Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

31. mars 2011 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Samstaða með líbísku þjóðinni

„Aðgerðir alþjóðasamfélagsins hafa nú bjargað mörgum þúsundum saklausra mannslífa í Líbíu og komið í veg fyrir fjöldamorð á vegum herliðs Gaddafís.“ – Þetta sagði Ban-Ki Moon, aðalritari Sameinuðu þjóðanna, við okkur utanríkisráðherra fjölmargra ríkja sem sátum fjölsótta ríkjaráðstefnu um málefni Líbíu sem David Cameron, forsætisráðherra Breta, boðaði til með litlum fyrirvara í vikunni.

Einörð afstaða múslima
Mér þótti tvennt merkilegast af ráðstefnunni: Í fyrsta lagi hversu alger einhugur ríkti þar um alþjóðlegar aðgerðir gegn grimmdarverkum harðstjórans og til að stuðla að frelsun líbísku þjóðarinnar. Í öðru lagi hversu mörg arabaríki sóttu fundinn, og hversu einarða afstöðu þau tóku með líbískri alþýðu gegn hryðjuverkum og yfirvofandi hrannmorðum Gaddafís.
Samtök múslimskra ríkja og Arababandalagið, sem bæði mættu til ráðstefnunnar í Lundúnum, tóku afdráttarlausa afstöðu með aðgerðunum. Þau færðu Atlantshafsbandalaginu sérstakar þakkir fyrir að hafa orðið við óskum um að samræma aðgerðirnar.
Á ráðstefnunni lagði Arababandalagið fram sex forsendur fyrir aðgerðunum. Íslenskur utanríkisráðherra átti feiknaauðvelt með að taka undir allar. Ein þeirra var eftirfarandi: „Það er alfarið hlutverk líbísku þjóðarinnar einnar að ákveða eigin framtíð.“ Um það má segjast að aðgerðir alþjóðasamfélagsins í Líbíu snúist: Að skapa skilyrði til þess að í Líbíu verði frjálsar kosningar þar sem líbíska þjóðin velur sína eigin leið inn í framtíðina.

Ísland studdi Öryggisráðið
Áður en einstök ríki gripu til loftárása til að koma í veg fyrir árásir úr lofti á vopnlausan almenning hafði Gaddafí þegar beitt bæði herþotum og þyrilvængjum, til árása á saklausa borgara. Hann hafði gefið fyrirskipanir um frekari árásir úr lofti, sem leiddu til þess að allnokkrir flugmenn, meðal annars náinn ættingi hans, flúðu Líbíu á herþotum sínum af því þeir gátu ekki hugsað sér að taka þátt í grimmdarlegum illvirkjum gegn eigin þjóð.
Rétt er líka að rifja upp, að þegar herir Gaddafís stóðu gráir fyrir járnum við borgarmúra Benghazi reiðubúnir til að gera árás á íbúana gaf Gaddafí opinbera yfirlýsingu, þar sem hann sagði að engu yrði eirt í Benghazi, og engin miskunn sýnd. Í þeirri fyrri af tveimur umræðum um málefni Líbíu á Alþingi hafði ég einmitt dregið upp fyrir þingmönnum þann möguleika að heimurinn gæti skyndilega staðið frammi fyrir því að horfa upp á miskunnarlaus grimmdarverk framin af Gaddafí. – Á heimurinn þá að standa aðgerðalaus og horfa úr fjarlægð á saklaust og vopnlaust fólk strádrepið af geggjuðum harðstjóra? spurði ég þingheim efnislega. Enginn var þeirrar skoðunar.
Innan Öryggisráðsins tókst hins vegar samstaða að lokum. Öryggisráðið samþykkti ályktun sem fól í sér mjög víðtækt umboð til ríkja, og ríkjabandalaga, til að grípa til aðgerða, sem fólu í sér bann á vopnasölu, loftferðabann, frystingu eigna innmúruðustu og inngrónustu vildarmanna harðstjórans, alþjóðlegrar rannsóknar sem aðdraganda ákæru fyrir stríðsglæpi Gaddafís, bann við olíusölu nema með leyfi Sameinuðu þjóðanna, og sérstaklega var tekin fram heimild til annarra aðgerða sem þættu nauðsynlegar til að koma í veg fyrir að Gaddafí ógnaði lífi saklausra borgara. Ályktunin sló í gadda að umboð ályktunarinnar fæli ekki í sér erlenda hersetu. Með samþykkt ályktunarinnar hvatti Öryggisráðið til þess að ríki og ríkjabandalög tækju að sér að framfylgja henni um þessi atriði.
Þessari ályktun Öryggisráðsins veitti ríkisstjórn Íslands formlegan stuðning á ríkisstjórnarfundi.

Aðkoma Atlantshafsbandalagsins
Atlantshafsbandalagið komst að samkomulagi undir kvöld á sunnudag að taka að sér samræmingu aðgerða einstakra ríkja gagnvart Líbíu, sem er einn hluti af þríþættri nálgun alþjóðasamfélagsins. Ég tel að það hafi verið jákvæð þróun, ekki síst í ljósi yfirlýsinga einstakra þjóðarleiðtoga sem virtust stefna í aðgerðir sem túlka mætti að væru utan umboðs Öryggisráðsins. Bandalagið sóttist hins vegar ekki eftir því hlutverki. Það voru ekki síst einstök smærri ríki, bæði utan og innan þess, sem óskuðu eftir því. Þessi ríki vildu leggja lið með herafla sínum, en töldu það ógerlegt nema Atlantshafsbandalagið leggði atbeina sinn að samræmingu aðgerðanna.
Um það stóðu umræður dögum saman. Fregnir af þeim voru á forsíðum allra helstu fjölmiðla heimsins. Þær voru rækilega tíundaðar af íslenskum fjölmiðlum, oft á dag. Aðdragandinn var því á allra vitorði. Í utanríkismálanefnd Alþingis var einnig sérstakur fundur, þar sem þróun mála í Líbíu var kynnt, og frá því greint að umrætt samræmingarhlutverk væri nú til umræðu innan bandalagsins.
Frá upphafi lá ljóst fyrir, að samræmingin rúmaðist vel innan þess umboðs sem fólst í ályktun Öryggisráðsins. Ákvarðanir Atlantshafsbandalagsins eru teknar á grundvelli samstöðu, og við afgreiðslu er ekki leitað stuðnings, heldur spurt eftir hvort bein andstaða sé fyrir hendi hjá einhverjum þjóðanna. Leggist ríki gegn ákvörðun, þá er hún ekki tekin.
Í aðdragandanum heimilaði ég fastafulltrúa Íslands að kynna þá afstöðu að Ísland myndi ekki „blokkera“ samstöðu. Það gerði ég í ljósi samþykkta Öryggisráðsins, stuðnings ríkisstjórnarinnar við þær, tvennra umræðna á Alþingi um málefni Líbíu þar sem enginn þingmaður mælti gegn aðgerðum og sumir bæði úr stjórn og stjórnarandstöðu virtust jafnvel vilja ganga lengra.

Þríþættar aðgerðir
Þær aðgerðir, sem samþykktar voru á ríkjaráðstefnunni í Lundúnum voru þríþættar:
Í fyrsta lagi að framfylgja ályktunum Öryggisráðsins m.a. um loftferðabann yfir Líbíu og vopnasölubann til herja Gaddafís. Slíkar aðgerðir eru alltaf líklegar til að kosta mannslíf, einkum þeirra sem vopn bera. Markmið þeirra er hins vegar að verja og bjarga lífum saklausra borgara. Einsog glöggt kemur fram í fyrrnefndum orðum Ban-Ki Moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, hafa þær aðgerðir nú bjargað þúsundum mannslífa.
Í öðru lagi er þörf á tafarlausum mannúðaraðgerðum sem felast í að koma lyfjum, vatni, matvælum og sjúkraþjónustu til borganna, þar sem mannfall og miski í röðum óbreyttra  var mestur. Ísland var meðal allra fyrstu ríkja til að láta af höndum rakna til þessa þáttar aðgerðanna. Ólíklegt er annað en Ísland muni reiða meira fram á síðari stigum í sama skyni.
Í þriðja lagi þarf að byggja upp pólitíska innviði í Líbíu. Gaddafí upprætti allar pólitískar hreyfingar á 42 ára ferli sínum, og sendi í útlegð, fangelsaði og drap leiðtoga. Þessi þáttur aðgerðanna, sem verður undir forystu Sameinuðu þjóðanna, miðar að því að skapa aðstæður til að líbíska þjóðin geti í frjálsum kosningum valið sér framtíð.
Menn skulu hafa hugfast, að gripið var til aðgerðanna til að koma í veg fyrir miskunnarlausar blóðsúthellingar harðstjóra, sem hafði lýst því fyrir heiminum að hann myndi engu eira, og enga miskunn sýna. Íslenska þjóðin stendur að sjálfsögðu með líbískum systrum og bræðrum við slíkar aðstæður.


Greinin birtist í DV 31. mars 2011.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta