Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. júní 2011 UtanríkisráðuneytiðUTN Fréttir

Fjórir kaflar opnaðir og tveimur lokað við upphaf efnislegra samningaviðræðna Íslands og Evrópusambandsins

photo-OS-JM-SF
photo-OS-JM-SF

Á fyrsta samningafundi Íslands og Evrópusambandsins í dag náðist sá áfangi að af fjórum köflum sem opnaðir voru á fundinum var tveimur lokið. Á fundinum lýsti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra eindregnum vilja Íslendinga til að samningskaflar um fiskveiðar og landbúnað yrðu opnaðir sem allra fyrst. Hann kvaðst jafnframt fyrir Íslands hönd reiðubúinn til að opna helming þeirra kafla sem eftir eru í formennskutíð Pólverja, sem taka við um næstu mánaðamót, og afganginn í formennsku Dana, sem hefst um áramót.

Ríkjaráðstefnan í dag markaði upphaf efnislegra aðildarviðræðna Íslands við ESB. Ráðstefnuna ávörpuðu einnig Janos Martonyi utanríkisráðherra Ungverjalands en Ungverjar fara með formennsku í ESB, og Stefan Fule stækkunarstjóri Evrópusambandsins.

Í ræðu sinni fagnaði utanríkisráðherra þessum áfanga, lýsti einbeittum stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar við viðræðurnar og þeim skýra meirihlutavilja íslensku þjóðarinnar að fá að kjósa um aðildarsamning í þjóðaratkvæðagreiðslu þegar viðræðum lýkur. Ráðherra lagði áherslu á hversu vel ferlið hefði gengið hingað til og nauðsyn þess að nýta vel þann skriðþunga sem náðst hefur í viðræðunum. Stefan Fule stækkunarstjóri ESB tók undir þau viðhorf að gott væri að hefja samninga um sem flesta kafla fyrr en síðar, þar á meðal um landbúnað og sjávarútveg. Fulltrúi Pólverja sem taka við formennsku í Evrópusambandinu um næstu mánaðamót lýsti vilja þeirra til að opna sem flesta kafla í þeirra formennskutíð.

Á ríkjaráðstefnunni var tekin ákvörðun um að hefja viðræður í fyrstu fjórum köflum aðildarviðræðna Íslands og var samningsafstaða Íslands í köflunum lagðar fram. Þessir samningskaflar eru hluti af EES-samningnum og fjalla um:

Í dag var ákveðið að ljúka viðræðum í tveimur síðastnefndu köflunum þar sem efni þeirra hefur þegar verið tekið upp í íslensk lög. Í hinum tveimur köflunum um opinber útboð og upplýsingasamfélagið og fjölmiðla kom fram í samningsafstöðu Evrópusambandsins að Ísland yrði að ljúka innleiðingu lagasetningar sem er hluti af skuldbindingum samkvæmt EES-samningnum en hefur ekki enn komið til framkvæmda, áður en þeim verður lokað.

Í ávarpi sínu minnti utanríkisráðherra á að rétt tvö ár væru liðin frá því að Alþingi samþykkti að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Hann fagnaði þeim árangri að viðræður um fyrstu fjóra samningskaflanna væru hafnar og að tveimur köflum, um vísindi og rannsóknir og um menntun og menningu, væri þegar lokið. Á þessum tveimur mikilvægu sviðum hefðu Íslendingar þegar notið góðs af nánu samstarfi við Evrópusambandsríkin og þannig hefðu íslenskir námsmenn og kennarar, vísindamenn og listamenn um langt árabil tekið virkan þátt í áætlunum ESB á sviði vísinda, rannsókna, mennta, menningar og æskulýðssamstarfs.

Ráðherra sagði Íslendinga koma vel undirbúna að samningaborðinu. Rýnivinna síðustu sjö mánaða, þar sem löggjöf Íslands og ESB var borin saman, hefði staðfest að Ísland uppfyllti stóran hluta löggjafar ESB í gegnum aðild að EES og Schengen. Um leið hefði skilningur aukist hjá samningsaðilum á þeim sviðum þar sem ljóst er löggjöf er frábrugðin s.s. í sjávarútvegi, landbúnaði, umhverfismálum o.fl.

Samningaviðræðurnar sem nú fara í hönd munu snúast um einstaka samningskafla löggjafar ESB sem eru 35 talsins. Samninganefnd Íslands og samningahópar sem í sitja fulltrúar stjórnsýslu, helstu hagsmunahópa og félagasamtaka móta samningsafstöðu Íslands í einstökum málum í samræmi við samningsmarkmið Alþingis. Næsta ríkjaráðstefna Íslands og ESB er ráðgerð í október næstkomandi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta