Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

3. janúar 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Ferðaþjónustan og náttúran græða á gistináttagjaldi

Ferðaþjónustan og náttúran græða á gistináttagjaldi

Ferðaþjónusta er sú atvinnugrein sem vaxið hefur hvað hraðast hér á Íslandi. Með hæfilegri einföldun má segja að fjöldi erlendra ferðamanna hafi að jafnaði tvöfaldast á hverjum áratug. Og nýliðið ár var metár í ferðamannafjölda og tölur frá Ferðamálastofu segja okkur að tæplega 600.000 erlendir ferðamenn hafi heimsótt landið á árinu sem er hátt í 20% fjölgun frá fyrra ári.

Þessum mikla áhuga útlendra á Íslandsferðum, og reyndar á flestu því sem íslenskt er, ber auðvitað að fagna enda felast í þessu mikil tækifæri. En um leið leggur þetta okkur skyldur á herðar sem við verðum að standa undir.

Fjármunir til uppbyggingar ferðamannastaða og verndunar náttúru

Íslensk ferðaþjónusta byggir á því að hér upplifi erlendir ferðamenn einstaka náttúru. Það má hins vegar öllum vera ljóst að á mörgum af helstu ferðamannastöðum á landinu þarf virkilega að taka til hendinni.

Nýlega var settur á laggirnar Framkvæmdasjóður ferðamannastaða en hlutverk hans er að stuðla að uppbyggingu,  viðhaldi og verndun ferðamannastaða jafnframt því að fjölga viðkomustöðum ferðafólks til að draga úr álagi á fjölsótta ferðamannastaði.

Það segir sig sjálft að til þessa verks þarf umtalsverða fjármuni. Til að finna bestu og sanngjörnustu fjármögnunarleiðina var skipuð nefnd sem skyldi gera tillögu hvernig best yrði að því staðið. Til að gera langa sögu stutta skoðaði nefndin nokkrar leiðir, þ.á.m. aðgangseyri að völdum svæðum en niðurstaða nefndarinnar var sú að einfaldast væri að setja á hóflegt gistináttagjald og jafnframt gjald á flugfarþega; það myndi ná til flestra þeirra sem nýta sér þá þjónustu sem gjaldinu er ætlað að ganga til.

Gistináttagjald – því að við megum ekki sofa á verðinum

Alþingi samþykkti að leggja eingöngu á gistináttaskatt en fór þess á leit við fjármálaráðuneytið að grundvöllur fyrir farþegaskatti yrði kannaður til hlítar. Skattlagning af þessu tagi er vissulega ekki yfir gagnrýni hafin og í umræðum hefur komið fram sú skoðun að réttara væri að rukka aðgangsgjald að ákveðnum stöðum, eins og t.d. Gullfossi og Vatnajökulsþjóðgarði. Þessi leið hefur hins vegar þá ókosti að innheimtan yrði í senn flókin og kostnaðarsöm t.d. þar sem aðkomuleiðir inn á svæði eru fjölmargar og fjarri mannabyggðum. Þá getur gjaldtakan leitt til þess að ferðamenn sniðgangi þá staði þar sem krafist er aðgangseyris auk þess sem það má deila um réttmæti þess að gjaldtaka á einum stað standi undir uppbyggingu á öðrum stöðum.

Á undanförnum misserum hafa stjórnvöld lagt verulega fjármuni í púkkið með aðilum innan ferðaþjónustunnar til að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegan áfangastað og þar hefur sannarlega náðst eftirtektarverður árangur. En ef okkur auðnast ekki að standa vörð um náttúru landsins – sem vel að merkja er sterkasta aðdráttaraflið – þá er hætt við að allt þetta starf sé unnið fyrir gýg. Hagsmunir ferðaþjónustunnar og náttúrunnar fara nefnilega algerlega saman.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta