Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

16. mars 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Fyrsta úthlutun úr Þróunarsjóði Landsbanka og iðnaðarráðuneytis

Góðir gestir,

Ég óskar ykkur öllum til hamingju með daginn og þessa fyrstu úthlutun úr Þróunarsjóði Landsbankans og iðnaðarráðuneytisins sem varð til í tengslum við markaðsverkefnið Ísland, allt árið.

Samstarf er lykilorð í ferðaþjónustu enda byggir öll uppbygging, þróun og vinna í ferðaþjónustu á fjölbreyttu og víðtæku samstarfi ólíkra aðila. Á síðustu árum höfum við séð mikla og jákvæða þróun um allt land í átt til samstarfs á milli ferðaþjónustunnar og ríkisstofnana og einnig þvert á greinar þar sem ferðaþjónustan á sér í raun engin landamæri.

Þróunarsjóður Landsbanka og Iðnaðarráðuneytis er gott dæmi um samstarf þar sem öflugir aðilar leggja saman krafta sína til að veita þarfa og mikilvæga innspýtingu í ferðaþjónustu.

Þróunarsjóði Landsbanka og iðnaðarráðuneytis er meðal annars ætlað að koma til móts við brýna þörf til að styrkja og efla fleiri áfangastaði og afurðir í ferðaþjónustu svo við getum stolt boðið gestum að upplifa okkar einstaka land allt árið um kring. Samtals var því ákveðið að leggja 70 milljónir í þróunarsjóðinn, 40 milljónir frá Landsbanka og 30 frá iðnaðarráðuneyti sem úthlutað skildi í tveimur úthlutunum.

Í þessari fyrstu atrennu bárust 113 umsóknir þar sem samtals var óskað eftir 300 milljónum króna í styrk. Úthlutunarnefnd var skipuð þremur fulltrúum Landsbanka, fulltrúa skipuðum af ráðherra, einum frá Nýsköpunarmiðstöð, einum frá Ferðamálastofu og einum frá stjórn Íslands allt árið verkefnisins.

Þegar til úthlutunar eru 35 milljónir en sótt um 300 er ljóst að mikill vandi er á höndum og hafna þurfti mörgum afbragðsgóðum verkefnum. Sú mikla ásókn sem varð í sjóðinn sýnir hina miklu grósku sem er í ferðaþjónustunni, að hugur er í fólki um allt land til að lengja tímabilið og efla ferðaþjónustu sem atvinnugrein. Ákveðið var að úthluta 39 milljónum til 20 fjölbreyttra verkefna.

Fulltrúar margra þessara 20 spennandi verkefna eru hér í dag frá öllum landshlutum fá brautargengi til þróunar og uppbyggingar sem verður vonandi til þess að fleiri ferðamenn eigi erindi til Íslands og um Ísland vetur, vor og haust ekki síður en yfir sumartímann.

Vonir standa til þess þegar lesið er yfir verkefnalistann að á næstu árum muni fleiri ferðamenn upplifa litbrigði og töfra árstíðanna við Breiðafjörð í gegnum náttúru og mannlíf, að fuglaskoðun og vetrarhátíð megi verða til þess að draga fleiri gesti norður, að á Vestfjörðum upplifi menn myrkrið, norðurljósin og náttúruna og að draga megi fram töfra Ríkis Vatnajökuls fyrir ferðamenn allt árið um kring.

Í ferðaþjónustunni skiptir máli að afmarka vel markhópana sem stefnt er á og gott dæmi um verkefni sem hefur skýran og afmarkaðan markhóp eru verkefni Pink Iceland þar sem stefnt er að því að kynna Ísland sem vænlegan kost fyrir brúðkaup og brúðkaupsferðir fyrir svokallaða ,,hinsegin“ ferðamenn allt árið.

Í úthlutun var mjög horft til slagkrafts verkefna og áforma um víðtækt samstarf á mismunandi svæðum til að bjóða ferðamönnum upplifanir og þjónustu allt árið þannig að samstarfsverkefni og klasar úr flestum landshlutum fá brautargengi í þessari úthlutun og er í öllum verkefnum.

Þau verkefni sem styrkt eru hér í dag eiga það sameiginlegt að í þeim er áhersla lögð á að draga fram sérstöðuna í smáu jafnt sem stóru. Með þeim vilja aðstandendur þeirra aðgreina sína þjónustu, sitt svæði frá öðrum til að ná athygli RÉTTU gestanna í öllu því endalausa framboði af ferðavörum sem fólk stendur frammi fyrir.

Ég vil þakka úthlutunarnefnd sjóðsins fyrir góð störf og óska ykkur, ágætu styrkhafar til hamingju. Megi verkefnin sem þið vinnið að verða íslenskri ferðaþjónustu til framdráttar og heilla.

Næst tekur til máls Jensína K. Böðvarsdóttir, framkvæmdastjóri Þróunar hjá Landsbankanum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta