Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. desember 2011 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Hvatningaverðlaun heilsuferðaþjónustunnar.

Formaður Heilsulandsins Íslands, kæru félagar,

Ferðaþjónustan hefur verið í mikilli sókn þetta árið.

Á vordögum var ný ferðamálaáætlun 2011-2020 samþykkt á Alþingi og í sumar voru samþykkt lög um Framkvæmdasjóð
ferðamannastaða. - Við hrintum af stað átaki í vetrarferðaþjónustu í haust, nýr þróunarsjóður iðnaðarráðuneytis og Landsbankans hefur auglýst eftir umsóknum - og við héldum vel heppnað ferðamálaþing um samspil ferðaþjónustu og skapandi greina í haust.

Uppbygging á vörumerkinu Inspired by Iceland hófst á síðasta ári í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli. Átakið Ísland allt
árið mun halda áfram að byggja undir vörumerkið með markvissum hætti og mikilvægt er að þeir sem eru að þróa afurðir í ferðaþjónustu á Íslandi tengi þær við þau skilaboð sem við erum að senda út á markaðinn í gegnum þetta
sameiginlega átak. 

Þær fjölbreyttu vörur sem þegar eru til staðar allt árið á Íslandi tengdar heilsu og vellíðan eru mikilvægur þáttur í að
Ísland geti talist heilsárs-ferðamannastaður enda alltaf hægt að fara í Bláa Lónið, Jarðböðin við Mývatn, náttúrulaugar – eða villiböð - og sundlaugar um allt land.

Við þurfum í sumum tilfellum að pakka vörunni betur inn, draga fram upplifunina og tengja við fleiri þætti afþreyingar og
þjónustu. Þar kemur þróunarsjóður iðnaðarráðuneytis og Landsbankans til og getur, ef vel tekst til, hjálpað til við þróun nýrra afurða og upplifana á sviði heilsuferðaþjónustu sem og öðrum sviðum.

Við sjáum vöxtinn í greininni víða, framboð af ferðum er sífellt að aukast og nýsköpun í afþreyingu er mikil.

Ein af þeim greinum sem vex og dafnar er heilsuferðaþjónustan og þar tel ég eins og ég hef áður nefnt að möguleikar
okkar Íslendinga séu mjög miklir bæði fyrir innlendan markað og ekki síður þann erlenda. En það var einmitt í því ljósi sem ég beitti mér fyrir stofnun og stuðningi við klasann Ísland of Health sem flest ykkar kannast við.

Á árinu 2011 var mótuð stefna fyrir heilsusamtökin og sett framtíðarsýn til 2021. Þar segir:  „Öflug heilsuferðaþjónusta verður ein af meginstoðum ferðaþjónustu á Íslandi. Erlendir jafnt sem innlendir gestir njóta sérstöðu landsins á sviði heilsuferðaþjónustu. Hún byggir á fagmennsku þeirra sem í greininni starfa og góðri aðstöðu fyrir gesti, en ekki síst byggir hún á umhverfisvænni orku og einstakri náttúru landsins.“

Í annað sinn eru nú veitt hvatningarverðlaun sem ætlað er að stuðla enn frekar að þróun og nýsköpun á sviði heilsuferðaþjónustu. Verðlaunin eru veitt til samstarfsverkefna fyrirtækja, stofnana og einstaklinga sem vinna að þróun á vörum á sviði heilsuferðaþjónustu.

Auglýst var eftir umsóknum í október og var skilafrestur til 20. nóvember. Alls bárust 17 umsóknir. Margar umsóknanna lýsa hugmyndaauðgi og ákveðinni nýsköpun en þyrftu sumar betri útfærslu og meiri ígrundun.

Við mat umsókna var litið til verkefnishugmyndar og markhóps en einnig til þess hvort varan er í boði á lágönn. Þá var litið til sérstöðu vörunnar og heilsuávinnings.

Niðurstaða dómnefndar var einróma og hlýtur verkefnið „Heilsa og trú“ hvatningarverðlaunin að þessu sinni.

Að verkefninu standa Heilsuhótel Íslands, Haukur Ingi Jónasson, Icelandair, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Nordic eMarketing og Team Works/David Jack. 

Verkefnið felst í að bjóða heilsuferðir fyrir trúaða Bandaríkjamenn þar sem hver hluti verkefnisins er nátengdur heilbrigði
og trú með sterkri tilvísun í íslenska náttúru og menningu. Um er að ræða 14 daga hreinsandi meðferð, kennslu á andlega sviðinu og leiðtogaþjálfun samhliða föstu.

Umsögn dómnefndar er eftirfarandi: 

„Verkefnið er mjög vel útfært, hlutverk samstarfsaðila eru vel skilgreind, markhópur er skýrt afmarkaður og tilgreint með hvaða hætti fyrirhugað er að ná til markhópsins. Hér er um að ræða nýjan markhóp til Íslands, umsóknin var vönduð og vörurnar vel afmarkaðar sem og heilsuávinningur ferðarinnar“.

Ég vil þakka Sigrúnu Sigurðardóttur starfsmanni Heilsulandsins Íslands, Elíasi Gíslasyni forstöðumanni hjá Ferðamálastofu og Sigríði Ó. Kristjánsdóttur frá Nýsköpunarmiðstöð fyrir mat á umsóknum - og fyrirtækjunum þakka ég fyrir góða þátttöku í þessum leiðangri okkar sem viljum sjá heilsu- og lífsstílsferðamennsku sem hornstein ferðaþjónustunnar hér á landi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta