Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

28. mars 2011 MatvælaráðuneytiðJón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 2009-2011

Ávarp ráðherra í afmælishófi Félags tamningamanna 19. febrúar 2011.

 

Tamningamenn, gestir, kæru vinir

 

Ég þakka kærlega fyrir þann heiður sem mér er auðsýndur hér í kvöld á 40 ára afmælishátíð félagsins. Stofnun Félags tamningamanna markaði á sínum tíma mikil þáttaskil og minnist ég þess tíma þó að samskipti mín og félagsins hafi orðið mun meiri síðar. Fyrir þá tíma viljið þið þakka eins og fram kemur í áletrun á þessum fallega skyldi sem mér var afhentur og fyrir þann tíma vil ég og þakka.

Stofnun Félags tamningamanna markaði eins og ég sagði hér áðan þáttaskil og í þeim anda sem helgaði stofnun félagsins unnum við síðan á Hólum og reyndum frekar að bæta í og um það snerist einmitt samstarf okkar, ykkar hjá FT og skólans.

Þáttaskilin og andinn sem ég hér vitnaði til snerust um það að hestamennska væri alls ekki alfarið einhverjar launhelgar sem sumir væru fæddir til en öðrum lokaðar, heldur væri hestamennskan fag sem mætti læra og hana mætti því tileinka sér í gegnum markvisst nám og ástundun. Auðvitað er fólk misvel til hestamennsku fallið rétt eins og hæfileikar fólks eru ólíkir; þannig verða þeir ekki góðir smiðir sem hafa tíu þumalfingur eða litblindir góðir málarar, þannig verða þeir heldur ekki góðir reiðmenn sem ekki búa yfir þeirri fimi og næmni sem reiðmennskan krefst, en ótrúlega mikilu má ná með ástundun í námi.

Þetta gerðu frumherjarnir sér ljóst þegar félag ykkar var stofnað og þetta gerðum við okkur ljóst við uppbyggingu námsins á Hólum. Fagmennsku í hestamennsku hefur enda fleygt svo fram að ekkert minna orð en bylting nægir til að lýsa þeim algeru þáttaskilum sem á eru orðin í öllum þáttum sem að hestamennskunni snúa og þá ekki bara í því að mennta sig til fagsins heldur ekki síður hvernig ber að stunda fagið. Því til að ná árangri í hestamennsku þarfa að ástunda fagið dag eftir dag, viku eftir viku og ár eftir ár. Þannig verða góðir reiðmenn til og þannig eru gæðingarnir mótaðir. Engir gera sér þetta betur ljóst en þig tamningamenn. Síðan ef við lítum til systurstarfsemi ykkar fags; hrossaræktarinnar, má bæta við tímaviðmiðið einingunni áratug eftir áratug.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð öllu fleiri en vil bara ítreka þessa samleið sem hrossaræktin og hestamennskan eiga og mér er það mikil ánægja að hafa ennþá tækifæri til að vinna að viðgangi þessa hvorutveggja.

 

Takk fyrir mig og lifið heil.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta