fénýti sérstaklega rétt sinn til framleiðslu. Sáttin um innlenda landbúnaðarframleiðslu sem er eitt það dýrmætasta sem bændastéttin á er hér að veði.

Fyrirkomulag og úthlutun greiðslumarks í mjólk hefur verið óbreytt til margra ára enda mikilvægt fyrir greinina að búa við ákveðinn stöðugleika hvað það varðar. Engu að síður er okkur hollt að staldra annað slagið við og íhuga hvort eitthvað megi betur fara. Það er staðreynd að alltaf eru einhverjir framleiðendur sem ekki ná að framleiða upp í það greiðslumark sem þeir hafa fengið úthlutað og hefur reglan hingað til verið sú að það sem eftir stendur deilist á þá sem nýtt hafa sinn kvóta. Gildir þar hlutfallsleg úthlutunarregla þannig að þeir sem mest eiga fá mest en þeir sem minni eru fá minna. Hugsanlega væri ávinningur fyrir greinina í heild sinni að deila þessu ónýtta greiðslumarki út á annan hátt og horfi ég þar sérstaklega til nýliða í greininni eða til eflingar minni framleiðenda. Hef ég í hyggju að skoða þesas möguleika í samvinnu við bændur og móta frekari hugmyndir hvað þetta varðar.

 

Árið 2010 var æði sviptingasamt á sviði hrossaræktarinnar en í upphafi árs leit allt vel út, landsmót á Vindheimamelum framundan og útflutningurinn hafði gengið vel. Á fyrstu mánuðum ársins fór þá að stinga sér niður á fleiri og fleiri stöðum þrálátur hósti í hrossum sem þróaðist upp í pest sem öll hross tóku fyrir rest og kom þá enn í ljós hve íslenski hesturinn er viðkvæmur fyrir smitsjúkdómum. Pestin leiddi til þess að hestamennskan lá því sem næst alveg niðri frá því í byrjun maí og fram á sumar og aflýsa þurfti landsmóti, en þau mót hafa verið haldin með reglubundnum hætti allt frá árinu 1950.

Stjórnvöld beittu sér fyrir mótvægisaðgerðum sem heppnuðust vel, veitt var fjármagni til aukinna rannsókna á eðli sjúkdómsins. Tjónið varð hins vegar margfalt, margfalt meira en það tók greinin sjálf öll á sig. Hrossaræktendur og hestamenn náðu engu að síður vopnum sínum að nýju á miðju sumri og sneru vörn í sókn. Sett var upp nýtt plan fyrir kynbótasýningar, almennar hesta- og reiðmennskukeppnir sem gengu vel og útflutningsmarkaðirnir opnuðust að nýju í haust. Auðvitað var tapið eftir sem áður gríðarlegt en greinin komst ótrúlega vel frá þessu og er nú á fullum spretti, útflutningur stöðugur, einkum á betri og því verðmætari hrossum og framundan er nú í ár bæði landsmót og heimsmeistaramót.

 

Sú ánægjulega þróun hefur orðið í loðdýraframleiðslunni að íslensk skinn seljast sem aldrei fyrr og á góðu verði. Staða greinarinnar er því góð og allt önnur en var. Trúa mín er sú að loðdýraræktin eigi mikla framtíð fyrir sér og að Ísland geti boðið þessari grein hagstæð rekstrarskilyrði.

 

Sömuleiðis hefur vöxtur verið mikill í ferðaþjónustu bænda. Til langs tíma litið er þetta ný búgrein sem er farin að skila verulegum arði. Hundruð starfa liggja í búgreininni og sífellt er boðið upp á nýbreytni sem laðar að fleiri ferðamenn og eflir greinina. Ferðaþjónusta bænda vekur okkur vissulega til umhugsunar um að sagan, landið og byggðin þurfa að fylgjast að ef vel á að takast. Það eru því mikil öfugmæli þegar því er haldið fram að innlend tollvernd matvæla hamli hér ferðaþjónustu. Mig langar í því sambandi að vitna til ályktunar frá sveitarstjórn Skagafjarðar þar sem þessi mál komu til umræðu nýlega. Þar var lýst áhyggjum vegna yfirlýsinga í þessa veru og síðan segir m.a.

 

 Nefndin vill vekja athygli á að einn helsti vaxtarbroddur í ferðaþjónustu á landsbyggðinni er matartengd ferðaþjónusta og að í henni felast ótal tækifæri, ekki síst tengd sérkennum einstakra svæða.  Þá er bent á að víða á landsbyggðinni er ferðaþjónusta nátengd landbúnaði. 

 

Beint frá býli hefur haldið áfram að vaxa og dafna og má segja að þessi vaxtarsproti í íslenskum landbúnaði tengi saman hinar hefðbundnu framleiðslubúgreinar, úrvinnslugreinar og ferðaþjónustuna. Hefur þetta verið kærkomin og ánægjuleg viðbót við landbúnaðarflóruna og náð að skapa atvinnu og virðisauka heima í héraði.

Lífrænn landbúnaður og eftirspurn eftir slíkum hollustu og gæðavörum er í vexti. Þar er nauðsynlegt að ríkissjóður komi til og leggi nokkuð að mörkum. Á vegum ráðuneytisins hafa nú verið unnar tillögur um stuðning við lífrænan landbúnað og framkvæmd þess er að verða að veruleika þó í litlu sé nú á þeim miklu niðurskurðartímum sem eru í öllum ríkisfjármálum.

 

Í upphafi þessa árs skilað starfshópur um starfskilyrði í garðyrkju af sér skýrslu en sá starfshópur var skipaður í framhaldi af  viljayfirlýsingu sem var gerð í sambandi við breytingu á samningi um starfsskilyrði framleiðenda garðyrkjuafurða á milli landbúnaðarráðuneytisins og Sambands garðyrkjubænda  í júlí 2009.

Hlutverk hópsins var að koma með tillögur til að auka hagkvæmni íslenskrar ylræktar með því að benda á leiðir til að, draga úr framleiðslukostnaði eins og með bættri orkunýtingu, efla þróun og nýungar almennt og auka möguleika greinarinnar almennt t.d. með útflutningi

Í niðurstöðu hópsins kemur berlega fram að garðyrkja er mikilvægur þáttur í að tryggja matvælaöryggi þjóðarinnar .Sérstaða Íslands á sviði garðyrkju felst meðal annar í því að hér er stunduð framleiðsla allt árið um kring með hjálp endurnýtanlegrar orku í formi jarðvarma til hitunar og raforku til lýsingar í gróðurhúsum.  Garðyrkja er gríðarlega mikilvægur þáttur í að tryggja matvælaöryggi okkar enda eins og segir á áliti hópsins “er réttur og skylda hverrar þjóðar að hafa aðgang að nægum og góðum, fjölbreyttum mat”.

Mikilvægt er að hlúa að þessar búgrein og tryggja sjálfbærni og samkeppnisstöðu hennar til framtíðar

 

Á þessu ári lauk umfangsmikilli úttekt á landshlutaverkefnunum í skógrækt sem nefnd á vegum ráðuneytisins vann. Fjöldi bænda stunda nú skógrækt undir merkjum verkefnanna. Með þessu verklagi hafa þeir öðlast reynslu og trú á þeim möguleikum sem í þessari ræktun felast.

Skógræktarverkefnin hafa óefað lagt sitt af mörkum til að treysta byggð víða í sveitum sem sumar hverjar stóðu höllum fæti vegna breyttra aðstæðna og þróunar í landbúnaði. Kemur hér tvennt til, annars vegar fjárhagslegur hvati sem í verkefnunum býr en að mínu mati ekki síður trú á skógrækt sem búgrein og einnig þau jákvæðu félagslegu áhrif sem þeim hafa fylgt. Verkefnin eru nú það langt komin að skógrækt er tekin að skila nokkrum fjárhagslegum ábata sem tengist grisjun skóganna.

Á síðustu árum hefur komið æ sterkar í ljós þýðing skógræktar við kolefnisbindingu. Þar hefur Ísland skyldum að gegna og hefur tekið á sig alþjóðlegar skuldbindingar. Það fer ekkert milli mála að skógræktin er ein okkar sterkasta og besta leið í þessari mikilvægu baráttu. Landshlutaverkefnin í skógrækt hafa eins og önnur viðfangsefni orðið fyrir skerðingu en nú er unnið að áætlun til næstu 10 ára, sem ég vona að treysti búgreinina í sessi til lengri tíma.

 

Jafn og stöðugur vöxtur hefur verið í kornrækt sem hefur tvöfaldast á síðasta áratug. Framleiðslan var um 17 þúsund tonn á síðasta ári. Ýmislegt bendir til að slaki sé kominn í þá aukningu sem hefur verið á síðustu árum en jafnframt að hagkvæmt gæti verið að auka ræktunina og jafnvel þrefalda hana á næstu árum.

Mikill hagur væri af slíkri aukningu. Er þar fyrst að nefna þjóðhagslega hagkvæmni sem felst í aukinni heimaöflun fóðurs. Kornrækt er einnig mikilvægur liður í bættri ræktunarmenningu sem hefur jákvæð áhrif á alla ræktun. Með því að auka hlut innlendrar fóðurframleiðslu dregur jafnframt úr áhrifum sveiflna á heimsmarkaðsverði. Með aukinni kornrækt er auknum stoðum skotið undir fjölbreyttari landbúnað auk þess sem rétt er að nefna að öflug kornrækt skiptir máli með hliðsjón af hlutverki landbúnaðarins í hagvörnum.

Á undanförnum árum hefur framleiðsla og útflutningur eldisfisks verið vaxandi. Á árinu 2010 voru rúmlega 3000 tonn af bleikju framleidd til útflutnings og var verðmæti afurðanna um tveir milljarðar. Aðrar mikilvægar eldistegundir eru lax og þorskur. Heildarverðmæti útflutnings fiskeldisafurða var á síðasta ári um 4 milljaraðar. Gert er ráð fyrir að bleikjueldi haldi áfram að vaxa á næstu árum, en framleiðslan byggir m.a. á öflugu kynbóta- og þróunarstarfi hjá Hólaskóla.

Laxveiði síðasta sumar var mjög góð. Um 75.500 laxar veiddust í stangveiði sem er næstbesta veiði frá upphafi. Tekjur bænda af leigu veiðivatna til stangveiða eru mjög mikilvægar. Víða um land skila þær miklu og eru í raun snar þáttur í búsetu í sumum héruðum. Stangveiði er mikilvægur þáttur í ferðaþjónustu og skapar mörg störf í samfélaginu og ekki síst í hinu dreifðu byggðum. Samkvæmt rannsókn Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og Veiðimálastofnunar er velta í kringum stangveiði rúmir 12 milljarðar og í greininni eru 1.200 ársverk.

Nytjar sjávarspendýra er eitt þeirra viðfangsefna sem eru til skoðunar í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Sjálfum er mér sem Strandamanni og Breiðfirðingi þessi málefni hugleikin. Okkur Íslendingum er mikilvægt að standa hér vel að málum, halda á rétti okkur og tapa honum ekki undir yfirþjóðlegt vald. Það gildir bæði um hvalina sem ekki heyra undir þá samkomu sem hér kemur saman en ekki síður nytjar sela sem við höfum þingað nokkuð um í ráðuneytinu undanfarið. Ísland er nú fyrir atbeina ráðuneytisins aðili að málsvörn selanytja norðlægra þjóða gagnvart Evrópusambandinu sem hefur lagt stein í götu allra viðskipta með selaafurðir.

 

Ágæta samkoma.

Síðasta Búnaðarþing var haldið undir fréttum um vaxandi skjálftavirkni við Eyjafjallajökul og Fimmvörðuháls. Engan óraði þó þá fyrir þeim ósköpum sem í vændum voru og hafa haft mikil áhrif á landbúnað í einu blómlegasta landbúnaðarhéraði landsins.

Á útmánuðum 2010 fór mikill tími hjá starfsmönnum ráðuneytis í málefni sem tengdust náttúruhamförunum undir Eyjafjallajökli og sá sem hér stendur fór átta ferðir um gossvæðið til þes að geta fylgst sem gerst með. Í einni greinabestu fréttaskýringu ársins, áramótaskaupi ríkissjónvarpsins síðastliðið gamlárskvöld sáum við þess glögg merki að þetta hafði vakið athygli þó nokkuð væri nú orðum aukið að ráðherra hefði alla sína vasa fulla af gjósku Eyjafjallajökuls. Við úrlausn þessara mála skipti félagskerfi landbúnaðarins öllu máli og Bjargráðasjóður sem ýmis hafa viljað feigan á undanförnum árum kom sér nú í góðar þarfir. Það hefði vitaskuld verið enn betra að eiga þann sjóð jafn sterkan og hann var.

Vísitala matvælaverðs eins og það er mælt hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna er nú hærra en nokkru sinni og hefur nú hækkað samfellt átta mánuði í röð. Barátta mannkyns við matvælaöflun getur átt eftir að harðna og enginn vafi er á að ólgan við Miðjarðarhaf og í Miðausturlöndum tengist þessum verðhækkunum.

 

Það sama gerðist þegar móðuharðindin íslensku urðu til þess að uppskerubrestur varð í Evrópu seint á 18. öld. Franska byltingin varð þegar fram liðu stundir upphaf að mikilli frelsishreyfingu alþýðu á Vesturlöndum og í hennar slóð fylgdi margt það besta sem við búum við enn þann dag í dag. Íslenska þjóðríkið er ekki fundið upp af Fjönismönnum heldur skilgetið afkvæmi þessarar alþjóðlegu gerjunar og það sama á við um nútíma lýðræði sem er tengt þjóðríkinu órjúfanlegum böndum. Við hljótum því að binda vonir við að uppreisn alþýðu í Miðausturlöndum skili samfélögum þeirra að lokum fram á veginn.

En þessi staða kemur okkur Íslendingum einnig við og leggur okkur ríkar skyldur á herðar. Allar hugmyndir um að best sé og farsælast fyrir okkur að leggja af innlenda landbúnaðarframleiðslu en reiða okkur á innflutning verða nú ekki bara broslegar í efnalegu tilliti heldur siðlausar þegar horft er til þeirrar stöðu sem er í heiminum. Ísland býr yfir frjórri mold, hreinu vatni og miklu landi sem okkur ber skylda til að nýta skynsamlega.

 

Með því að nýta þá möguleika sem við eigum til matvælaframleiðslu, til fulls erum við að leggja okkar af mörkum til að mæta síaukinni þörf heimsins fyrir matvæli. Miklir möguleikar felast í íslenskum landbúnaði. Auk þess að eiga hér land og vatn höfum við á að skipa öflugum bændum og vel menntuðu fagfólki. Rektor Landbúnaðarháskólans tjáði mér fyrir stuttu síðan að metaðsókn væri í búfræðinám við skólann. Unga fólkið sér tækifæri í landbúnaði og hefur áhuga á að feta þessa braut, það þó að leiðin til að koma upp nútíma búskap sé bæði grýtt og ströng. Í krafti og áhuga ungs fólks eru einnig mikil verðmæti fólgin. Framtíðin er í þeirra höndum en okkar hlutverk er að undirbúa þá framtíð sem best við getum

 

Ég þakka gott hljóð og ítreka mínar bestu árnaðaróskir til Búnaðarþings 2011.





Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta