Fundur um beina erlenda fjárfestingu
Ágæta áhugafólk um erlenda fjárfestingu,
Hvernig byggjum við best sterkar stoðir undir samfélag okkar þannig að hér verði kjöraðstæður fyrir öflugt og sterkt atvinnulíf, gott og sanngjarnt samfélag - og blómlegt mannlíf? Þetta er milljón dollara spurningin sem brennur á okkur sem þjóð – þetta er spurningin sem fékk mig til að fara út í stjórnmál – og þetta er spurningin sem ég sem foreldri verð að leita svara við fyrir hönd barnanna minna.
Svarið við þessari spurningu er ekki eitt. Svörin eru blanda af fjölmörgum þráðum sem fléttast saman eftir kúnstarinnar reglum - og ef vel gengur þá mynda þau þá sterkustu togtaug sem getur dregið með sér efnahagslegar framfarir.
Erlend fjárfesting er umræðuefni dagsins í dag – og vonandi verður hún aflgjafi morgundagsins til sóknar og framfara. Það eru hins vegar ljón í veginum – svo sem efnahagslegar væringar í heiminum öllum – gjaldeyrishöft og veikur
gjaldmiðill. En það sama gildir um ljón og aðra farartálma – það er hægt að finna lausnir, hvort sem þær felast í því
að fara hjáleið eða einfaldlega ýta farartálmunum til hliðar.
Það er bæði klárt og kvitt að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar stendur skýrum stöfum að stuðla skuli að beinum erlendum fjárfestingum. Allt orkar tvímælis þá gert er – og eflaust má finna dæmi um eitthvað sem þessi ríkisstjórn hefði
getað gert betur í þessum efnum. Ég fullyrði hins vegar að stefnan er skýr og viljinn er klár.
Út um allan heim eru stór sem smá ríki að leita leiða til að laða til sín beina erlenda fjárfestingu. Hvergi er slík fjárfesting jafn mikilvæg og í litlum opnum hagkerfum eins og því íslenska. Í kjölfar undangenginna efnhagsþrenginga hér á landi má jafnframt fullyrða að þörfin sé enn brýnni þar sem fjárfestingar eru nú í sögulegu lágmarki.
Í skýrslu sem Price Waterhouse í Belgíu vann fyrir Fjárfestingarstofu er það gagnrýnt að aldrei hefur verið mótuð opinber stefna um beinar erlendar fjárfestingar. Og þegar þær erlendu fjárfestingarnar sem hér hafa átt sér stað
á undanförnum áratugum eru gaumgæfðar þá kemur í ljós að þær eru hvoru tveggja einhæfar og litlar - ef frá eru skildar fjárfestingar í tengslum við einstaka stóriðjuframkvæmdir og gríðarlegar erlendar fjárfestingar í upptakti bankahrunsins.
Og þegar lög og reglur eru skoðaðar þá vakna menn upp við vondan draum. Það kemur nefnilega í ljós þegar gerður er samanburður á ríkjum í OECD að síðustu áratugi er Ísland það ríki sem er með hvað mestar takmarkanir og hömlur gagnvart beinum erlendum fjárfestingum. Samkvæmt nýjustu skýrslu OECD hefur heldur dregið úr takmörkunum hér á landi á allra síðustu misserum. En betur má ef duga skal.
Það er deginum ljósara að við þurfum að marka skýra stefnu um beinar erlendar fjárfestingar. Og á grunni hennar að láta athafnir fylgja orðum. Við höfum lagt af stað, ívilnanalög, erlend og innlend.
Fyrir góðu ári síðan setti ég á laggirnar starfshóp sem skyldi fara í saumana á þessum málum. Á grunni tillagna frá þessum hóp var afgreidd í ríkisstjórninni í fyrri viku þingsályktun um opinbera stefnu um beina erlenda fjárfestingu á
Íslandi.
Í þingsályktuninni er kveðið á um að iðnaðaráðherra skuli ásamt efnahags- og viðskiptaráðherra leggja fyrir vorþing 2012 tímasetta áætlun um aðgerðir til að bæta samkeppnisstöðu Íslands og efla markaðs- og kynningarstarf í því skyni. Þá skal móta tillögur um samhæfða stjórnsýslu til að styðja við framangreind markmið.
Í þingsályktuninni er tekið skýrt fram hver stefnan eigi að vera. Með öðrum orðum - hvernig fjárfestingu við eigum að sækjast eftir:
Efst á blaði er að við eigum að leitast eftir fjárfestingu sem stuðlar að aukinni fjölbreytni í atvinnulífinu og styður jafnframt við verndun og nýtingu umhverfisins á sjálfbærum grunni.
Það er lykilatriði fjárfestingin skapi í gegnum framleiðsluferilinn sem mestan virðisauka innanlands og nýti til þess nýjustu tækni.
Við viljum að fjárfestingin skapi hlutfallslega mörg störf og hátt hlutfall verðmætra starfa. Og að hún stuðli að eflingu rannsókna og þróunur og öflunar nýrrar þekkingar.
Og auðvitað er lykilatriði að fjárfestingin sé arðsöm og skili hlutfallslega miklum skatttekjum og styrki þá innlendu starfsemi sem fyrir er.
Þessu samhliða er mikilvægt að stjórnvöld komi á sérstakri fjárfestingarvakt sem kortleggur stöðuna hverju sinni og metur áform um erlendar sem innlendar fjárfestingar í einstökum geirum og áhrif þeirra á efnahagslífið.
Þetta eru sú stefnumörkun sem við leggjum til grundvallar þegar kemur að beinum erlendum fjárfestingum. En við verðum að gera okkur grein fyrir að viðskipti sem þessi eru aldrei einungis á annan vegin. Og ég legg því mikla áherslu á að íslensk stjórnvöld tryggi gagnsæja meðferð mála er varða erlenda fjárfestingu og að gildandi reglur séu bæði skýrar og ótvíræðar.
Ég vil árétta að skýrslan sem liggur að baki þingsályktuninni fjallar um hvar við eigum að forgangsraða í okkar markaðsstarfi til að nýta markaðsfé sem best og auka fjölbreytni erlendrar fjárfestingar. Þær ályktanir sem dregnar hafa verið í fjölmiðlum um að hér séu lagðar til girðingar og bönn þegar kemur að erlendum fjárfestingum eru alrangar.
Staðan er einfaldlega sú að við þurfum ekki að markaðssetja okkur gagnvart álverum þar sem við erum nú þegar vel staðsett á kortum þeirra. Við þurfum að marka leiðina ef við ætlum okkur að auka fjölbreytni erlendrar fjárfestingar.
Ég minni á að núna er álfyrirtæki í viðræðum við Landsvirkjun um raforku á Norðausturlandi. Og öll tilskilin leyfi liggja fyrirvarðandi álver í Helguvík – þar strandar á samningum aðila um orkukaup.
Orðtakið segir að engin keðja sé sterkari en veikasti hlekkurinn. Það er alveg ljóst að við verðum að styrkja þann hlekk keðjunnar sem kallast bein erlend fjárfesting. Hún er of lítil. Hún er of einhæf.
Nú er komið að því að snúa vörn í sókn. Ísland býr yfir mörgum þeim kostum sem gera landið mjög áhugavert fyrir erlenda fjárfestingu. Við búum yfir dýrmætum mannauði – endurnýjanlegri orku – miklum landgæðum - og er þá aðeins fátt eitt talið. Við höfum sett skýra löggjöf um ívilnanir til handa aðilum sem vilja fjárfesta hér og með Fjárfestingastofu höfum við öflugt verkfæri til að bera út boðskapinn.
Ég bind miklar vonir við þá stefnumörkun sem nú á sér stað varðandi beinar erlendar fjárfestingar. Tækifærin eru þarna. Það er okkar að nýta þau.
Þetta er stór áskorun, gjaldmiðillinn er viðskiptahindrun. Við þurfum að komast upp úr hjólförum kredduhugsunar varðandi lausnir á þeim vanda sem byrjaði ekki haustið 2008.