Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. mars 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Aðalfundur Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF)

Fundarstjóri, góðir aðalfundargestir.

Það er fátt hollara sál og líkama en góð fjallganga. Ég segi ekki að maður eigi að hreykja sér á hæsta steini – en auðvitað á maður að láta það eftir sér að gleðjast yfir góðum áfanga. Á fjallstoppnum, fjarri amstri hversdagsins, sér maður vítt í allar áttir.  Sérhver hóll og lækur fellur í eðlilegt samhengi hlutanna – stóra myndin verður ljós.

Það má líkja þessum aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar við fjallstopp, eða áningarstað á langri gönguleið. Það gefur okkur kraft og styrk að kasta mæðinni, ræða saman og njóta stundarinnar. En þetta er líka kærkomið tækifæri til að njóta útsýnisins. Við lítum um öxl og hugsum um það sem er að baki - og lærum af því! Förum svo yfir ferðaáætlunina og horfum óþreyjufull fram á veginn.

Í þessari ræðu langar mig að minnast á nokkrar af þeim vörðum sem ferðaþjónustan og stjórnvöld hafa í sameiningu hlaðið á liðnum árum. Og þá vil ég deila með ykkur sýn minni á næstu áfanga eins og þeir blasa við héðan frá sjónarhóli ráðherra ferðamála.

Á liðnum þremur árum hefur ótrúlega margt verið gert - og áunnist á vettvangi ferðaþjónustunnar. Fyrst upp í hugann koma auðvitað skjót og kraftmikil viðbrögð ferðaþjónustunnar og stjórnvalda við eldgosunum í Eyjafjallajökli og Grímsvötnum. Þar reyndi sem aldrei fyrr á samtakamátt, festu, útsjónarsemi og frjóa hugsun. Og þegar ósköpin voru gengin yfir og askan sest - þá kom í ljós í könnunum að Ísland hefur náð að skapa sér enn sterkari stöðu sem spennandi ákvörðunarstaður ferðamanna. Það væri kannski ráð að setja eldgos á reglulegum fresti inn á framkvæmdaáætlun Ferðamálastofu!

Í iðnaðarráðuneytinu hefur ríkt mikill metnaður fyrir hönd ferðamála á undangegnum árum og ráðuneytið lagt sig í líma við að standa þétt við hlið greinarinnar með ýmsum hætti. Við gerum okkur, öðrum ráðuneytum betur, ljóst mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir þjóðarhag.

Ferðaþjónustan er ein af grunnstoðum íslensks atvinnulífs.

Ferðaþjónustan er ein af helstu uppsprettum útflutningstekna þjóðarinnar.

Í Ferðamálaáætlun til ársins 2020 eru markmiðin skýr.

  • Við ætlum að leita allra leiða til að lengja ferðamannatímann.
  • Við ætlum að fjölga heilsársstörfum í ferðaþjónustunni stórlega.
  • Við ætlum að setja öryggis- og gæðamál í öndvegi.
  • Og  ...  við ætlum að standa vörð um íslenska náttúru.

Öll okkar stefnumörkun varðandi ferðaþjónustuna hverfist um þessa fjóra meginþætti.

Okkur sem hér erum hefur lengi verið ljóst mikilvægi þess að fjölga ferðamönnum utan hins hefðbundna ferðamannatíma um sumarið. Í kjölfar átaksins Inspired by Iceland – og reyndar á grunni þess, ýttum við úr vör síðastliðið haust þriggja ára verkefni Ísland allt árið.  

Ísland allt áriðvar vandlega íhugað af stjórnvöldum áður en iðnaðarráðuneytið hófst handa við að fá fleiri aðila að verkefninu. Það var mat ríkisstjórnarinnar að fjárfesting sem miðaði að því að lengja ferðamannatímabilið væri ein allra fljótvirkasta og áhrifaríkasta leiðin á þessum tímapunkti til þess að skapa atvinnu og auka gjaldeyristekjur. Enda skapast með lengingu ferðamannatímabilsins grundvöllur til fjölgunar heilsársstarfa hjá fyrirtækjum sem fram til þessa hafa ráðið mikinn fjölda sumarstarfsmanna en haft aðeins lágmarksstarfssemi yfir stærstan hluta ársins. Og við þetta myndu skapast forsendur til að auka arðsemi í greininni. 

Það var síðan mikið fagnaðarefni að Icelandair, SAF, Reykjavíkurborg, ISAVIA, Iceland Express, Landsbankinn og Samtök verslunar og þjónustu komu með mótframlag til verkefnisins sem fengið hefur fljúgandi start!

Það er alveg ljóst að þau skilaboð sem verið er að senda á vegum Íslands allt árið komast til skila. Vetrarherferðin á vegum Ísland allt árið var sú landkynningarherferð í heiminum sem var mest umtöluð í haust, samkvæmt mælingum.

Í greiningu á umfjöllun í öllum miðlum á heimsvísu kemur fram að fjallað var í 57 löndum um þá nýjung að bjóða ferðafólki í heimsókn, m.a. til forsetans, borgarstjórans, ferðamálaráðherrans, Péturs og Páls, Jóns og Gunnu. Og án þess að virka of sjálfumglöð tel ég að fáar þjóðir gætu leikið þetta eftir okkur!

Ágætu fundarmenn.

Frá áramótum hefur orðið 20% fjölgun erlendra ferðamanna miðað við síðasta ár. Þessar tölur, ásamt góðri bókunarstöðu hjá ferðaþjónustufyrirtækjum, gefa vísbendingar um að vetrarferðaþjónusta sé í mikilli sókn og ferðaárið í heild lofi einkar góðu. Ljóst er að þau markmið sem sett voru af stjórn Íslands allt árið um amk 12% fjölgun erlendra ferðamanna á yfirstandandi vetri munu nást.

Ísland allt árið beinist að verulegu leyti að því að laða fólk á völdum markaðssvæðum að vefsíðunni Inspired by Iceland, stuðla að umræðu um Ísland sem áfangastað á samfélagsmiðlum og koma á framfæri sögum ferðamanna sem heimsótt hafa Ísland, enda eru þeir langflestir ánægðir með dvölina og hafa frá mörgu að segja.

Ísland allt árið sameinar kraftana í markaðsstarfi ferðaþjónustunnar og skerpir fókusinn í kynningu og auglýsingum á vetrarferðum til Íslands meðal fyrirtækja og opinberra aðila. Aukið framboð á beinum flugferðum frá nýjum áfangastöðum og tilkoma nýrra flugfélaga sem hefja flug allt árið til Íslands, m.a. vegna afsláttarkjara ISAVIA fyrir flugrekstraraðila sem vilja fljúga hingað á nýjum flugleiðum allt árið, eiga einnig sinn þátt í þeirri aukningu sem nú verður vart hvarvetna á komum erlenda ferðamanna til Íslands á vetrarmánuðum.

ISAVIA hefur kynnt sérstaka afslætti á lendingar- og þjónustugjöldum í Keflavík fyrir flugrekstraraðila og Icelandair gerir tilraun í vor með flug milli Keflavíkur og Akureyrar í beinum tengslum við millilandaflugið. Reykjavíkurborg þróar markvisst sína viðburðadagskrá yfir veturinn og hefur nú stofnað Ráðstefnuskrifstofu Reykjavíkur í félagi við fyrirtæki til þess að láta að sér kveða á funda- og ráðstefnumarkaðnum. Hér þarf ekki að taka fram mikilvægi Hörpu fyrir ferðaþjónustuna - sem sýnir hversu mikið gæfuspor það var að ljúka við framkvæmd hennar.

Ísland allt árið er hins vegar ekki hægt að reka sem einhliða markaðsverkefni. Samhliða því að hafa frumkvæði að Inspired by Iceland í kjölfar gossins í Eyjafjallajökli og með veglegri aðkomu að Ísland allt árið hafa ferðamálayfirvöld beitt sér fyrir eflingu ferðaþjónustu með ýmsu móti. Fyrst ber að geta stofnunar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða en lög um hann voru samþykkt á Alþingi s.l.sumar. Hlutverk sjóðsins er að vernda umhverfi á ferðamannastöðum og stórbæta aðgengi og öryggi ferðamanna.

Fjármögnun sjóðsins er enn í burðarliðnum en það munar samt verulega um þær 70 milljónir sem nú hafa bæst við hefðbundna úthlutun Ferðamálastofu til úrbóta á ferðamannastöðum sem er alls 40 millj. kr á þessu ári.

Ég bind miklar vonir við að þessi málaflokkur muni styrkjast enn frekar á næstu árum enda verkefnin mörg og sum þeirra verulega aðkallandi.

Einnig hafa stjórnvöld kostað gerð gæða- og umhverfiskerfisins VAKANS sem var, í samstarfi við SAF og Ferðamálasamtök Íslands, stofnað til nýlega. Að baki liggur vönduð undirbúningsvinna, ekki síst að hálfu Ferðamálastofu sem sér um rekstur kerfisins. Markmiðið með kerfinu er að efla gæði og öryggi í ferðaþjónustu á Íslandi með handleiðslu og stuðningi, ásamt því byggja upp samfélagslega ábyrgð.

Kerfið er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða gæðaúttekt fyrir ferðaþjónustu aðra en gistingu - og stjörnuflokkun fyrir allar tegundir gististaða.

Hins vegar er um að ræða umhverfiskerfi þar sem þátttakendur eru hvattir til að stuðla að verndun umhverfisins og samfélagslegri ábyrgð með hagkvæmum og jákvæðum hætti og fá brons-, silfur- eða gullmerki eftir árangri.

Undanfarnar vikur hafa verið haldnir samtals níu kynningarfundir um land allt, þar sem VAKINN hefur fengið mjög jákvæðar undirtektir. Góð þátttaka í VAKANUM mun efla jákvæða ímynd íslenskrar ferðaþjónustu og Íslands sem hágæða dvalarstaðar þar sem öryggi og sjálfbærni eru í öndvegi. Ég hvet því alla ferðaþjónustuaðila til að kynna sér VAKANN og sækja um þátttöku.

Það er ótvírætt að rannsóknir og nýsköpun eru grunnur að vexti og viðgangi
ferðaþjónustunnar. Mikill vilji er til þess að auka þekkingu í greininni og þar með rannsóknarstarfið. Á þessu ári hafa framlög stjórnvalda til rannsókna í ferðaþjónustu aukist umtalsvert, þannig hafa fjármunir á ársgrunni til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sem er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri, Háskólans á Hólum, SAF og Ferðamálastofu aukist úr tólf og hálfri milljón í 42 og hálfa milljón króna.

Í síðustu viku hlotnaðist mér það mjög svo ánægjulega hlutverk að afhenda fyrstu styrkina úr Þróunarsjóði - Íslands allt árið, sem Landsbankinn og iðnaðarráðuneytið standa sameiginlega að. Markmið sjóðsins er að lengja ferðamannatímabilið á Íslandi, með því að styrkja þróun afurða og upplifana utan háannatíma ferðaþjónustu og auka þannig arðsemi fyrirtækja í geiranum. Alls  voru veittir 20 styrkir fyrir rétt tæpar 40 milljónir króna  – og sannarlega lofa verkefnin góðu: Reglulegt millilandaflug um Akureyri, vetrarferðamennska í ríki Vatnajökuls, Gullkistan Ísafjarðardjúp, ísgöng í Langjökli, Vetrarupplifun á Austurlandi, Jarðvangur á Suðurnesjum og Regnbogar náttúrlífsins við Breiðafjörð eru aðeins nokkur af þeim verkefnum sem fengu styrki - og það er gaman að sjá hvernig þau raða sér hringinn í kringum landið.

Þá fagna ég því sérstaklega hvernig Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur í stórauknum mæli snúið sér að verkefnum tengdum ferðaþjónustu. Markmið ráðuneytisins er auðvitað að allar stofnanir þess, ekki einungis Ferðamálastofa, séu meðvitaðar um þýðingu ferðaþjónustunnar og taki fullan þátt í eflingu hennar.

Í gær mælti ég á Alþingi fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um skipan ferðamála. Í því er komið til móts við breytt umhverfi í greininni. Stofnun Íslandsstofu og Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða hefur breytt hlutverki Ferðamálastofu auk þess sem Ferðamálaráð hefur lent í nokkrum tilvistarvanda í kjölfar stofnunar Íslandsstofu og tilkomu Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, Íslands allt árið og stórra klasa um allt land. Því gerir frumvarpið ráð fyrir samráðsvettvangi um ferðamál sem hittist fremur sjaldan en hefur skýrt hlutverk. Að honum munu eiga aðild m.a. Vegagerðin, Umhverfisstofnun og Félag leiðsögumanna.

Mestar vonir bind ég þó við þann hluta frumvarpsins sem snýr að öryggi ferðamanna. Í frumvarpinu er ákvæði sem kveður á um skyldur allra aðila sem bjóða ferðir innanlands - til að útbúa öryggisáætlun þar sem fram kemur mat á áhættu viðkomandi ferðar og lýsing á því hvernig viðkomandi aðili hyggist bregðast við beri vá að höndum í ferðinni.

Nái frumvarpið fram að ganga fær Ferðamálastofa það verkefni að leiðbeina við gerð öryggisáætlana, skrá þær og birta. Þá mun Ferðamálastofa halda uppi eftirliti með því að ferðaskrifstofur og ferðaskipuleggjendur leggi fram öryggisáætlanir og leggi á sektir ef þær eru ekki fyrir hendi.

Það styttist í að rammaáætlun líti dagsins ljós en þar er virkjunarkostum á landinu skipað í orkunýtingarflokk, verndarflokk eða biðflokk ef þörf er á frekari rannsóknum. Í vinnu verkefnisstjórnar rammaáætlunar var mikið tillit tekið til sjónarmiða ferðaþjónustunnar – enda er íslensk náttúra sterkasti aðdráttaraflið fyrir erlenda ferðamenn. Það skiptir miklu að með rammaáætlun fáum við framtíðarsýn hvað varðar vernd og nýtingu náttúrusvæða.

Við þurfum að nýta af skynsemi.

Og við þurfum að vernda af skynsemi!

Ég trúi því og treysti að með rammaáætlun sé kominn grundvöllur að breiðri og almennri sátt í þjóðfélaginu um þetta mikilvæga mál.

Ríkisstjórnin hefur sett fram metnaðarfull markmið um orkuskipti í samgöngum fram til ársins 2020. Við viljum vera í framvarðasveit þjóða í að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis – og auka að sama skapi hlut endurnýjanlegra og umhverfisvænna orkugjafa. Þetta markmið rímar fullkomlega við þá ímynd sem Ísland hefur - og við viljum með öllum ráðum styrkja í sessi.

Kæru fundargestir

Aðalfundir SAF eru einn mælikvarðinn á það að ferðaþjónustan hér á landi er á öruggri og góðri siglingu. Fundirnir verða sífellt fjölmennari og glæsilegri og óska ég ykkur til hamingju með það.

En það er mikilvægt að við höldum til haga sögu greinarinnar og því er það mér mikið ánægjuefni að Samtök ferðaþjónustunnar og iðnaðarráðuneytið hafa náð samkomulagi um að hefja ritun á sögu ferðaþjónustunnar. Þetta mikilvæga mál hefur verið SAF hugleikið um langt skeið og ekki seinna vænna að hefjast handa. Við viljum jú ...

... Segja löngu seinna frá því:
Sjáið tindinn! Þarna fór ég.

Ég hóf mál mitt að líkja þessum ársfundi SAF við áningarstað á langri leið. Og þegar við lítum yfir farinn veg blasir við okkur að fjöldi ferðamanna hefur að jafnaði tvöfaldast á hverjum áratug síðustu hálfa öldina. Frá því að vera rúmlega 17 þúsund árið 1962 – yfir í það að vera yfir 600 þúsund nú á árinu 2012, eins og öll sólarmerki benda til.

Og það bíða okkar ærin verkefni; að fjölga ferðamönnum utan hins hefðbundna ferðamannatíma, auka arðsemi greinarinnar, fjölga störfum innan hennar, standa vörð um náttúru Íslands og helstu ferðamannastaði, tryggja öfluga nýsköpun í hvers kyns afþreyingu, tryggja öryggis- og gæðamál ... og þá er aðeins fátt eitt upp talið. En þetta vex okkur ekki í augum - því að við höfum í heiðri orð Tómasar þess efnis ... að eiginlega sé nú ekkert bratt, aðeins mismunandi flatt.

Ég óska ferðaþjónustunni alls hins besta í framtíðinni og heiti stuðningi iðnaðarráðuneytisins við ferðaþjónustuna - hér eftir sem hingað til.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta