Árangursríkur fundur í Nuuk
Össur Skarphéðinsson birtir í dag grein í DV um norðurslóðamál og nýliðinn fund Norðurskautsráðsins í Nuuk á Grænlandi:
******
Árangursríkur fundur í Nuuk
Fyrr í þessum mánuði var haldinn sögulegur fundur Norðurskautsráðsins í Nuuk á Grænlandi. Styrking ráðsins sem aðalvettvangs samráðs og ákvarðana um norðurslóðir hefur verið keppikefli Íslands. Fundurinn í Nuuk staðfesti nýja og sterkari stöðu ráðsins. Þar voru teknar tímamótaákvarðanir en öflug þátttaka Bandaríkjanna markaði sömuleiðis kaflaskil. Í fyrsta skipti tók utanríkisráðherra Bandaríkjanna þátt í fundum Norðurskautsráðsins. Hillary Clinton hafði þar að auki í föruneyti sínu bæði innanríkisráðherrann Ken Salazar og Íslandsvininn Lisu Murkowski, öldungadeildarþingmann frá Alaska. Í því fólst mikilvæg yfirlýsing um afdráttarlausan stuðning Bandaríkjanna við starf og hlutverk ráðsins. Fyrir Ísland, sem á mikla hagsmuni á norðurslóðum, er það mikilvægt.
Öryggi sæfarenda
Fyrsti lagalega bindandi samninginn um leit og björgun á norðurslóðum var staðfestur í Nuuk með undirskrift okkar utanríkisráðherra norðurskautsríkjanna átta. Samningurinn skiptir Ísland miklu máli. Bráðnun ísþekjunnar í norðurhöfum er nú mun hraðari en áður var talið, og nýjar skipaleiðir frá Asíu til Evrópu yfir norðurheimskautið munu hugsanlega opnast fyrr en menn ætluðu. Í því felast ný tækifæri fyrir Ísland. Fjarlægar siglingaþjóðir, bæði Kína, Bandaríkin og Singapore, jafnvel Sameinuðu Furstadæmin, hafa tjáð áhuga á því að eiga samvinnu við okkur um umskipunarhafnir sem taka við varningi úr risastórum gámaflutningaskipum og dreifa á evrópskar hafnir. Heimskautatúrismi á stórum farþegaskipum fer líka hraðvaxandi.
Þetta setur hins vegar líka kvaðir á okkur og aðrar þjóðir norðurslóða. Við þurfum að tryggja öryggi sæfarenda á nýjum skipaleiðum. Íslendingar þurfa á alþjóðlegri samvinnu að halda til að ábyrgjast öryggi á því víðfeðma hafflæmi sem verður á okkar vakt. Þess vegna er lagalega bindandi samningur um björgun og leit í norðurhöfum svo mikilvægur fyrir Ísland. Í framtíðinni verður hann líka viðspyrna til að koma hér upp alþjóðlegri björgunarmiðstöð í samvinnu við aðrar þjóðir.
Varnir gegn stórum olíuslysum
Fyrir Íslendinga var það líka fagnaðarefni að á fundinum í Nuuk var samþykkt að björgunarsamningurinn ætti að verða fyrirmynd annarra lagalega bindandi samninga. Þar var sérstaklega hnykkt á samningi um varnir gegn olíuslysum. Á hann hafa Íslendingar lagt ofuráherslu. Bráðnun ísþekjunnar mun opna stór hafsvæði fyrir vinnslu á olíu og gasi. Fyrir Ísland, sem liggur svo að segja í útfalli Norður-Íshafsins, skapar þetta vissar ógnir. Í fimbulkulda norðursins brotnar olía miklu hægar niður en á sunnlægari breiddargráðum og efnahvatar sem notaðir eru til að eyða henni virka illa.
Þó olíuvinnsla á norðurslóðum verði undir forskrift ströngustu varúðarreglna verða ábyrg stjórnvöld að vera búin undir stór óhöpp. Nú þegar hillir undir olíuvinnslu við austurströnd Grænlands en þar “fæðast” hafstraumar sem falla suður djúpið milli Grænlands og Íslands. Fyrir þjóðir sem byggja tilvist sína á hreinleika náttúrunnar og framleiðslu matvæla getur því stórt olíuslys í höfunum norðan Íslands haft mjög neikvæðar afleiðingar. Sterkur alþjóðlegur samningur um varnir gegn olíuslysum er því einna efst á forgangslista okkar varðandi norðurslóðir. Í Nuuk samþykktu ríkin að hefja undirbúning að honum.
Minni líkur á átökum
Síðustu ár hafa margir spáð því að norðurslóðir verði í framtíðinni vettvangur kapphlaups stórveldanna um auðlindir sem verða aðgengilegar þegar ísinn bráðnar. Víst er, að áhugi margra þjóða á norðurslóðum hefur vaxið í réttu hlutfalli við aukna möguleika þar á olíu- og gasvinnslu. Snar þáttur í stefnu Íslands um norðurslóðir er að Hafréttarsáttmálinn, sem Íslendingar eiga drjúgan frumburðarrétt að, verði notaður til að leysa úr deilum sem upp kunna að spretta um landamörk á hafsbotni, og þarmeð auðlindir.
Fundurinn í Nuuk var mikill sigur fyrir þetta sjónarmið. Í ræðum sínum ítrekuðu allir utanríkisráðherrarnir það sjónarmið sinna þjóða, að Hafréttarsáttmálinn verði sá farvegur sem nota ber til að setja niður deilur um landamörk. Þarmeð er ljóst að minni líkur verða á átökum milli þjóða um landgrunn, og þar með auðlindir, og dvínandi ástæður fyrir þjóðirnar að byggja upp hernaðarstyrk í Norðurhöfum.
Bandaríska þingið þingið hefur ekki ennþá staðfest Hafréttarsáttmálann. Í Nuuk lýsti hins vegar Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna yfir, að hún myndi beita sér með afdráttarlausum hætti fyrir því að þingið lyki staðfestingunni. Clinton upplýsti í Nuuk að hún hefði falið hinum úrræðagóða öldungadeildarþingmanni frá Alaska, Lisu Murkowski, að leiða samþykkt sáttmálans gegnum bandaríska þingið. Það eru líka góðar fréttir fyrir Ísland, og norðurslóðir.