Indverskar speglanir
Indland öðlaðist sjálfstæði frá Bretum þremur árum eftir að Íslendingar stofnuðu lýðveldi á Þingvöllum. Þá strax tókst sérstakt og gott samband með fulltrúum landanna á alþjóðavettvangi. Okkur munaði um þá vináttu þegar Íslendingar færðu út landhelgina í miklum átökum. Í þorskastríðunum við Breta þegar skyldari þjóðir héldu að sér höndum voru það Indverjar sem á alþjóðavettvangi tóku afstöðu með málstað Íslendinga. Því höfum við ekki gleymt í dag.
Þegar Icesave deilan braust fram, og önnur ríki neyttu aflsmunar til að stöðva efnahagsáætlun Íslendinga hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum voru Indverjar meðal fyrstu þjóða sem Íslendingar sneru sér til í mikilli herferð sem stjórnvöld réðust í til að afla stuðnings við málstað Íslands. Í opinberri heimsókn minni til Indlands þessa dagana hef ég ítrekað við indversk stjórnvöld þakkir Íslendinga fyrir liðsinnið og um leið óskað eftir frekari stuðningi Indlands ef mál okkar innan AGS þróast til verri vegar en nú horfir.
Menningarleg og pólitísk tengsl
Strax á síðustu öld gætti áhrifa indverskrar menningar töluvert meðal Íslendinga. Kynslóð Þórbergs féll fyrir indverskri hugrækt. Þjóðarfaðir Indverja, Mohandas Gandhi, sem frægasta skáld Indverja, Rabindranath Tagore gaf heitið Mahatma, “mikil sál”, sagði sjálfur að hinn mikli andlegi leiðtogi Indverja, Vivekananda, hefði verið áhrifavaldur í mótun frægrar stefnu sinnar um andspyrnu án ofbeldis. En Vivekananda mótaði líka íslenskar sálir. Hann heillaði merka rithöfunda síðustu aldar á borð við Þórberg Þórðarson og Jón Thoroddsen, sem þekktur er af tímamótakverinu Flugur. Eitt merkasta kvæði Jóns, Perluna, hafa menn skýrt með áhrifum frá Vivekananda. Saman þýddu þeir skáldbræður tvær bækur eftir meistarann. Önnur þeirra, Karma Yoga, hneigði heilar kynslóðir til betri breytni, og enn ganga menn inn um dyr Braga frænda míns í Bókavörðunni sem galdrar Karma Yoga fram úr háum bókahraukum.
Guðspekifélagið, einn merkasti félagsskapur síðustu aldar, var stofnað undir indverskum áhrifum og þar sögðu menn að hefði um hríð verið saman komið meira mannvit en annars staðar á Íslandi. Skáldið og jafnaðarmaðurinn Sigvaldi Hjálmarsson fór langferðir til Indlands og fyllti tanka sína með indverskri dulspeki sem hann jós af í andlegar skjólur kynslóða Íslendinga allt fram á fullorðinsár mín. Gunnar Dal er annar jöfur skáldskapar sem sótti innblástur í indverska menningu.
Íslenskir rithöfundar hafa líka getið sér orðstír á Indlandi. Ljós Halldórs Laxness skein um Indland eins og víðar. Verk hans og afstöður sköpuðu Halldóri aðdáanda í einum merkasta leiðtoga sem Indland ól. Það var Jawaharlal Nehru, sem varð fyrsti forsætisráðherra hins nýja ríkis. Fræg er myndin af þeim þegar Nehru bauð Halldóri að fagna með sér á þjóðhátíðardeginum í Delí árið 1958. Með skáldinu í þessari miklu reisu var fulltrúi utanríkisráðuneytisins, Halla Bergs. Kiljan flutti erindi um íslenska menningu, sögu og skáldskap við tvær virtustu indversku akademíurnar og færði indverska menntamálaráðherranum Guðbrandsbiblíu að gjöf.
Á síðari tímum voru ný og öðruvísi tengsl hnýtt gegnum samband Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta, við Rajiv, son Indíru Gandhi, á róttækum dögum ungra stjórnmálamanna. Þegar Rajiv Gandhi var ráðinn af dögum færðust þau tengsl yfir á Sonju Gandhi og nánasta hópinn í kringum hana. Sonja er í dag leiðtogi Kongressflokksins og er sem höfuð núverandi samsteypustjórnar Indlands öflugasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Sjálf kaus hún þó að gera Dr. Manmohan Singh að forsætisráðherra og taka frekar að sér fósturhlutverk gagnvart flokkasamsteypunni sem myndar ríkisstjórnina. Fyrir vikið er auðlokið upp dyrum fyrir Ísland hér á Indlandi. Hér kannast flestir sem pund er í við Ólaf Ragnar.
Ólgandi lýðræði
Indland hefur tekið stakkaskiptum frá því Indlandi sem mín kynslóð las um í bókum. Það er sterkara en nokkru sinni fyrr. Límið sem bindur saman ólík trúarbrögð, ólík tungumál, þjóðarbrot, ólíkar stéttir, er haldbetra en áður. Sterk sameiginleg menning og saga, og ótrúlegur árangur í menntun og vísindum hefur búið til sameiginlegt ferðalag heillar þjóðar, þar sem tugir milljóna brjótast á ári hverju úr sárri fátækt til bjargálna. Ekkert land, nema kannski nágranni þess, Kína, hefur náð viðlíka árangri á jafn stuttum tíma. Sá árangur er hluti af hinu nýja steinlími sem gerir Indland að traustu húsi eins og gömlu Mógúlahofin sem enn standa í allri sinni mekt eins og þau hefðu verið byggð í gær. Sameiginleg sókn til meiri velmegunar og sterkara samfélags treystir böndin meðal þjóðarinnar. Hver hefði trúað tilvist þessa Indlands á þeim árum sem við lásum um hungursneyðina í Bihar og mömmur okkar notuðu fátæk og hungruð indversk börn til að láta okkur klára matinn?
Indland lifir líka í dag í betri sátt við nágranna sína en áður. Þó enn séu væringar við volduga nágranna sem kasta skugga yfir svæði eins og Kasmír þar sem ég var á ferð og bragðaði á Himalayajöklum, er andblær yfirvofandi átaka sem setti mark sitt á landsmenn upp úr 1960 og út öldina, að mestu horfinn. Fjölmargir nefna þó ótta sinn við hermdarverk illúðarsamtaka sem vilja sprengja sundur rætur þjóðarinnar af þjóðernislegum ástæðum og trúarofstæki. Fjöldamorðin í Mumbai eru hverjum manni hugstæð. Enn eru líka á dögum naxalítar sem eru gamlir maóistar undir vopnum í fátækustu héruðum Indlands og sækja móralskan styrk til maóistanna í Nepal. Singh forsætisráðherra hefur skilgreint hættuna af naxalítum sem mestu ógnina við öryggi Indlands.
Misskiptingin og stéttamunurinn, sem við lærðum um í skólunum í gamla daga, blasir að sönnu við hvarvetna sem drepið er niður fæti. En landamerki neyðarinnar hafa færst til. Þeir sem lifa í bláfátækt eru hlutfallslega færri en áður og vilji leiðtoga Indlands til þess að bæta hag þeirra bágstöddu er einlægur. Átök milli mismunandi trúarhópa hafa fylgt mannkyninu frá því það uppgötvaði guði, og þau taka stundum á sig mannskæðan blæ þegar upp úr sýður. En Indland hefur þróað með sér öryggisventil, sem gerir þjóðinni kleift að takast á við innri vandamál sem krauma án þess að hætta sé á að upp úr sjóði. Sá öryggisventill er þróttmikið lýðræði. Indland er langstærsta lýðræðisríki heimsins. Landið bókstaflega logar af lýðræðislegum þrótti.
Það er einsog hver einasti maður notfæri sér lýðræðið til að koma skoðunum á framfæri, og verja og sækja hagsmuni sína og sinna. Fjölmiðlar eru bólgnir af umræðu og átökum um kosti og galla skoðanastrauma, flokka og stjórnmálamanna, misrétti, svo ekki sé minnst á spillinguna. Sonja Gandhi tekst með aðdáunarverðum hætti á við pólitíska spillingu en því er ekki að leyna að boðskapur fjölmiðlanna ber með sér að hún er útbreidd – einsog víðar.
Framtíðarsinfónía
Indland, sem áður var talið að yrði um ókomin ár meðal fátækustu ríkja heims, vex svo hratt efnahagslega að það verkjar í vöðva og sinar. Hvarvetna blasa við merki um uppbyggingu og framþróun á öllum sviðum. Það hefur byggt upp grúa háskóla og vísindastofnana í fremstu röð, og á örskömmum tíma orðið að fóstru framþróunar í upplýsingatækni. Uppúr 1990 þegar landið átti varla gjaldeyri fyrir olíukaupum lagði dr. Manmohan Singh þvert í strauminn, frelsisvæddi atvinnulífið í átt frá gamalli blöndu breskra stjórnarhátta og sovéskrar ríkisforsjár. Indverjar hafa ekki horft til baka síðan. Fátæka frændanum í samfélagi þjóðanna er nú spáð því að verða þriðja mesta efnahagsveldi heims á eftir Bandaríkjamönnum og Kína áður en öldin er hálfnuð.
Það er Íslendingum til hagsbóta að rækta við Indland pólitísk, menningarleg og viðskiptaleg tengsl. Eins og Þórbergur hélt fram á dögum Vivekananda höfum við margt til þeirra að sækja. Við Íslendingar lúrum líka á ýmsu, sem þeir geta nýtt sér, og hægt er að skapa úr sameiginleg viðskiptatækifæri báðum til bóta. Það hef ég aldrei fundið betur en á mörgum fundum mínum síðustu daga með leiðtogum á sviði stjórnmála og viðskiptalífs hér á Indlandi.
Ritað milli Agra og Delí.