Grein í Fréttablaðinu febrúar - "Hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi"
Hagstætt skattaumhverfi fyrirtækja á Íslandi
Stundum er því haldið fram að skattar á fyrirtæki séu óskaplega háir á Íslandi. Sérstaklega er kvartað yfir skattahækkunum eftir hrun. Það er vissulega rétt að skattar á fyrirtæki hafa hækkað. En hafa ber í huga að á árunum fyrir hrun höfðu þessir skattar verið lækkaðir ótæpilega. Eftir hrun kom í ljós að grunn skattstofnar voru margir hverjir veikir eins og sást á afkomu ríkissjóðs á fyrstu árum eftir hrun. Skattahækkanirnar voru nauðsynlegar til að ná niður miklum halla á rekstri ríkisins og ekki óeðlilegt að þær næðu einnig til þeirra skatta sem áður höfðu lækkað mest. Á árinu 2013 stefnir í að afkoma ríkissjóðs verði komin nálægt jafnvægi á ný. Eigendur og stjórnendur fyrirtækja mættu hafa í huga í umræðum um þessi mál, hversu gríðarlega mikilvægt hagsmunamál traust tök á ríkisfjármálum er fyrir einmitt atvinnu- og efnahagslífið. Jöfnuður og síðan afgangur af rekstri ríkissjóðs er ein mikilvægasta forsenda stöðugleika, betri lánskjara og áframhaldandi bata í þjóðarbúskapnum.
Hagstæður samanburður
Hvernig ætli skattar á fyrirtæki séu í raun og veru? OECD heldur úti góðum samanburðargögnum um skatta í aðildarríkjum sínum. Til einföldunar er gagnlegt að bera saman skatta á annars vegar lögaðila (tekjuskattsprósenta lögaðila) og hins vegar skatta á arðgreiðslur, þ.e. hagnaðinn þegar hann er tekinn út úr hlutafélagi. Þannig mætti til dæmis hugsa sér að fyrirtæki X hagnist um ákveðna tölu og ákveði svo að greiða allan umfram hagnað í arð. Í töflunni að neðan er þetta sýnt og Ísland borið saman við okkar helstu nágranna- og viðskiptalönd. Auk þess er sýnt hvernig Ísland kemur út í samanburði við OECD meðaltalið. Á Íslandi er 20% skattur á hagnað fyrirtækja og einnig 20% skattur á arð. Samtals eru skattar á hagnað og arð því 36% (20% + 20% af 80%). Í löndum OECD er meðaltalið 42%. Í flestum okkar nágrannalöndum eru skattar á fyrirtæki mun hærri en áÍslandi, ekki síst á öðrum Norðurlöndum. Þetta sýnir að hvað skatta varðar er viðskiptaumhverfið býsna hagstætt fyrir fyrirtækin í landinu og eigendur þeirra. Auðvitað segir þessi einfaldi samanburður beinna hagnaðartengdra skatta ekki alla söguna, en hann er réttmætur svo langt sem hann nær. Umræður um starfsskilyrði atvinnulífsins eru bráðnauðsynlegar en hjálpumst að við að byggja þær á staðreyndum.
Fyrirtæki - skattar á hagnað og arð
Land | Tekjuskattur á lögaðila % | Skattur á arð % | Samtals skattur á hagnað fyrirtækja % |
Danmörk | 25,0 | 42,0 | 56,5 |
Bandaríkin | 39,1 | 21,3 | 52,1 |
Bretland | 24,0 | 36,1 | 51,4 |
Þýskaland | 30,2 | 26,4 | 48,6 |
Svíþjóð | 26,3 | 30,0 | 48,4 |
Írland | 12,5 | 41,0 | 48,4 |
Noregur | 28,0 | 28,0 | 48,2 |
Kanada* | 26,1 | 29,5 | 47,9 |
Lúxemborg | 28,8 | 19,5 | 42,7 |
Finnland | 24,5 | 22,4 | 41,4 |
Sviss | 21,2 | 20,0 | 36,9 |
Ísland | 20,0 | 20,0 | 36,0 |
Nýja Sjáland | 28,0 | 6,9 | 33,0 |
Meðaltal OECD ríkja | 25,5 | 22,5 | 42,3 |