Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

8. desember 2011 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Nýsköpunarverðlaun SAF

Kæru fundargestir – til hamingju með daginn!

Ísland er um margt einstakur áfangastaður fyrir ferðamenn – og þeim fjölgar stöðugt útlendingunum sem kjósa að sækja landið okkar heim. Og sannarlega eiga þeir von á góðu. Ef ég væri útlendur ferðamaður á Íslandi – nú eða þá íslenskur - og vildi virkilega upplifa töfra landsins, þá gæti ferðin t.d. byrjað í Landnámssetrinu á Borgarnesi  þar sem ég fengi einstaka næringu fyrir líkama og sál. Síðan tæki við ævintýraferð með íslenskum fjallaleiðsögumönnum um töfraveröld íslenskra jökla. Því næst lægi leiðin norður yfir heiðar til Húsavíkur í hvalaskoðun með Norðursiglingu út á Skjálfandaflóa. Og eftir að hafa skoðað stærstu spendýr jarðar myndi leið mín liggja í Mývatnssveitina - út á Ytri Neslönd þar sem fuglasafnið hans Sigurgeirs er til húsa. Þaðan er síðan aðeins spölkorn yfir í Sel-Hótel Mývatn sem er sannkallaður sælustaður. Ég myndi síðan fyrir alla muni gefa mér tíma til að auðga andann með heimsókn í
Menningarsetrið Þórbergssetur í Suðursveit. Og til að hækka aðeins spennustigið myndi ég klikkja út með ofurdagsparti í Adrenalín ævintýragarðinum. Vel að merkja - ég væri búin að eignast tvíburana áður en ég færi í ferðalagið!  En allt eru þetta áfangastaðir sem unnið hafa til nýsköpunarverðlauna SAF.

Og eftir daginn í dag þá mun ég bæta einum áfangastað við í leiðarlýsinguna. Ég veit ekki alveg hvaða áfangastaður það er – er reyndar sjálf orðin mjög forvitin – en ég veit að þessi nýi áfangastaður á eftir að sóma sér vel með hinum gullmolunum – sem hlotið hafa nýsköpunarverðlaun SAF á síðustu árum.

Það eru engar ýkjur að leiðarlýsingin sem ég fór með fer ansi nærri því að vera fyrir mér hin fullkomna Íslandsferð. Samt eru svo óendanlega margir framúrskarandi áfangastaðir sem ekki komust að. Og í því liggur kannski galdurinn, að þrátt fyrir að ferðamaðurinn hafi alla ferðina verið að sjá og upplifa eitthvað sérstakt og stórmerkilegt, þá náði hann aðeins
að sjá lítið brot af því sem landið hefur að bjóða. Hann verður barasta að koma aftur!

Vöxturinn í ferðaþjónustunni hefur verið mikill á undangengnum árum – þumalfingursreglan segir að fjöldi ferðamanna tvöfaldist á hverjum áratug. Árið í ár er metár og við erum að ná því marki að til landsins komi tveir erlendir ferðamenn á hvern íbúa landsins. 2 fyrir 1 – það er óneitanlega glæsilegur árangur. Og þessi árangur hefur skipað ferðaþjónustunni á efnahagslegan mikilvægispall með sjávarútveginum og stóriðjunni. Það er því ansi mikil  viðurkenning því samfara að hljóta útnefningu sem nýsköpunarfyrirtæki ársins af samtökum ferðaþjónustunnar. Að vera valinn – fremst meðal jafningja - af fólkinu sem alla daga lifir og hrærist í greininni, fremst meðal jafnyngja  það er alvöru viðurkenning. Ekki létt verka að velja enda íslensk ferðaþjónusta framúrskarandi þjónustugrein.

En það fylgir vandi vegsemd hverri - og við þurfum alla daga öfluga nýsköpun og kraft ef við eigum að ná því metnaðarfulla markmiði sem við höfum sett okkur með markaðssókninni „Ísland allt árið“  -  að fjölga ferðamönnum utan hins hefðbundna ferðamannatímabils, jafna sveifluna og ná betri nýtingu fjárfestinga..

Og við verðum jafnframt að leggja áherslu á að fá ferðamenn sem hafa sæmilega rúm auraráð þannig að ferðaþjónustuaðilar og verslun og þjónusta njóti virkilega góðs af. Það verður t.d. mjög spennandi að sjá hvaða áhrif lúxushótel við höfnina mun hafa.

En umfram allt verðum við alltaf að vera sannfærð um að við séum ævinlega að bjóða vöru sem sem stenst væntingar ferðamanna – og helst gott betur. Við verðum að gæta þess að okkar helstu ferðamannastaðir standi undir nafni, náttúruperlurnar haldi sínum glæsileika.  Bind ég miklar vonir við Framkvæmdasjóð ferðamannastaða í þeim efnum. En náttúran dugar ekki ein og sér - við verðum jafnframt að bjóða þjónustu, upplifun og afþreyingu sem gerir upplifun ferðamanna einstaka og eftirminnilega. Og eftir að hafa verið á ferðamálaþinginu sem haldið var á Ísafirði í fyrra mánuði undir gunnfána UPPLIFUNARFERÐAMENNSKU þá er ekki annað hægt en að vera bjartsýn.

Í hverjum einasta landshluta er ferðaþjónusta það sem flestir horfa til við uppbyggingu nýrra atvinnutækifæra. Og ég finn mikinn samtakamátt og kraft í íslenskri ferðaþjónustu. Aldrei fyrr hafa væntingarnar til ferðaþjónustunnar verið jafn miklar. Tíminn er því núna til að leggjast á árarnar og skapa ógleymanlega upplifun um allt land. Hér er það samvinnan sem er lykillinn að árangri.

Það er í anda þessarar samvinnu að iðnaðarráðuneytið hefur nú tekið höndum saman með Landsbankanum og sett á stofn Ísland allt árið – þróunarsjóð, fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Þessum sjóði er ætlað að taka virkan þátt í uppbyggingu fyrirtækja og verkefna í ferðaþjónustu sem skapað geta heilsársstörf og aukið þannig tekjur í ferðaþjónustunni. Sjóðurinn mun einkum styðja við fyrirtæki eða hópa fyrirtækja sem þegar eru starfandi í
ferðaþjónustu og hafa mótaðar hugmyndir um verkefni sem stuðla að lengingu ferðamannatímabilsins. Einnig mun sjóðurinn koma að verkefnum sem auka þjónustuframboð á tilteknum svæðum og styðja samstarfsverkefni þar sem saman gætu komið fyrirtæki, samtök heimamanna og sveitarfélög.

Stofnanir Iðnaðarráðuneytis Ferðamálastofa og Nýsköpunarmiðstöð Íslands munu saman annast umsýslu hins nýja þróunarsjóðs í samvinnu við Landsbankann.  Á næstu vikum verður sjóðurinn kynntur á opnum fundum um allt land og vil ég hvetja alla þá sem vilja þróa nýjar afurðir utan háannatíma til að kynna sér sjóðinn og hella sér í að skapa spennandi innihaldsríkar upplifanir!

Ég gegni því skemmtilega starfi að vera ráðherra ferðamála, og það eru vissulega forréttindi. En einhverjar vikur á ári þá breytist ég sjálf í óbreyttan ferðamann á Íslandi og nýt þess að upplifa sem gestur ferðamannalandið Ísland. Og það er tvennt ólíkt að tala hátimbrað um þetta eða hitt á fundum eða úr ræðustól – eða reyna það á eigin skinni. Glöggt er jú gests augað. En vegna þeirrar miklu gerjunar sem er í ferðaþjónustunni þá hef ég sjaldan hlakkað jafn mikið til að fara í næsta ferðalag um Ísland og upplifa ævintýr. Og sem dæmi um það hve markhóparnir eru margir og misjafnir þá er ég auðvitað persónulega mjög spennt að gera óvísindalega úttekt á framboði á afþreyingu og aðstöðu fyrir fjölskyldur með smábörn og það fleiri en eitt. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta