Ávarp ráðherra á sýningu til heiðurs Orra frá Þúfu 26. mars 2011.
Gestir á Orra hátíð
Hér hafa tveir menn verið heiðraðir sem mikið hafa lagt til Orra: Ræktandinn Indriði Ólafsson á Þúfu og Sveinn Guðmundsson á Sauðárkróki ræktandi Oturs föður Orra en fleiri nöfn verður að hafa í huga þegar Orra er getið og þess hins mikla sem hann hefur fært íslenskri hrossarækt og við fáum notið hér í þennan eftirmiðdag. Í því sambandi vil ég hér halda á lofti nöfnum tveggja heiðursmanna til viðbótar þeirra Einars Ellertssonar frá Meðalfelli ræktanda Adams afa Orra en það er samdóma álit þeirra sem til þekkja að hinn mikli stöðugleiki lundarfarsins og gangfestan óumdeilda sé umfram annað þaðan komin og eigi helstu upptök sín hjá Hrafni frá Holtsmúla en ræktandi hans var skagfirski sómabóndinn Sigurður Ellertsson í Holtsmúla.
Hlutverk Orra í íslenskri hrossarækt er að sumu leyti líkt og hlutverk Hólaskóla í íslenskri hestamennskurækt, hlutverk beggja er að efla þróun og framgang greinarinnar á traustum grunni. Orri leggur mest til efniviðarins Hólaskóli leggur til smiðina. Í báðum tilvikum koma þó fleiri að en Orri einn eða Hólaskóli. Því það eru til hreint frábærir stóðhetar, hryssur og geldingar á Íslandi sem eru algerlega óskyld Orra og það er líka til frábært reiðfólk sem aldrei hefur til Hóla komið. Það skal ég fúslega viðurkenna fyrir hönd Hóla og það hljótið þið Orra menn að viðurkenna einnig fyrir ykkar leist.
Hólar sem hæst hafa risið í hrossaræktinni með Þ-línunni, út af Þernu frá Kolkuósi og hér þennan eftirmiðdaginn gleður hestamennsku auga ykkar gæðingurinn Þóra frá Prestsbæ sem er glæsilegur fulltrúi fjórðu kynslóðar af Þ-línu Hólaræktunarinnar og er jafnframt dóttir Orra. Hún er hér setin af þjálfara sínum Þórarni Eymundssyni frá Saurbæ í Lýtingsstaðahreppi, meistara Félags tamningamanna og lektor í reiðmennsku við Hólaskóla – Háskólann á Hólum.
Takk fyrir og njótið!