Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

10. ágúst 2012 MatvælaráðuneytiðKatrín Júlíusdóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra 2000-2001, iðnaðarráðherra 2009-2012

Þjóðhagslegt mikilvægi landsbyggðar

Þjóðhagslegt mikilvægi landsbyggðar

Grein iðnaðarráðherra, Steingríms J. Sigfússonar, sem birtist í Bændablaðinu.

Upplýsingar um íbúaþróun, búferlaflutninga og spár um líklega fólksfjöldaþróun eru mikilvægur grunnur í þjóðhagslegu tilliti. Þróun síðustu áratuga sýnir skýrt gríðarlega samþjöppun fólks á Íslandi á höfuðborgarsvæðið og reyndar hraða þéttbýlismyndun einnig út um land. Í ársbyrjun bjuggu á höfuðborgarsvæðinu í nær algerlega samfelldri byggð, þ.e. frá Hafnarfirði til Mosfellsbæjar 63% landsmanna eða rétt tæplega 200 þúsund manns. Á hinum endanum er það sem kallað er strjálbýli, þ.e. sveitir og minni þéttbýliskjarnar með undir 200 íbúum. Þar bjuggu hinn 1. janúar sl. 6,5% mannfjöldans eða rúmlega 20 þúsund manns. Svo brá við á síðasta ári að íbúum í fámennari byggðakjörnum og strjálbýli fjölgaði nokkuð umfram landsmeðaltal eða um 0,6% eftir meira og minna samfellda fækkun undangenginn áratug. Þetta og fleira gefur ákveðnar vísbendingar um að nokkur veðrabrigði kunna að vera í vændum í byggðamálum og veitir ekki af.

Mannekla og húsnæðisskortur

Allvíða af landsbyggðinni berast nú þær fréttir að þar standi mannekla og húsnæðisskortur hvað helst í vegi framþróunar og eflingu viðkomandi byggðarlaga. Á mörgum stöðum við sjávarsíðuna hefur orðið mikil uppbygging í útgerð og þó ekki síður landvinnslu sjávarafurða. Má nefna í því sambandi staði eins og Vopnafjörð, Þórshöfn, Bolungarvík, Neskaupstað, Vestmannaeyjar, Dalvík og marga fleiri. Á öðrum stöðum er það fiskeldi, ferðaþjónusta, menning og handverk eða ylrækt, þang- eða þörungavinnsla sem er í sókn og kallar á aukinn mannafla og húsnæði. Ekki má gleyma hefðbundnum landbúnaði sem hefur verið að styrkjast með aukinni fjölbreytni, úrvinnslu heima á búunum og síðast en ekki síst með vaxandi útflutningi.

Því miður er framþróun þessara byggða mörgum annmörkum háð. Enn skortir víða á að samgöngur og fjarskipti séu í ásættanlegu horfi. Flutningskostnaður er hár, þó nú sé loksins komin til framkvæmda nokkur jöfnun þar á. Mjög víða á landsbyggðinni utan stærri þéttbýlisstaða er uppistaðan af yngra húsnæði frá áttunda og níunda áratug síðustu aldar. Því er orðinn skortur á húsnæði á ákveðnum svæðum. Skýrist það bæði af því að nú búa færri einsktaklingar í hverju húsi en áður sem og að íbúum hefur sumstaðar tekið að fjölga á nýjan leik án þess að húsnæði hafi bætst við. Í nýju fasteignamati kom svo í ljós  að nokkrir staðir sem höfðu nýlega fengið umtalsverðar samgöngubætur stóðu uppúr í hækkun fasteignamats. Segir það sína sögu um mikilvægi samgangna í þessu samhengi öllu.

Ólík staða svæða

Það sem við í daglegu tali köllum landsbyggð er þó fjarri því að vera einsleitt mengi. Sum svæði eiga við erfiðar aðstæður að glíma meðan önnur standa allvel. Kraginn í svona 100 km radíus út frá höfuðborgarsvæðinu nýtur um margt góðs af nábýlinu en finnur líka fyrir Stór-Reykjavíkursvæðinu sem sterkum segli sem sogar til sín ýmsa hluti. Sömuleiðis má segja að staðan sé nokkuð sterk á Eyjafjarðarsvæðinu í byggðalegu tilliti, þar hefur verið fólksfjölgun bæði til langs tíma og á síðustu árum, og þjónustustig er hátt. Mið-Austurland hefur alla burði til að eflast, en vantar enn úrbætur í samgöngumálum fyrir Norðfjörð, Seyðisfjörð, tenginu Djúpavogs við Hérað og sama fyrir Borgarfjörð eystri. Skagafjörðurinn stendur líka traustum fótum og á síðustu árum eru vísbendingar um að telja megi Vestmannaeyjar í þessum hópi.

Eftir standa þá 7-8% þjóðarinnar á svæðum þar sem glímt er við alvarlegri byggðavanda. Snæfellsnes, Húnavatnssýslur, Suður-Þingeyjarsýsla og Skaftafellssýslur hafa látið undan síga, þó finna megi byggðarlög eða byggðakjarna þar eins og annars staðar þar sem bærilega gengur. Bráðavandinn er hins vegar sérstaklega á Vestfjörðum og í vissum byggðum á Norð-austurhorninu.

Sóknaráætlanir mikilvægar

Þó svo að engar töfralausnir séu til á byggðavandanum og ýmislegt hafi verið reynt í gegnum tíðina með misjöfnum árangri eru engu síður tilefni til nokkurrar bjartsýni í þessum efnum ef rétt verður á málum haldið. Sóknaráætlanir landshlutanna eru hér lykilverkfæri, sem og að líta almennt á bætt búsetuskilyrði og aðstæður á landsbyggðinni og í hinum dreifðu byggðum sem einn vænlegasta fjárfestingakost Íslands. Ofþensluárin voru landsbyggðinni mjög mótdræg og henni blæddi meir en endranær í hinu meinta góðæri. Bóluhagkerfið hafði neikvæð áhrif á afkomu og þrótt landsbyggðarinnar sem byggir afkomu sína á raunverðmætum. Alltof sterkt gengi krónunnar er gott dæmi í þessu sambandi en það dró þrótt úr útflutningsstarfseminni en jók á skuldsetningu þjóðarbúsins með óhóflegum innflutningi og viðskiptahalla. Eftir hrun blasir á nýjan leik við að útflutningstekjur á mann á landsbyggðinni eru mun hærri en á höfuðborgarsvæðinu og góður gangur er í raunhagkerfinu. Einnig ríkir nú meira jafnvægi í efnahagslífinu almennt og ágætt atvinnuástand er á flestum svæðum á landsbyggðinni. Þessir þættir ættu að geta skapað mikilvægan grunn að sókn landsbyggðarinnar eftir hin mögru ár „góðærisins“.

Fjárfest í innviðum á landsbyggðinni

Til þess að ýta enn frekar undir sókn hefur verið ákveðið að ráðast í viðamikil samgöngu- og fjárfestingaverkefni á landsbyggðinni. Mörg þessara verkefna hafa setið á hakanum árum saman. Nú eru að hefjast framkvæmdir við Vaðlaheiðagöng en þau munu marka tímamót í samöngubótum á Mið-Norður og Norð-Austurlandi sem og styðja við bakið á fyrirhuguðri uppbyggingu í Þingeyjarsýslum. Í nýrri fjárfestingaáætlun ríkisstjórnarinnar er jafnframt gert ráð fyrir flýtingu Norðfjarða- og Dýrafjarðagangna. Þar er líka gert ráð fyrir fjármagni í nýbyggingu við Háskólann á Akureyri, uppbyggingu ferðamannastaða um land allt og fjárfestingu í nýjum Herjólfi og úrbótum í Landeyjahöfn. Það sem gerir kleyft að ráðast í jafn viðamikla innviða fjárfestingu á landsbyggðinni eru auknar tekjur ríkissjóðs af sérstöku veiðigjaldi. Við þær aðstæður sem nú eru uppi í íslenskum sjávarútvegi er skynsamlegt og sanngjarnt að nýta umframarð í óvenju góðu árferði til að fjárfesta í möguleikum og tækifærum landsbyggðarinnar. Sú ráðstöfun mun skila þjóðinni allri miklum ávinning til framtíðar litið.

Steingrímur J. Sigfússon

Höfundur er starfandi iðnaðarráðherra og fer með byggðamál

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta