Ársfundur Nýsköpunarsjóðs
Ágætu fundargestir. Ég vil í upphafi máls míns bera ykkur kveðju frá iðnaðarráðherra - en hún er stödd erlendis í embættiserindum og getur því ekki verið með okkur hér í dag.
Allt frá stofnun Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins hefur hann gegnt veigamiklu hlutverki í því að greiða nýsköpunar- og sprotafyrirtækjum leið. Sennilega hefur mikilvægi hans aldrei verið meira en einmitt núna - þegar við erum að reyna að ná okkur upp á strikið góða eftir hremmingar bankahrunsins. Og sannarlega má tala um tímana tvenna - fyrir og eftir hrun - hvað varðar fjármagn til nýsköpunar. Mér telst til að þegar best lét hafi verið starfræktir hér um 20 fjárfestingarsjóðir sem höfðu markvisst augun á lofandi sprotafyrirtækjum – en nú standa aðeins fáir eftir. Og þetta er kannski skýrasti vitnisburðurinn um mikilvægi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins – og um leið hlutverk ríkisins á þessu sviði.
Mikilvægi Nýsköpunarsjóðs er óumdeilt og ég held að við séum öll sammála um það markmið að auka beri þá fjármuni sem lagðir eru í álitleg nýsköpunar- og sprotafyrirtæki. Það er hins vegar spurning með hvaða hætti það verði best gert. Það er ekkert launungarmál að staða ríkissjóðs er þröng - og það ríður á að gætt sé ítrustu ráðdeildarsemi. En um leið gera stjórnvöld sér fulla grein fyrir því að það þarf að sækja til að skora mörk. Þær áherslur sem lagðar eru á rannsóknir og nýsköpun í Fjárfestingaráætlun fyrir Ísland 2013-2015 eru því sérstaklega ánægjulegar en þar er gert ráð fyrir því meðal annars að árlegt framlag til Tækniþróunarsjóðs verði aukið um 750 milljónir og sama árleg aukning er ætluð til Rannsóknarsjóðs auk 500 milljóna í markáætlanir.
Eftir stendur að staða Nýsköpunarsjóðs er þröng og sjóðurinn getur ekki beitt sér sem skyldi sem virkur fjárfestir í nýjum sprotafyrirtækjum – fremst í nýsköpunarferlinu á frumstigi fyrirtækjanna.
Á síðasta ári bárust sjóðnum 242 erindi og tók hann þátt í 16 fjárfestingum - þar af voru 6 nýfjárfestingar. Handbært fé sjóðsins til fjárfestinga nemur nú um 900 millj. kr. en þessir fjármunir urðu til nýlega við sölu á öllum hlutum hans í tveimur fyrirtækjum. Hefði þessi sala ekki komið til væri lítil sem engin fjárfestingargeta hjá Nýsköpunarsjóði. Ekki er gert ráð fyrir meiriháttar sölu á eignarhlutum fyrr en í fyrsta lagi í lok árs 2013.
Verkefnið sem við öll stöndum frammi fyrir er hvernig við getum aukið það fé sem lagt er til nýsköpunar. Það þarf að efla fjárfestingargetu Nýsköpunarsjóðs og tryggja að hann geti verið sá aflgjafi sem nýsköpunarumhverfið og íslenskt atvinnulíf getur reitt sig á.
Við getum öll verið sammála um markmiðin – nú þarf að finna leiðirnar sem koma okkur á þann stað sem við viljum vera á. Samtök iðnaðarins, Samtök fiskvinnslustöðva og Landssamband íslenskra útvegsmanna höfðu nýlega frumkvæði að viðræðum við stjórnvöld um eignarhald á Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Hugmyndin sem sett er fram í erindinu gengur út á að eignir og skuldbindingar Nýsköpunarsjóðs verði metnar og fjárfestum boðið að fjárfesta í sjóðnum. Með því mætti auka fjárfestingargetu sjóðsins auk þess sem tekjur af slíkri sölu væri hægt að nýta til að efla tímabundið framlög ríkisins til Tækniþróunarsjóðs og AVS rannsóknarsjóðs.
Þessar hugmyndir hafa verið ræddar í ríkisstjórninni og hefur fjármálaráðherra verið falið, í samvinnu við iðnaðarráðherra og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að leiða viðræður við samtök í atvinnulífi og Alþýðusamband Íslands um framtíðarhlutverk Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og hvort skynsamlegt geti verið að breyta eignarhaldi hans með það að markmiði að í opnu ferli sé opnað á aðkomu annarra áhugasamra aðila að sjóðnum að hluta eða öllu leyti.
Markmið slíkra viðræðna yrði annars vegar að tryggja að starfsemi sjóðsins héldi áfram á grundvelli þeirra markmiða sem sett voru um starfsemi hans og hins vegar að breytingarnar hefðu í för með sér aukna fjárfestingargetu sjóðsins.
Ágætu fundargestir.
Hagstætt umhverfi fyrir nýsköpun – jafnt innan rótgróinna fyrirtækja og sprotafyrirtækja – er ein af forsendum þess að við tryggjum hér varanlegan hagvöxt sem getur staðið undir kraftmiklu velferðarsamfélagi.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins gegnir hér mikilvægu hlutverki – og það er mikilsvert að við gefum honum þann styrk sem þarf - til að hann geti rækt hlutverk sitt sem skyldi.
Ég vil að lokum þakka stjórn og starfsfólki Nýsköpunarsjóðs fyrir gott samstarf við iðnaðarráðuneytið, en eins og þið vitið þá er miðað við að starfsemi þess verði hluti af nýju atvinnu og nýsköpunarráðuneyti sem tekur til starfa 1. september n.k.