Afríka, Ísland, mæður og börn
Afríka, Ísland, mæður og börn
Á næsta ári verða framlög til þróunarhjálpar aukin um heilan milljarð. Aukin framlög til þeirra sem lifa í sárri fátækt er í anda þess örlætis sem Íslendingar sýna jafnan þegar ákall berst frá félagasamtökum um stuðning þegar samfélög lenda í hamförum eða neyð af manna völdum steypist yfir. Alþingi speglaði þessa samkennd ríkulega með sterkum og þverpólitískum stuðningi þegar það samþykkti einróma ályktun mína um stóreflingu alþjóðlegrar þróunarsamvinnu Íslendinga á síðasta ári. Það voru ekki orðin tóm, einsog nýi milljarðurinn til þróunarhjálpar sýnir svart á hvítu.
Þróunarhjálp eflir sjálfshjálp
Evrópumenn skildu svo illa við Afríku eftir aldalanga misnotkun og arðrán að margir töldu örvænt að álfan næði sér á strik um aldir. Nú er hins vegar mikill og jafn hagvöxtur í mörgum ríkjum Afríku, sem sum hver eru við, eða að lyfta sér yfir, skilgreind fátæktarmörk. Hagvöxtur í Afríku, sem alla tíð hefur verið minni en í öðrum heimshlutum, hefur nú verið 7 % frá aldamótum.
Vissulega skiptir máli aukin nýting á auðlindum, og hærra verð á afurðum þeirra. Hitt er jafnljóst, að þróunarsamvinna hefur skilað miklum umbótum á stjórnarfari og stjórnkerfum þróunarlanda, að ógleymdum innviðum einsog heilsugæslu og menntun. Lágmarksöryggi, sem felst í aðgangi að heilsuvernd, fæðingarhjálp, hreinu vatni, jafnvel útikömrum, að ógleymdri grunnmenntun á borð við að læra að lesa, skrifa og reikna, gefur samfélögunum nýjan þrótt, og eflir þau til dáða. Þróunarsamvinna hjálpar Afríku til að hjálpa sér sjálfri.
Íslenskur árangur
Í Afríku höfum við Íslendingar sniðið okkur stakk eftir vexti, og einbeitt okkar þróunarsamvinnu að nokkrum völdum svæðum. Þótt framlög Íslands séu lítil í samanburði við framlög stórþjóða hafa þau raunveruleg áhrif á líf fjölda fólks. Árangurinn blasir víða við. Það má nefna vatnsverkefni Þróunarsamvinnustofnunar í Mangochi-héraði í Malaví og hjá Ovahimba ættbálknum í Namibíu sem hafa skipt sköpum í lífi fólksins á svæðinu, valdið grundvallarbyltingu á lífsgæðum þeirra og möguleikum til lífsviðurværis.
Börn sem áður gengu marga kílómetra til að ná í vatn, sem oft á tíðum var óhreint og óheilnæmt, hafa nú aðgang að hreinu vatni í næsta nágrenni við heimili sitt. Samfélög sem áður voru berskjölduð á löngum þurrkatímabilum eru nú mun betur í stakk búinn að vernda lífsviðurværi sitt. Þurrkar valda miklum búsifjum meðal samfélaga, hvort sem um er að ræða hirðingja- eða akuryrkjusamfélög, því án vatns þrífst ekki líf. Aðgangur að hreinu vatni dregur einnig verulega úr smitsjúkdómum vegna mengaðs vatns. Banvænum sjúkdómum eins og kóleru er útrýmt á stórum svæðum. Gott dæmi um það er einmitt Mangochi-héraðið í Malaví sem ég var svo gæfuríkur að heimsækja fyrir stuttu.
Verkefni okkar snúa líka oft að jaðarhópum, sem eiga sér litla von í hörðum heimi, og grundvallarmannréttindum þeirra. Fallegt dæmi um það er verkefni okkar við að auka möguleika heyrnarlausra í Namibíu til að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.
Lóð Íslands vigtar
Ísland hefur líka tekið virkan þátt í alþjóðlegum herferðum til að ná þúsaldarmarkmiðum SÞ. Þar hefur náðst umtalsverður árangur. Nú telja menn hugsanlegt að fyrsta þúsaldarmarkmiðinu, sem snýr að því að draga úr sárafátækt og hungri, hafi nú þegar verið náð. Ungbarnadauði hefur auk þess lækkað á heimsvísu um 35% frá 1990. Dánartíðni kvenna tengdri meðgöngu og barnsburði hefur á sama tímabili lækkað um 34%. Mikill árangur hefur náðst í að bæta aðgengi að hreinu vatni. Í Afríku sunnan Sahara höfðu 252 milljónir manna aðgengi að hreinu vatni árið 1990, en árið 2008 var sú tala komin í 492 milljónir. Aðgengi barna að grunnmenntun hefur einnig aukist svo um munar í álfunni. Alls er talið að um 76% barna séu skráð í grunnskóla í dag, miðað við 58% árið 1990.
Ísland er að sönnu lítið, en við tökum okkar hlut í hinni alþjóðlegu baráttu til að bæta líf þeirra sem búa við örbirgð og greiða leið þeirra til sjálfshjálpar. Á þeim vogarskálum vigtar íslenska lóðið.
Össur Skarphéðinsson er utanríkisráðherra.
Grein utanríkisráðherra í DV 19. september 2012. (PDF skjal - 1.6Mb)