Ísland styður blásnauð börn
Helmingur íbúa í þróunarríkja eru börn. Fjórða hvert þeirra býr við sárafátækt. Langvinn fátækt er ein helsta hindrunin fyrir því að þörfum barna sé sinnt og réttindi þeirra varin. Þar sem neyðarástand skellur á eða ófriður brýst út eru börn sérstaklega berskjölduð. Slík reynsla hefur því miður varanleg áhrif á bæði líkamlegan og andlegan þroska. Í þróunarsamvinnu við fátæk ríki, við uppbyggingu samfélaga eftir að átökum lýkur eða þegar neyðaraðstoð er veitt leggur Ísland því ríka áherslu á þarfir barna. Það er sérstaklega þýðingarmikið að huga sérstaklega að stúlkubörnum sem víðast hvar eru í miklu lakari stöðu en drengirnir.
Ég hef stundum sagt að stuðningur við mæður og börn sé árangursríkasta þróunarhjálpin. Sannarlega er hann rauður þráður í þróunarsamvinnu Íslendinga, í gegnum starf Þróunarsamvinnustofnunar Íslands (ÞSSÍ), frjálsra félagasamtaka eða alþjóðastofnana á borð við BarnahjálpSameinuðu þjóðanna (UNICEF).
Hreint drykkjarvatn skiptir sköpum
Góður árangur hefur vissulega náðst gegn barnadauða. Það er samt sorgleg staðreynd að enn deyja 6,9 milljónir barna áður en þau ná fimm ára aldri. Ástæðurnar eru ekki síst vanburðug heilbrigðisþjónusta og mengað drykkjarvatn sem veldur niðurgangspestum sem verður börnunum að aldurtila. Íslendingar hafa sérstaklega beitt sér fyrir öflun hreins vatns. Fyrir nokkru lukum við stóru verkefni í Malaví þar sem heil sveit með 20 þúsund heimilum fékk hreint vatn.
Í sama héraði hafa Íslendingar líka beitt sér í þágu mæðraverndar og ungbarnaeftirlits. Það var ógleymanlegt að koma í íslenska fæðingardeild langt útí skógi og heyra pínulitla ljósmóður segja: “Börnin deyja ekki hjá okkur.” Í Monkey Bay hefur verið byggt upp sjúkrahús með stórri fæðingardeild, ásamt endurbótum á heilsugæslustöðvum í nærliggjandi sveitum. Fyrir utanríkisráðherra frá Íslandi var það líka ógleymanlegt að afhenda spítalann.
Stúlkubörn þurfa sérstaka athygli
Illu heilli sýnir reynslan að sérstaka áherslu þarf að leggja á að vernda stúlkubörn og tryggja þeim öruggara líf og umhverfi. Einmitt af því að þær eru stúlkur eiga þær alltof víða á hættu að að verða fyrir ofbeldi. Limlesting á kynfærum kvenna er dæmi um það. Milli 100 og 140 milljónir kvenna hafa þolað slíka áníðslu. Í dag telur UNICEF allt að þrjár milljónir stúlkna í hættu á að hljóta sömu örlög. Ísland hefur lagt sitt af mörkum til að afnema þannig limlestingar með því að styrkja duglega við samstarfsverkefni UNICEF og Mannfjöldastofnunar SÞ (UNFPA) gegn þeim. Verkefnið nær til 16 landa í vestan-, austan- og norðaustanverðri Afríku. Það hófst árið 2007, og hefur þegar skilað mælanlegum árangri. Í samfélögum sem verkefnið nær til hefur töluvert dregið úr limlestingum.
Grunnmenntun blásnauðra barna
Annað verkefni sem Ísland hefur látið til sín taka er að hrinda í framkvæmd því göfuga þúsaldarmarkmiði SÞ að öll börn njóti grunnskólamenntunar árið 2015. ÞSSÍ hefur víða stutt dyggilega við grunnmenntun barna, og t.d. í samvinnu við stjórnvöld í Malaví tekið kröftugan þátt í átaki um ókeypis grunnskólamenntun.
Í Mangochi héraði höfum við byggt nýja skóla og endurbætt aðra. Það sá ég sjálfur í heimsókn minni til Malaví fyrr á árinu – og hreifst af. Þar höfum við Íslendingar byggt alls sjö grunnskóla. Það fyrsta sem ég rak augun í þegar ég kom í skóla, sem Seltirningar sinna sérstaklega, var stórt landakort af Íslandi. Okkur gestum af Íslandi hlýnaði um hjartarætur við að heyra þakklæti kennara og nemenda. Í skýrslu frá yfirvöldum í Mangochi var staðfest að menntastefna sem innleidd var í Monkey Bay með stuðningi frá ÞSSÍ, hafi skilað sér í betri menntun, aukinni skólasókn og fleiri kennurum en á öðrum svæðum í héraðinu.
Í nýja fjárlagafrumvarpinu eru framlög til þróunarhjálpar aukin um milljarð. Það undirstrikar ekki síst eindreginn vilja Íslendinga til að leggja lóð sín á vogarskálar sárafátækra barna og mæðra í blásnauðustu ríkjum heims. Íslensk þróunarhjálp skilar sér í betra lífi mæðra og barna.
Össur Skarphéðinsson er utanríkisráðherra.
Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu, 20. september 2012 (PDF-skjal)