Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

23. febrúar 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Krónan er þyngsti skatturinn

Krónan er þyngsti skatturinn

Eftir Össur Skarphéðinsson

Þak yfir höfuðið er í langflestum tilvikum helsta fjárfesting sérhverrar fjölskyldu í lífinu. Til að greiða niður meðalfasteign þarf íslensk fjölskylda að greiða um tvöfalt meira í afborganir og vexti af húsnæðislánum sínum en meðalhjón í Evrópu, í hverjum einasta mánuði á hverju einasta ári í 40 ár!

Evran tryggir stöðugleika

Íslenska krónan kallar fram óstöðugleika meðan evrunni fylgir stöðugleiki. Óstöðugleikinn veldur því að fyrirtæki geta ekki gert áætlanir nema til skamms tíma. Verkalýðshreyfingin getur varla gert samninga því verðbólgan étur þá upp. Fjölskyldur róa lífróður upp á von og óvon þegar þær festa sér þak yfir höfuðið.

Styrkur evrunnar sem gjaldmiðils kom vel fram í nýlegri ríkisskuldakreppu sem gekk yfir nokkur ríki evrusvæðisins. Andstæðingar evrunnar, sem aldrei vilja tala um málefni henni tengd, þrumuðu þá í síbylju að evran væri að hrynja. Ef ekki í þessari viku, þá örugglega í þeirri næstu. En hvað gerðist? Evran styrktist sem gjaldmiðill!

Meðan efnahagshremmingarnar stóðu sem hæst var evran í byrjun ágúst sl. sterkari gagnvart Bandaríkjadal en hún hafði verið að meðaltali frá upphafi. Eftir að kreppan brast á tengdi Sviss, eitt sterkasta fjármálaríki veraldar, svissneska frankann einhliða við evruna. Þarf að segja meira?

Hófleg verðbólga – lágir vextir

Krónan verkar líka eins og magnari, sem að sögn Seðlabankans bæði býr til sveiflur í hagkerfinu og magnar þær. Fyrir þessa veikleika borgum við með vaxtakjörum sem eru svimhá í samanburði við það sem er í löndum evrunnar, og með verðbólgu, sem skrúfar upp húsnæðisskuldir í gegnum verðtrygginguna. Á evrusvæðinu er engin verðtrygging.

Krónan er bundin í gjaldeyrishöft til langrar framtíðar. Í viðtali við Bloomberg var efnislega haft eftir Má Guðmundssyni seðlabankastjóra að þess vegna gæti Ísland þurft að íhuga aðild að stærra myntsvæði. Í skýrslu sl. sumar sagði Seðlabankinn að ætti að skipta um gjaldmiðil væri engum öðrum kosti til að dreifa en evrunni. Evran er því í reynd eini valkosturinn ef við viljum losna við krónu sem í sjáanlegri framtíð verður ætíð í höftum.

Gjaldeyrishöftin valda því að landið fyllist smám saman af krónum, og þær vantar verkefni. Fjárfestar, sem eiga krónur, munu því leita í verðmæti eins og fasteignir. Sá veikleiki krónunnar sem birtist í gjaldeyrishöftum mun því efalaust leiða til hækkandi verðs á fasteignum og hugsanlega nýrrar eignabólu. Það mun þyngja enn stöðu húsnæðiskaupenda í framtíðinni.

Haltrandi króna

Staðreyndin er sú að íslensku hjónin greiða um 18% meira af ráðstöfunartekjum sínum í afborganir og vexti af húsnæðislánum en þau evrópsku. Til að vega upp þann mun þyrftu laun íslensku hjónanna að hækka um 29%. Ekkert sýnir betur að krónan er í reynd ígildi séríslensks skatts sem engir nema við þurfum að greiða.

Í því ljósi væri glapræði að loka á samninga við ESB sem opna á upptöku evrunnar. Í evrunni felst frelsi frá vaxtaklyfjunum sem eru að sliga íslenskar fjölskyldur og smáfyrirtæki.

Höfundur er utanríkisráðherra.


Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 23. febrúar 2013 (pdf).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta