Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

4. maí 2011 UtanríkisráðuneytiðUTN Fréttir

Íslenskur kvikmyndakraftur og stóriðjan í Bollywood

DV 4. maí 2011 Kjallari

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifar í Mumbai undir Bollywood-hæðum

Íslenskur kvikmyndakraftur og stóriðjan í Bollywood

Íslendingar eiga ágæta möguleika á að þróa sameiginleg viðskiptatækifæri með  Indverjum á ýmsum sviðum. Sterkustu möguleikarnir liggja í greinum þar sem Íslendingar búa yfir meiri reynslu og þekkingu en flestar þjóðir, einsog í sjávarútvegi og orkuvinnslu.

En þeir eru líka til staðar í skapandi atvinnugreinum einsog afþreyingariðnaði, sér í lagi kvikmyndum. Þar eiga íslendingar sannkallaða vormenn að verki á flestum sviðum kvikmyndaframleiðslunnar. Önnur svið, sem við sjáum ekki í dag, munu örugglega opnast líka í framtíðinni ef við ræktum tengslin við hið rísandi efhahagsveldi.

Bollywood - myndræn stóriðja

Ég sat í síðustu viku kvöldstund í Mumbai með kvikmyndaleikurum, framleiðendum og dreifingarmógúlum úr Bollywood, sem er svar Indverja við Hollywood, og ræddi möguleika á samvinnu Indverja og Íslendinga í þjónustu við hina indversku stóriðju á sviði kvikmynda. Þar liggja færi til framtíðar sem gætu orðið svolítil búbót, jafnvel meira, fyrir hinn vaxandi kvikmyndaiðnað á Íslandi.

Kvikmyndaiðnaður Indverja hefur sannast sagna náð ótrúlegum vexti á síðustu áratugum. Hvergi í heiminum eru gerðar jafnmargar myndir í fullri lengd og á Indlandi. Heita má að þær séu framleiddar á færibandi. Stíllinn er íburðarmikill, sérindverskur og gjarnan vafinn dansi og söngvum um indversk sagnaminni. Fólkið í draumheimi Bollywood er einstaklega fallegt, yfirleitt velefnað og forskriftin löguð að eðlilegum draumum þjóðar sem er að rífa sig upp úr sárri fátækt - en er stolt af sögu sinni.

Allajafna er náttúran og fegurð hennar eitt af stefjunum í indversku fjöldaframleiðslunni. Stór hluti allra indversku myndanna er tekinn að mestu leyti þar sem gróðursæl náttúra drýpur af hæðunum ofan við stórborgina Mumbai. Ég drap líka niður fæti í Góa, þar sem Portúgalir réðu ríkjum fram yfir 1960 og gömlu hipparnir hópuðust til. Þar var kvikmyndagerð líka á fullu, ekki síst af því þar ríkir sterk  portúgölsk stemning í húsagerð og umhverfi - og til Góa sækir kvikmyndaiðnaðurinn tilbreytingu frá hefðbundinni umgjörð indversku stóriðjunnar.

Indverjar vilja f jölbreytni

Fjölbreytni er nefnilega það sem neytendur vilja nú fara að sjá í indversku kvikmyndinni. En öll indverska framleiðslan hefur til skamms tíma átt sammerkt að hvar sem myndirnar eru teknar í Indlandi þá er landslagið og umhverfið eins indverskt og hugsast getur. Kvikmyndajöfurinn Hrafn Gunnlaugsson hélt yfir mér og sjálfum sér lærðan fyrirlestur síðkvöld nokkurt sumarið 1984 um kvikmyndalögsögu. Ég skrifaði raunar upp úr honum löngu gleymda ritstjórnargrein í blað sem ég stýrði þá um nokkurra ára skeið. Hrafn prentaði þá rækilega inn í minn haus, að það gildir eins um landslag í kvikmyndum og allt annað: Það sem af er tekið eyðist við notkun.

Þetta eru indverskir kvikmyndaframleiðendur að finna hjá þeim sem horfa á kvikmyndir í stórríkinu. Neytendur vilja fá meiri fjölbreytni inn í kvikmyndirnar sínar, en halda þeim áfram í kringum sömu dans- og sagnastefin. Þeir eru orðnir þreyttir á að allar kvikmyndir Bollywood gerist í svipuðu umhverfi og eru heldur ekki á móti því að skjóta leikurum með öðru vísi yfirbragði inn í ævintýrin á skjánum.

Má í því sambandi nefna að hávaxinn og glæsilegur fulltrúi Íslands sem stýrir sendiráðinu í Delhí fær reglulega tilboð um að láta sér bregða fyrir í aukahlutverkum sem sýnir að veruleikinn tekur stundum fram handritunum sjálfum.

Kvikmyndakrafturinn íslenski

Í þessu liggja tækifæri fyrir íslenska kvikmyndaiðnaðinn. Ísland er gerólíkt Indlandi. Hér eru nakin fjöll, víðfeðmir jöklar, skóglaust land, eyðimerkur og úfið haf. Borgir og bæir eru allt öðru vísi en á Indlandi. Við eigum líka fjölda góðra leikara sem ráða við hvaða verkefni sem  er. Jafnhliða hefur vaxið upp á íslandi mjög öflugur  kvikmyndaiðnaður, sem vinnur hratt og vel við erfiðar aðstæður, og hefur uppskorið hrós fyrir að ljúka verkefnum á tíma. Hann er vanur því að taka að sér þjónustu við erlend kvikmyndafyrirtæki, jafnt stór verkefni sem lítil. Sömuleiðis eigum við fyrirtæki sem sinna eftirvinnslu kvikmynda, sem eru á heimsmælikvarða þó lítil séu.

Við eigum meira að segja indverska veitingamenn sem eru í fremstu röð - en eitt af því sem mínir ágætu viðmælendur frá Bollywood sögðu að væri algjört skilyrði fyrir að ferðast í fjarlægt land er völ á góðum indverskum kosti.

Sum lönd eru þegar farin að kasta netum sínum sérstaklega fyrir Bollywood. Það er ekki aðeins eftir tökuliðinu sjálfu og tekjum vegna þess að slægjast, heldur ferðast unnendur stjarnanna í Bollywood þúsundum saman á tökustaði utan Indlands - og styrkja efnahag viðkomandi lands dyggilega. Lönd sem eru að ná árangri á þessu sviði eru til dæmis Macao, sem málvinir mínir í Mumbai sögðu að byði þeim ævintýralegar ívilnanir til að ryðja sér brautina inn á tökumarkað heimsins. Nýja-Sjáland markaðssetur sig sem kvikmyndaland, og hið indverska Bollywood sækir þangað í ríkum mæli. Bretar, þar sem stór indverskur minnihluti með sterkan kaupmátt er sólginn í Bollywood-myndir, leggja mikið á sig til að fá til sín hluta af hinni indversku kvikmyndaköku. Sjálfir sögðu þeir mér að Sviss væri orðið eitt af stærstu löndunum fyrir Bollywood-myndir utan Indlands - ekki sökum ívilnana heldur náttúrufegurðar.

Útrás Bollywood er því gott tækifæri fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað og rétt að grípa það sem fyrst.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta