Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. ágúst 2011 MatvælaráðuneytiðANR Fréttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti 2008-2012

Heimsleikar íslenska hestsins 2011

Heimsleikar 2011 tölthorn
Heimsleikar 2011 tölthorn

 

Heimsleikar 2011 tölthornDagana 5. til 7. ágúst sl. sótti Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra heimsleika íslenska hestsins sem fóru að þessu sinni fram í St. Radegund í Austurríki og stóðu yfir dagana 1. til 7. ágúst sl. en heimsleikarnir eru haldnir reglulega annað hvert ár. Þátttaka í leikunum var góð en 16 þjóðlönd sendu lið til leikanna. Útkoma Íslands var góð en í íþróttakeppni leikanna náðu Íslendingar sigri í tölti auk þess að standa í fremstu röð í öðrum hringvallagreinum. Í skeiðgreinunum náðu Íslendingar sigri í 250 m skeiði og stóðu að auki sterkt í hinum skeiðgreinunum á mótinu; 100 m flugskeiði og í gæðingaskeiði.

Íslenskir knapar voru einnig meðal liðsmanna í landsliðum annarra þjóða og stóðu sig prýðilega og hömpuðu m.a. heimsmeistaratitlum í 5-gangi og í gæðingaskeiði. Augljóst er eigi að síður að mikil og ánægjuleg framför er í reiðmennsku á íslenskum hestum meðal annarra þjóða og er Íslendingum veitt sífellt öflugri samkeppni. Þannig má minna á glæsilega framistöðu Norðmanna í fjórgangi sem þeir unnu tvöfallt og stórathyglisverða framistöðu danskra kvenknapa í skeiði og ber að geta nafns Taniu H. Olsen og hests hennar Sólons frá Strø í því sambandi en hún varði titil sinn í 100 m flugskeiði á mótinu auk þess að hljóta bronsverðlaun í 250 m skeiði.  Hlutur íslenskfæddra hrossa var þó almennt séð mjög góður á mótinu og voru þau fleiri eða færri í liðum allra þátttökulandanna.

Heimsleikar 2011 Tania H. Olsen

 

 

 

 

 

 

 

 

Í kynbótahluta mótsins var útkoma Íslands einnig prýðileg en athyglisverðasta kynbótahross mótsins var þó sænskfætt sem er stóðhesturinn Prins frá Knutshyttan sem er 8 vetra gamall og var sýndur í elsta flokki stóðhesta og hlaut hann sérstaka heiðursviðurkenningu á lokaathöfn mótsins. Prins er aðsópsmikill og fjölhæfur ganghestur og hreint fágætur að stærð, fegurð og myndarskap. Ættarlega séð er Prins hins vegar afsprengi íslenskrar hrossaræktar en í ættum hans er að finna fræga kynbótahesta eins og Hrafn frá Holtsmúla og Baldur frá Bakka en hið sérstaka í gerð hans má þó vafalítið rekja að nokkru leyti til ræktunarstarfs þess sem stundað var í Kúskerpi í Austur-Húnavatnssýslu fyrir áratugum síðan. Færir það heim sanninn um þá staðreynd að þó tíminn líði eru erfðavísarnir ætíð til staðar en skemmtilegt var að áletrun þessa efnis var áberandi á mótssvæðinu.

Undir lok mótsins ávarpaði ráðherra mótsgesti og afhenti tölthornið sem er farandgripur sem heimsmeistarinn í tölti vinnur til.

Jón Bjarnason flytur ávarp sitt í lok mótsins.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þjóðverjar munu standa að framkvæmd næstu heimsleika sem munu fara fram í Berlín dagana 4. til 11. ágúst 2013 og er sýnilegt að undirbúningur þeirra er vel á veg kominn og er mikil eftirvænting ríkjandi en almennt er álitið að þeir leikar munu marka ákveðin þáttaskil. Á leikunum í Berlín þurfum við Íslendingar að ætla okkur stóran hlut bæði í keppnum og sýningum og því sölu og kynningarstarfi sem fram fer á mótssvæðinu.

 

 

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta