Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. janúar 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Til hamingju Ísland!


Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra skrifar:

Það var innistæða fyrir fölskvalausri gleði á mánudaginn þegar tíðindin í Icesave-málinu bárust að utan. Við Íslendingar höfðum fullan sigur í öllum þáttum Ice­save-málsins fyrir EFTA-dómstólnum þegar úrskurður féll. Sigur Íslands var svo algjör að ESA, sem kærði okkur, var meira að segja dæmt til að greiða allan málsvarnarkostnað Íslands. Með þessu er rutt úr vegi erfiðustu torfærunni á leið okkar til efnahagslegrar endurreisnar eftir hrun. 

Það skipti ekki minnstu að eftir að málið fór í dómstólafarveg var algjör samstaða um það hvernig ætti að reka það. Öll sjónarmið voru tekin inn og þess gætt að ólík sjónarmið ættu fulltrúa í málsvarnarteyminu. Samstaðan skiptir máli og þegar upp er staðið skilar hún bestum árangri fyrir Ísland.

Icesave-málið er eitt hið erfiðasta sem við Íslendingar höfum glímt við allt frá því að við unnum okkur sjálfstæði. Þess vegna er niðurstaðan svo ánægjuleg og við getum öll verið stolt af okkar frábæra fólki sem skipaði málflutningsteymi Íslands. Það vann lögfræðilegt meistaraverk í málsvörninni.

Þrotabúið borgar
Allt hefur staðist sem Ísland hefur sagt um styrk og getu hins fallna banka til að standa straum af lágmarksgreiðslunum sem EES-samningurinn mælti fyrir um. Strax í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar frá 5. desember 2008 kom fram sú skoðun að hinn fallni banki gæti að líkindum staðið undir öllum tryggingunum. Þrotabúið er nú þegar búið að greiða út 660 milljarða, þar af 585 í Icesave-innstæðurnar, sem samsvarar röskum 90% af lágmarkstryggingunni. Icesave-kröfurnar munu þegar upp verður staðið allar verða greiddar af réttum skuldara, þrotabúi Landsbankans.

Allt frá upphafi þessa ólánsmáls haustið 2008 voru allir því sammála að stjórnvöld hér á landi hafi staðið við allar lagalegar skuldbindingar ríkisins. Hins vegar er jafnljóst að Bretland og Holland hafa verið á algjörlega öndverðum meiði. Sjónarmið þeirra nutu lengst af víðtæks stuðnings í alþjóðasamfélaginu. Afstöðu okkar var ekki einungis hafnað af þeim, heldur einnig af öllum aðildarríkjum ESB, framkvæmdastjórninni og Eftirlitsstofnun EFTA.

Kjarni samningaleiðarinnar
Haustið 2008 var kannað til ­þrautar hvort hægt væri að koma málinu til vandaðrar lögfræðilegrar úrlausnar. Slíkt reyndist ekki unnt á þeim tíma ef frá er talið boð um fyrirvaralausan gerðardóm í kjölfar hins fræga ECOFIN-fundar þar sem niðurstaðan virtist fyrir fram ráðin og Ísland hafnaði. Í þröngri stöðu þar sem við töldum að efnahagslegu sjálfstæði Íslands væri ógnað var því ítrekað reynt að leysa vandann með samningum.

Samningaleiðin var farin í samræmi við álit meiri hluta utanríkismálanefndar á þeim tíma sem rökstuddi vel þá leið. Í fyrsta lagi voru stjórnvöld sannfærð um að þrotabú Landsbankans mundi standa ­undir öllum innstæðukröfum í búið eins og síðar hefur komið á daginn. Í öðru lag var ljóst að pólitísk lausn á þessu máli var beinlínis skilyrði þess að fjárhagsleg fyrirgreiðsla fengist frá þeim ríkjum sem voru reiðubúin að styðja efnahagsáætlun Íslands og AGS. Kjarni þess mats sem lá samningaleiðinni til grundvallar var vel orðaður í ræðu þáverandi formanns utanríkismálanefndar og núverandi formanns Sjálfstæðis­flokksins þegar hann mælti fyrir áliti nefndarinnar og sagði „að það þurfti að leita pólitískrar lausnar á vandamálinu“ og bætti við „Hagur þess að lausn finnist við samningaviðræður er því ótvíræður.“

Lýðræðið virkaði
Um Icesave risu einar mestu deilur á síðari tímum með okkar ágætu þjóð sem leiddu til þess að hún neytti stjórnskipulegs réttar síns í gegnum þjóðar­atkvæði í krafti málskotsréttar forseta til að hafna samningunum. Segja má að stjórnskipun okkar hafi staðist prófið. Lýðræðið, eins og það er útfært í stjórnarskrá landsins, virkaði. Stjórnskipunin reyndist fær um að setja niður deilur og setja Icesave-málið í farveg sem mikil samstaða náðist að lokum um og leiddi til þeirrar farsælu niðurstöðu sem felst í dómnum frá í morgun [mánudag]. Það er líka gleðiefni fyrir okkur sem þjóð.

Því segi ég: Til hamingju, Ísland!


Greinin Til hamingju Ísland eins og hún birtist í DV 30. janúar 2013

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta