Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. febrúar 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Aðalfundur Samorku 2012

Ágætu fundargestir

Á undangengnum misserum hefur verið unnið að viðamikilli stefnumótunarvinnu á sviði orkumála þjóðarinnar. Og þessar vikunnar eru vorlaukar þessarar vinnu að skjóta upp kollinum einn af öðrum. Í síðustu viku kynnti ég á Alþingi skýrslu um orkuskipti í samgöngum sem unnin var af verkefnisstjórn Grænu orkunnar. Fyrr í vikunni lagði ég síðan fram á Alþingi skýrslu um heildstæða orkustefnu fyrir Ísland – og hún verður grunnur að stefnu stjórnvalda í þessum veigamikla málaflokki. Í framhaldi af umræðunum á Alþingi er lokavinna við samningu orkustefnunnar hafin í iðnaðarráðuneytinu og er stefnt að því að hún verði gefin út í vor. Og nú innan skamms mun ég í samráði við umhverfisráðherra leggja fram þingsályktunartillögu um rammaáætlun um verndun og nýtingu náttúrusvæða með áherslu á vatnsafl og jarðhitasvæði.

Allt eru þetta tímamótamál sem varða miklu um þjóðarhag. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um mikilvægi orkuauðlinda þjóðarinnar. Orkuframleiðslan er og verður ein af grunnstoðunum undir samfélagi okkar. Þess vegna kemur það á óvart að við sem þjóð höfum ekki fyrir löngu mótað okkur heildstæða orkustefnu sem kveður á um umgengni okkar við auðlindirnar og hvernig við best nýtum arðinn af þeim, samfélaginu öllu til hagsbóta. Mikilvægi orkustefnu felst í því að þegar hún hefur verið mótuð og samþykkt – þá er hún grundvöllurinn sem allar ákvarðanir og stefnumótun í orkumálum byggir á. Ég treysti því að þið öll hér inni hafið kynnt ykkur vel þá hugsun – og hugsjón – sem liggur að baki þessum fyrstu drögum að orkustefnu, enda fóru drög að skýrslu stýrihópsins í opið umsagnarferli í samfélaginu og margar umsagnir bárust. Ég býst við því að flest séum við sammála um meginlínurnar. Þar er t.d. lögð mikil áhersla á sjálfbæra nýtingu og að við tryggjum hér orkuöryggi. Að við aukum stórkostlega hlut endurnýjanlegrar orku þegar kemur að samgöngum. Fjallað er um mikilvægi þess að þjóðin fái sem mestan arð af orkuauðlindunum og þess sé jafnframt gætt að breikka kaupendahóp raforkunnar og dreifa þannig áhættunni - að hafa ekki of mörg egg í sömu körfunni. Það var mér því mikið gleðiefni þegar mér hlotnaðist sá heiður í síðustu viku að opna formlega nýtt gagnaver Verne á Suðurnesjum. En það segir sig sjálft að í jafn stóru máli og mótun orkustefnu þjóðarinnar til framtíðar að þar er að finna stór mál sem við þurfum eflaust að rökræða í þaula til að ná samstöðu um. Ég tek sem dæmi lengd nýtingarsamninga orkuauðlinda.

Vinna við rammaáætlun hefur staðið yfir allt frá árinu 1999 – og er markmiðið að ná framtíðarsýn í verndunar- og virkjanamálum og ekki síst almennri sátt í þjóðfélaginu. Margir hafa lagt mikið á sig í þessari vinnu og við höfum farið í miklar grundvallarrannsóknir á þeim svæðum sem hafa verið tekin til skoðunar. Þar er um að ræða rannsóknir á náttúrufari, ferðamennsku, mögulegri orkunýtinu o.s.frv. Frá því að vinna við rammaáætlun hófst árið 1999 höfum við varið um 500 milljónum kr. úr ríkissjóði í þetta verkefni og er þá miðað við verðlag hvers ár. Þá er ótalinn kostnaður við rannsóknir sem framkvæmdar hafa verið af orkufyrirtækjunum.

Ég mun ekki upplýsa hér og nú hvernig einstökum svæðum verður skipað í verndar-, nýtingar- eða biðflokk í þeirri tillögu til þingsályktunar sem lögð verður fram á Alþingi. Ég vil hins vegar vekja athygli ykkar á gjörbreyttri stöðu orkufyrirtækjanna þegar rammaáætlun hefur verið samþykkt. Hingað til hafa þau verið í þeirri stöðu að þurfa fyrst að rannsaka viðkomandi virkjunarkost og finna kaupendur að orkunni - og síðan að bíða eftir ákvörðun stjórnvalda um það hvort fara mætti í virkjunarframkvæmdir – með tilheyrandi óvissu og bið. Með rammaáætlun og þeirri röðun sem þar á sér stað liggja hlutirnir skýrir og klárir fyrir. Hvar má virkja – var skal verndað – og hvar er meiri rannsókna þörf. Og samkvæmt lögum ber sveitarfélögum að setja þá virkjanakosti sem settir eru í nýtingarflokk inn á skipulag sitt sem slíka.

Ég deili þeirri sýn með fjölmörgum sem um þessi mál fjalla að okkur farnist best ef okkur tekst að fjölga orkukaupendum og að flóra þeirra verði sem fjölbreyttust. Að orkusölusamningar verði margir og þeir renni út á mismunandi tímum. Áliðnaðurinn hefur myndað hér grunn að öflugu orkusamfélagi sem við getum byggt á. Tilkoma álþynnuverksmiðju Becromal á Akureyri og fyrirætlanir þeirra um frekari stækkanir ognýjustu fréttir af gagnaversiðnaðinum eru góð vísbending í þessa átt. Vissulega er það svo að verkefnaþróun þeirrar gerðar sem hér um ræðir er oft flókin og áhættusöm og ekki víst að öll verkefni fari í gang á tilsettum tíma. En það er von okkar að fljótlega bætist í flóruna kísilver og e.t.v. kísilhreinsun, stór gróðurhús og jafnvel vísir að efnaiðnaði.

Í drögum að orkustefnu er fast kveðið á um að leitað skuli allra leiða til að auka hlut endurnýjanlegrar orku á kostnað jarðefnaeldsneytis. Og ríkisstjórnin hefur sett sér skýr mælanleg og metnaðarfull markmið þar um. Í dag nær hluti endurnýjanlegrar orku í samgöngum ekki einu prósenti. Árið 2020 stefnum við að því að þetta hlutfall verði komið í 10%. Og vel að merkja – það eru aðeins átta ár til stefnu!

Evrópusambandið hefur sett sér markmið um aukinn hlut endurnýjanlegrar orku – og markmiðið er að ná 20% markinu fyrir árið 2020. Markmið einstakra landa er breytilegt eftir því hver staða þeirra er í dag. Skilgreint markmið Íslands er að 64% af heildarorkunotkuninni komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Þar sem nú þegar 67% af heildarorkunotkun okkar á uppruna sinn í endurnýjanlegum orkugjöfum þá erum við í kjörstöðu. Við höfum þegar náð yfir marklínuna sem okkur var ætlað að ná eftir átta ár. Og því getum við átt viðskipti með það hlutfall sem er umfram okkar landsmarkmið. En við megum ekki láta staðar numið hér – þvert á móti eigum við að vera í fararbroddi þjóða og leggja mikið á okkur til að ná alvöru árangri á sviði orkuskipta í samgöngum. Okkur ber til þess samfélagsleg skylda. Og með því móti verðum við sjálfum okkur nægari um orku, spörum dýrmætan gjaldeyri og eflum um leið þekkingar- og framleiðsluiðnað með tilheyrandi fjölgun starfa. Og þeir sem mest hagnast á þessari umhverfisvæðingu orkugeirans eru framtíðarþegnar þessa lands – börnin okkar og barnabörn. Og auðvitað íslensk náttúra.

Í Evrópu og víða um heim eru þjóðir að leggja gríðarlega mikið á sig til að ná settum markmiðum um hlutfall endurnýjanlegrar orku. Álögur hafa verið auknar og víða er verið að loka orkuverum sem ganga fyrir kjarnorku. Það kostar vissulega sitt að hverfa frá gráu yfir í grænt – en það er líka til mikils að vinna.

