Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. maí 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Tæknidagar Tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík

Ágætu gestir.

Það er mér mikið ánægjuefni að koma hingað í Háskólann í Reykjavík og finna þann metnað og kraft sem einkennir allt starf skólans. Og ég skal líka gera þá játningu að það er kærkomin tilbreyting fyrir mig að taka þátt í markvissu þingi sem einkennist af jákvæðni og einbeittum vilja allra sem að koma til að taka höndum saman og láta góða hluti gerast hratt og örugglega.

Yfirskrift þessa málþings er „Íslenskt atvinnulíf kallar á tæknimenntun“ – og ég gæti varla verið meira sammála .

Verkefnið sem íslensk þjóð stendur frammi fyrir er með hvaða hætti við best byggjum upp öflugt og  kraftmikið atvinnulíf sem skapar fjölbreytt og eftirsóknarverð störf - og er um leið undirstaða þess velferðarþjóðfélags sem við viljum búa í.

Forsenda þess að okkur auðnist að ná markmiðum okkar er að við höfum hugrekki til að mæta þeim áskorunum sem felast í framtíðinni. Tækniþróun og framfarir eru á fljúgandi ferð og sá sem ekki er tilbúinn til að fylgja þróuninni mun einfaldlega sitja eftir.

Við ætlum okkur hins vegar allt annað hlutskipti. Við ætlum – og skulum – vera í flokki þeirra þjóða sem standa í fylkingarbrjósti. Og sannarlega höfum fjölmörg dæmi um íslensk fyrirtæki – og íslenskar starfsgreinar - sem eru á meðal þeirra allra fremstu á sínum sviðum í heiminum.

Það er flestu mikilvægara - að okkur takist að auka fjölbreytni íslensks atvinnulífs og reisa undir það fleiri og sterkari stoðir. Hagkerfið þarf að þroskast og þróast í átt að því að vera þekkingardrifið í stað þess að vera auðlindadrifið. Hér á Íslandi eigum við að rannsaka, skapa, og fullvinna.

Það er jafnan auðveldara um að tala en í að komast – og til að þessi stefnumörkun verði annað og meira en orðin tóm þá þarf margt að ganga eftir. Umhverfi fyrirtækja þarf að vera sanngjarnt og samkeppnishæft við önnur lönd – stuðningur við nýsköpunarfyrirtæki verður að vera öflugur og við verðum að styrkja enn frekar samkeppnissjóði eins og Tækniþróunarsjóð. Og umfram allt verðum að standa vörð um og efla skólakerfið – og þá ekki síst menntun í tæknigreinum hvers konar þannig að hér sé ævinlega til staðar sá mannauður sem atvinnulífið þarf á að halda. Það eru ákveðnar varúðarblikur á lofti  hvað varðar menntakerfið – að lengra verði ekki gengið í aðhaldi – og það er mikilvægt að nú taki við tímabil enduruppbyggingar.

Staðan í dag er sú að fyrirtækin sárvantar fólk með rétta tæknimenntun. Og það skýtur skökku við að á sama tíma og skortur er á háskólamenntuðu fólki í tækni- og raungreinum hefur um fjórðungur atvinnulausra lokið stúdentsprófi eða er háskólamenntaður. Það má öllum vera ljóst að þarna er ósamræmi sem verður að taka á. Þótt lögð verði aukin áhersla á tækni- og raungreinar er alls ekki verið að gefa í skyn að aðrar greinar verði hornreka - heldur aðeins að kúrsinn verði réttur af og tryggt að áherslur í menntamálum verði meiri aflvaki í endurreisn samfélagsins. Og auðvitað þarf til þessa fjármuni og stuðning. En einnig þarf að gera nám í tæknigreinum áhugaverðara fyrir nemendur því að í dag sýnist mér - þrátt fyrir alla möguleikana sem tæknimenntunin gefur – að framboð náms sé meira en eftirspunin. Og hér þurfa allir að taka höndum saman, stjórnvöld, atvinnulífið og í reynd samfélagið allt.

Spurningin klassíska um það hvort komi á undan eggið eða hænan á ágætlega við þegar við horfum á þarfir atvinnulífsins fyrir tæknimenntað starfsfólk - og námsval ungs fólks. Tæknifyrirtækin munu blómstra sem aldrei fyrr velji nógu margir leið tæknimenntunar – og straumur ungs fólks í tæknigreinar verður efalaust mikill ef tæknifyrirtækin bjóða í enn ríkara mæli vel launuð og spennandi störf.

Og þegar jafnan gengur upp þá halda okkur engin bönd. Tökum sem dæmi íslenskan sjávarútveg. Framtíðarmöguleikar hans felast ekki í meiri veiðum. Ég heyrði á mál forsvarsmanns sjávarklasans fyrir skömmu og þar á bæ telja menn það raunhæft að auka megi verðmæti hvers þorsks um 80%. Þetta þýðir 60 milljarða króna tekjuaukningu fyrir þorskinn einan - og það án þess að auka veiðarnar! Forsendan fyrir því að við getum náð þessum árangri er samspil margra þátta, svo sem frekari fullvinnslu aflans og ekki síst nýsköpun í líftækni og hátækniframleiðslu. Fyrirtækið Kerecis er gott dæmi í þessu samhengi en það umbreytir fiskroði í hátækni-lækningavörur – úrgangi í verðmæti.

Kallið eftir öflugu tæknimenntuðu fólki kemur frá öllum geirum íslensks atvinnulífs – leikjaiðnaðinum, orkufyrirtækjunum, hugbúnaðargeiranum, iðnfyrirtækjum, stóriðjunni, matvælafyrirtækjum, hátæknifyrirtækjunum og sjávarútveginum. Tækifærin eru allt í kringum okkur. Það er okkar að koma auga á þau og hagnýta

Ég efa ekki að við sem hér erum séum sammála um mikilvægi þess að svara kalli atvinnulífsins eftir tæknimenntuðu fólki. Framtíðin er sífellt að skora okkur á hólm – og við megum ekki skorast undan þessari áskorun. Sóknin til betri lífskjara er undir því komin að við svörum þessu kalli.

Ég hlakka til að heyra boðskap þeirra sem hér koma á eftir – og ekki síður að fá þann heiður að afhenda viðurkenningar fyrir framúrskarandi lokaverkefni í tæknifræði. Þar eru á ferð einstaklingar sem eiga sannarlega framtíðina fyrir sér – og við öll horfum til með vonaraugum.

Ég set þetta málþing formlega sett.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta