Ísland, Rússland og Vesturlöndin
Ísland, Rússland og Vesturlöndin
Eftir Össur Skarphéðinsson
Partur af þeirri sjálfstæðu utanríkisstefnu sem Ísland rekur í dag er að eiga gott samstarf við allar nágrannaþjóðir sem vilja friðsamleg samskipti við Ísland. Í þeim hópi eru Rússar – ekki síst eins og samstarf þeirra við Vesturlönd hefur þróast allra síðustu árin. Dagar kalda stríðsins eru löngu liðnir og við viljum eiga sem allra best samskipti við Rússland á öllum sviðum. Ég hef sem utanríkisráðherra lagt ríka áherslu á að bæta þau. Ég lít á Rússa sem mikilvæga samstarfsþjóð í framtíðinni fyrir Ísland, ekki síst á sviði norðurslóða, þar sem báðar þjóðir eiga vaxandi hagsmuna að gæta á sviði umhverfisverndar, norðursiglinga, og auðlindanýtingar.
Á sviði viðskipta höfum við þegar átt mikilvæg samskipti áratugum saman og það er okkar hagur að auka þau á sem flestum sviðum. Heimsókn mín til Rússlands í lok nóvember var afdráttarlaus staðfesting á vilja beggja þjóðanna til að eiga gott grannasamstarf án þess að breyta nokkru um stöðu okkar gagnvart hefðbundnum samstarfsþjóðum.
Sameiginlegir hagsmunir
Rússar eiga sér aldalanga sögu sem evrópskt stórveldi. Þeir hafa sannarlega lagt drjúgan skerf til sameiginlegrar menningararfleifðar álfunnar þó ekki hafi ætíð verið samhljómur milli austurs og vesturs. Í dag er Rússland aftur á umbreytingaskeiði sem rísandi veldi og hefur ekki enn þróað það lýðræðislega samfélag sem við lifum í. Við gagnrýnum það með okkar hætti og ég tel að besta leið Rússa inn í framtíð stöðugleika, efnahagslegra framfara og friðsællar samvinnu við nágranna sína felist í því að þróa raunverulegt lýðræði þar sem vilji fólksins fær að spretta fram í gegnum óháða stjórnmálaflokka og frjálsar kosningar. Sjálfir segja Rússar að það taki tíma, og hefðir keisaratímans og síðar einræðis kommúnismans teygi gamlar rætur djúpt í vitund og stjórnkerfi. Það er hins vegar athyglisvert að síðustu misseri hafa Rússar á mörgum sviðum fetað sig varlega nær Vesturlöndum. Þó tímabundin uppstytta kunni að verða meðan hrina kosninga gengur yfir í Rússlandi með tilheyrandi stöðutöku fyrir pólitískan heimamarkað eiga Vesturlönd að ýta undir þessa þróun eftir mætti án þess að slá af grundvallarsjónarmiðum.
Gott dæmi um þróunina er nýleg innganga Rússa í WTO, Alþjóðaviðskiptastofnunina. Það sýnir ótvíræðan vilja þeirra til að taka með ábyrgum hætti þátt í alþjóðaviðskiptum og tryggja umhverfi þar sem fjárfestar geta verið öruggir um reglufestu og lágmarksgagnsæi í viðskiptum. Við inngöngu Rússa léku Íslendingar hlutverk af sögulegri stærð. Fremsti samningamaður Íslands í dag, Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra, leiddi seinni hluta þeirra samninga eins og ballettmeistari á stóra sviðinu í Bolshoi. Hann átti ekki sístan þátt í þeim sporum sem dansað var eftir uns endanlegir samningar náðust um aðild Rússlands að stofnuninni nú fyrir tæpum mánuði. Þá lágu að baki átján ára erfiðar viðræður. Sannarlega má kalla það meistarastykki Stefáns, sem enn er ósungið af löndum hans, og voru þó ekki einu samningarnir sem hann hefur verið fenginn til að leiða til lykta millum stórvelda og bandalaga. Stefán hefur sem aðalsamningamaður Íslands gagnvart Evrópusambandinu haldið á því máli af sömu list.
Sameiginlegar öryggisþarfir
Rússar hafa vissulega sýnt Evrópusambandinu tortryggni, og óttast að með því sé verið að skapa sterka Evrópu þar sem þeim er haldið á jaðrinum. Vísir að svari þeirra felst í að leggja drög að eins konar Evrasíubandalagi með ýmsum ríkjum sem áður voru hluti gömlu Sovétríkjanna. Eins og sakir standa bendir fátt til að það leiði til mikill tíðinda. Evrópusambandið á hins vegar að horfast í augu við áhyggjur Rússa og laga sig að þeirra þörfum eftir því sem hægt er, sýna þeim meiri skilning og undirstrika eins rækilega og sambandinu er unnt, að það vill líta á Rússland sem mikilvæga og vaxandi samstarfsþjóð.
Rússar komu sömuleiðis verulega á óvart á síðustu misserum með því að feta sig varfærnislega til samvinnu við Atlantshafsbandalagið um mikilvæga öryggisþætti álfunnar, ss. samvinnu um skotflaugavarnir gegn sameiginlega skilgreindum ógnum. Ég var staddur á þeim sögulegu fundum, fyrst í New York þegar Lavrov utanríkisráðherra lýsti vilja til samstarfs við Atlantshafsbandalagið um skotflaugavarnir gegn ógnum handan Kaspía- og Miðjarðarhafsins, og aftur í Lissabon þegar Medvedev forseti hélt stórmerka ræðu sína um samstarf Rússa og Nató. Ískalt mat leiðir einfaldlega til þeirrar niðurstöðu að hagsmunir Rússa og Vesturlanda fara saman gagnvart tilteknum, vaxandi öryggisógnum. Rússar eru því algjörlega á rökréttu spori þegar þeir kanna möguleika á samleið með varnarbandalagi Vesturlanda inn í framtíðina. Af sögulegum ástæðum er slík stefnubreyting erfið fyrir þá, og eðlilegt að þeir séu tortryggnir í hverju spori. Það er hlutverk Vesturlanda að eyða þeirri tortryggni. Nánari jákvæð tengsl eru í beggja þágu.
Evrópa friðar og öryggis
Rússar hafa sömuleiðis sótt fast eftir að gera samninga við Vesturlönd um nútímavæðingu atvinnu- og efnahagslífs síns. Markmið þeirra er að efla viðskipti og framleiðslu í samstarfi við önnur ríki og skjóta þannig fleiri og margbrotnari stoðum undir atvinnulíf sitt. Ég undirritaði einn slíkan með Sergei Lavrov í síðustu viku í Moskvu. Þar var áherslan lögð á stóraukið samstarf á sviðum þar sem Rússar búa yfir miklum vannýttum tækifærum og Íslendingar yfir tæknilegum lausnum. Í okkar tilviki var mest áhersla lögð á jarðhita, bæði hitaveitur og framleiðslu á raforku, en einnig fiskveiðitengda tækni og flugstarfsemi. Báðar þjóðirnar munu í fyllingu tímans hagnast af þessum sameiginlegu áherslum.
Samningarnir um nútímavæðingu fela í sér sterkan vilja Rússa til nánari tengsla við Vesturlönd. Aðgangur að tækni Vesturlanda getur gert atvinnulíf þeirra fjölbreyttara og flýtt ríkari nýtingu mikilla náttúrulegra auðlinda, ekki síst þeirra sem liggja á torsóttum svæðum handan norðurheimskautsbaugs – sumar undir hafsbotni. Þessi blanda, háþróuð tækni Vesturlanda, öflug verkþekking heimafyrir, einstakt forskot Rússa á sumum sviðum ásamt miklum auðlindum, er lykill þeirra að því að verða öflugt efnahagsveldi og lyfta lífsgæðum rússnesks almennings á sama stig og gerist á Vesturlöndum. Endurgjald Vesturlanda fyrir samstarf af þessu tagi liggur í nýjum mörkuðum sem vaxandi velmegun Rússlands mun skapa, auknum stöðugleika í álfunni og minni líkum á átökum. Í þessari nálgun Rússa á efnahagssviðinu og vilja þeirra til að ræða samstarf í öryggismálum felast mikil tækifæri fyrir Vesturlönd. Við eigum því að taka þeim fagnandi.
Evrópa verður aldrei fullmótuð álfa friðar og öryggis nema Rússar verði inngróinn hluti hennar. Það er því rökrétt að halda því fram, að hagsmunir Rússa liggi í því að verða Vesturlöndum samferða á sem flestum sviðum inn í framtíðina. Þannig verður öryggi álfunnar og efnahagsleg velsæld best tryggð. Með bættum samskiptum við Rússa í tíð núverandi stjórnar hefur Ísland fyrir sitt leyti látið verkin tala.
Höfundur er utanríkisráðherrra.
Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 9. desember 2011 (pdf).