Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. mars 2012 MatvælaráðuneytiðANR Fréttir iðnaðarráðuneytis 1996-2012

Vel skal vanda það sem lengi skal standa

Nú þegar vinna við rammaáætlun er á lokametrunum er farið að gæta óþreyju hjá mörgum. Ástæða þess að málið hefur tekið lengri tíma en áætlað var er einfaldlega hversu viðamikið það er og að við viljum gæta þess á öllum stigum að vinna faglega að málinu og fylgja réttri stjórnsýslu.

Það var í júlí síðastliðnum að verkefnisstjórn 2. áfanga rammaáætlunar skilaði lokaskýrslu sinni. Mikilvægt er að hafa í huga að í skýrslunni er ekki að finna flokkun þeirra virkjunarkosta sem verkefnisstjórnin hafði til skoðunar, en í lögum nr. 48/2011 um rammaáætlun er mælt fyrir um að virkjunarkostir séu flokkaðir í orkunýtingarflokk, biðflokk eða verndarflokk og
lagðir þannig fram á Alþingi í formi þingsályktunartillögu.

Á grundvelli tillagna verkefnisstjórnar voru virkjunarkostirnir flokkaðir hver í sinn flokk. Við þá vinnu nutum við liðsinnis formanns verkefnisstjórnarinnar og formanna þeirra fjögurra faghópa sem störfuðu í verkefnisstjórninni. Í kjölfarið voru samin drög að þingsályktunartillögu sem síðan var sett í lögbundið opið 12 vikna umsagnarferli.

Alls bárust 225 umsagnir og í samræmi við 5. gr. laganna um rammaáætlun á að gæta varúðarsjónarmiða þegar umsagnir eru metnar og tillaga til þingsins ákveðin.

Heyrst hafa þær raddir að réttast væri að leggja einfaldlega fyrir Alþingi sem þingsályktunartillögu skýrslu verkefnisstjórnarinnar. Það er hins vegar ekki hægt skv. lögum þar sem að í henni er ekki að finna flokkun á virkjunarkostunum.

Þá hafa aðrir bent á að nærtækast væri að leggja fyrir Alþingi drögin sem lögð voru fram í umsagnarferlinu. Ef sú leið væri farin værum við um leið að hafa að engu umsagnarferlið og færum jafnframt á svig við Árósarsamninginn sem kveður á um aukna þátttöku almennings í
ákvarðanatöku í umhverfismálum.

Vinna við rammaáætlun hefur staðið yfir allt frá árinu 1999 og á öllum stigum málsins hefur verið lögð áhersla á að vinna málið eins vel og faglega og framast er kostur. Tilgangur vinnunnar er að vega og meta það hvernig orkuvinnsla næstu ára og áratuga geti þróast með
heildarhagsmuni að leiðarljósi, svo sátt náist á milli sjónarmiða nýtingar og verndar.

Oddný G Harðardóttir, iðnaðarráðherra

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta