Söguleg björgunaræfing í nágrenni Íslands
Í gær, mánudag, hófst fyrsta leitar- og björgunaræfingin, sem haldin er á grundvelli hins sögulega samkomulags norðurskautsríkjanna átta um öryggi á norðurslóðum. Æfingin fer fram í næsta nágrenni Íslands á hafsvæðinu milli Íslands og Austur-Grænlands og á innfjörðum Norðaustur-Grænlands. Norðurskautsríkin leggja lóð sín á vogarskálarnar í formi skipa, þyrlna, flugvéla og björgunarsveita. Æfð eru viðbrögð við stórslysum í tengslum við siglingar stórra farþegaskipa á siglingaleiðunum á þessum svæðum. Sum skipanna, sem sigla um þessi svæði að sumarlagi, eru með jafnmarga farþega og búa í meðalstóru íslensku sveitarfélagi. Umfang æfinganna jafnast því hæglega á við viðbrögð vegna stórfelldra náttúruhamfara á borð við eldgosið í Vestmannaeyjum.
Ísland gegnir lykilhlutverki í æfingunni við Grænland enda hvergi annars staðar að finna innviði sem geta tekist á við stórslys sem geta hent á þessum hafsvæðum í framtíðinni. Landhelgisgæslan teflir fram varðskipinu Þór og eftirlitsflugvélinni TF-SIF sem munu ásamt fjölmennu björgunarliði frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg taka virkan þátt í æfingunni. Íslenska almannavarnakerfið verður virkjað, enda einu sjúkrahúsin, djúpu hafnirnar og öruggu alþjóðaflugvellina að finna á Íslandi þegar kemur að björgunaraðgerðum á hafsvæðinu norður af Íslandi og við Austur-Grænland.
Með samningunum um leit og björgun sem við utanríkisráðherrar norðurskautsríkjanna undirrituðum í Nuuk á síðasta ári var lagður grunnur að mikilvægri samvinnu sem brýnt er að þróa frekar til að geta svarað öryggiskröfum vegna vaxandi umsvifa á svæðinu. Æfingin, sem nú stendur yfir, er okkur mikilvæg, m.a. vegna þess að hún mun leiða enn frekar í ljós hversu þýðingarmikið Ísland er gagnvart almanna- og umhverfisvörnum á svæðinu vegna legu sinnar og sterkra innviða.
Flest ríki norðurskautsins reyna nú að efla viðbragðsgetu sína til að mæta vaxandi umferð og umsvifum á svæðinu. Rússar hafa t.d. á prjónunum að byggja þjónustu- og viðbragðsstöðvar meðfram ströndum Norður-Íshafsins og frændur okkar í Noregi hafa komið upp öflugri eftirlits- og björgunarmiðstöð í Bodø í Norður-Noregi. Stærri verkefni, hvort heldur er leit og björgun eða stórfelld mengunaróhöpp, verða hins vegar ekki leyst nema með öflugri samvinnu allra sem geta lagst á árar.
Ég hef rætt við starfssystkini mín í norðurskautsríkjunum um nauðsyn þess að horfa á heimskautasvæðin sem eina heild þegar kemur að þróun og uppbyggingu á viðbragðsgetu. Ekkert ríki er í þeirri aðstöðu að geta tryggt að réttur búnaður og aðstaða sé alltaf til reiðu á öllum stöðum. Slíkt er einfaldlega ógerlegt vegna kostnaðar og strjálbýlis. Við getum hinsvegar metið sameiginlega hvar þörfin er mest og myndað þannig einskonar bjarghring viðbragðsmiðstöðva í kringum norðurskautið. Góðar flugsamgöngur, hafnarmannvirki og aðrir innviðir skipta öllu máli en einnig mætti hugsa sér færanlegan útbúnað t.d. til olíuhreinsunar, sjúkrabúnað og skýli, þyrlur og báta svo fátt eitt sé nefnt.
Aðstæður á Keflavíkurflugvelli eru nánast eins og sniðnar fyrir slíka starfsemi. Þær, ásamt legu okkar og sterkum innviðum, réttlæta þá hugmynd okkar að á Íslandi verði einn hlekkurinn í þeirri öryggiskeðju, sem þarf að byggja upp á heimskautasvæðunum í góðu samstarfi við siglingaþjóðir á norðurslóð.
Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 11. september 2012. (PDF skjal)