Sterkari evra er skýr valkostur fyrir Ísland
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, hélt í morgun ávarp á málþingi sem bar yfirskriftina „Er evran lausnin“ en þingið markaði endurreisn Fransk-íslenska verslunarráðsins.
Í máli sínu sagðist Össur sannfærður um að evrusamstarfið muni komast í gegnum yfirstandandi erfiðleika. Hann benti á að evran væri nú 6,5% sterkari en Bandaríkjadollar og hefði frá upphafi verið að meðaltali verið 4,0% sterkari en dalurinn. Þá hefðu einstök evruríki gripið til róttækra ráðstafana til þess að takast á við efnahagserfiðleika sína, og sagðist bjartsýnn á að þau meðöl myndu virka rétt eins og þau gerðu á Íslandi í stöðugleikaáætlun Íslands og AGS. Síðast en ekki síst mætti skynja sterkari pólitískan vilja en áður frá aðildarríkjunum og Evrópska seðlabankanum að komast í gegnum skuldakreppuna í sameiningu.
Utanríkisráðherra sagði sterkari evru, sem komist hefði í gegnum þessa eldskírn, vera skýran valkost fyrir Íslendinga. Hann vísaði til nýrrar skýrslu Seðlabanka Íslands þar sem fram kemur afdráttarlaust að upptaka evru myndi hafa í för með sér lækkun vaxta, aðgang að stærri fjármagnsmarkaði, aukinn og langþráðan stöðugleika í íslensku efnahagslífi, lægra vöruverð og lægri verðbólgu. Þá myndi upptaka evrunnar geta aukið þjóðarframleiðslu um 20 til 160 milljarða króna árlega og dregið úr viðskiptakostnaði fyrirtækja um 5 til 15 milljarða króna, til viðbótar þeim mikla sparnaði sem fælist í því að þurfa ekki að halda úti gjaldeyrisvaraforða sem greiða þarf af tugmilljarðavexti á ári hverju.
Kostir evrunnar fyrir Ísland eru því óbreyttir, sagði Össur, en tók jafnframt undir með skýrslu Seðlabankans að evruupptaka væri ekki æskileg í augnablikinu, enda stæði það ekki til. Fyrst þyrfti að rætast betur úr ástandinu í einstökum ríkjum. En utanríkisráðherra undirstrikaði að í skýrslunni kemur einnig skýrt fram íslenska krónan er beinlínis uppspretta þess óstöðugleika sem sveigjanleiki hennar nýtist síðar til að takast á við, og hlýtur það að setja umræðuna um kosti krónunnar í nýtt samhengi.
Valið stendur því milli óstöðugrar íslenskrar krónu og evru sem vonandi kemur sterkari út úr krísunni. Og tíminn leiðir í ljós hvorn valkost íslenskur almenningur velur, sagði utanríkisráðherra.
Ræða utanríkisráðherra á málþingi Fransk-íslenska verslunarráðsins