Það er mikil umræða um það í þjóðfélaginu hversu bensínið sé orðið dýrt. Og sannarlega hefur þróun á bensínverði verið öll á einn veg á síðustu árum. Ég tek heilshugar undir áhyggjur margra þess efnis að hátt bensínverð komi illa við ferðaþjónustu á landsbyggðinni, vöruflutninga og reyndar daglegt líf okkar flestra. En samkvæmt öllum sólarmerkjum og spám vísustu sérfræðinga – þá eru líkur á að verð á jarðefnaeldsneyti eigi eftir að hækka frekar á komandi árum og áratugum. Á þá þróun getum við engin áhrif haft. Við getum eingöngu búið okkur undir hana.

Og þá má velta fyrir sér spurningunni hvað sé dýrt. Sé bensínverð dagsins í dag borið saman við verð á bensíni fyrir 10 árum þá má vissulega segja að bensín í dag sé dýrt. En ef við berum verð á bensíni í dag saman við það bensínverð sem menn spá eftir 10 ár þá má leiða að því líkum að verð á bensíni í dag sé ódýrt. Og sú spurning sem brennur á okkur nú er hvort að við Íslendingar getum komst hjá því að vera jafn háðir innflutningi á bensíni og olíum eftir 10 ár og við erum í dag?

Tækniþróun varðandi sparneytnari vélar - og vélar sem ganga að hluta til eða að öllu leyti fyrir umhverfisvænum orkugjöfum er á fullum skriði. Það er alveg ljóst að Ísland eitt og sér mun ekki ráða því í hvaða átt eða áttir þróun á heimsvísu varðandi tæknilausnir í ökutækjum mun fara. Verður raforka stóra lausnin, metan eða eitthvað allt annað?

Lausn sem nú þegar er í boði eru svokallaðir Tvinn-tengibílar sem ganga bæði fyrir rafmagni og bensíni. Þessi tækni er eins og sköpuð fyrir Ísland, bensíneyðsla er langtum minni en í hefðbundnum bílum - og af rafmagni eigum við jú gnógt. Og þessi lausn krefst engra byltinga í innviðum, aðeins hægfara þróunar. En það eru vissulega ljón í veginum. En í mörgum tilvikum er það í ákvörðunarvaldi okkar hvort við ryðjum þeim úr vegi eða ekki, t.d. með breytingum á skattkerfi og því að koma upp hraðhleðslustöðvum rafmagns á völdum stöðum.

Ríkisstjórnin hefur sett kúrsinn á orkuskipti í samgöngum. Markmiðið er að meira en tuttugu-falda hlut endurnýjanlegrar orku í samgöngum á næstu 8 árum þannig að hlutfallið verði 10 prósent af heildarorkunotkun. Og að árið 2020 gangi 75% nýskráðra bifreiða, undir fimm tonnum að þyngd, fyrir eldsneyti af endurnýjanlegum uppruna Þetta er eitt af 2020 markmiðunum.

Verkefnið sem fyrir liggur er að að útfæra stefnuna, setja upp hvata til orkuskipta og byggja upp sterka og öfluga innviði. Og þar eiga stjórnvöld og Samorka sannarlega sameiginlega hagsmuni. Ríkisstjórnin vill eiga farsælt samstarf við orkusamfélagið um átak í þessum málum. 

Það hefur verið mér sem fjármálaráðherra kærkomið tækifæri að fá að vera í fyrirsvari sem  ráðherra orkumála nú um hríð. Það er vitanlega stórhættulegt fyrir fjármálaráðherra á ströngum aðhaldstímum að fá of mikla innsýn og jákvæðan skilning á einstaka málaflokkum – sérstaklega ef þar er útgjaldaþörf. En að öllu gamni slepptu – þá er stórkostlegt að finna gerjunina og kraftinn sem einkennir orkumálin. Og það að á innan við mánuði sé mælt fyrir þremur grundvallarmálum varðandi orkumál þjóðarinnar er vitanlega einstakt og ber gott vitni þeim stórhug og framsýni sem einkennt hefur þennan málaflokk á síðustu árum.

Að endingu vil ég fyrir hönd iðnaðarráðuneytisins, þakka Samorku fyrir gott samstarf á liðnum árum - og vonast eftir gefandi samstarf á komandi árum!

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á hjalp@utn.is

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta