Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

25. febrúar 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Ís fyrir alla - mamma borgar!

Össur Skarphéðinsson skrifar:

Bjarni Benediktsson hélt dýrustu ræðu Íslandssögunnar við setningu landsfundarins sl. fimmtudag. Í ræðunni sáldraði hann rándýrum kosningaloforðum í allar áttir – einsog enginn væri morgundagurinn. Líktog afgreiðslumaður í sælgætisbúð lofaði hann öllum nammi – og enginn þarf að borga. Bjarni er nefnilega töframaður sem getur búið til gull úr loftinu. Það er eina leiðin til að standa við loforðin sem hann gaf um að hækka lífeyri gamla fólksins, láta ríkið borga húsnæðisskuldir, hækka laun opinberra starfsmanna – en lækka um leið skatta og ofan í kaupið að lækka útgjöld ríkisins!

Hagfræði Sjálfstæðisflokksins er greinilega sótt í efnahagslögmálin sem allir muna eftir úr sunnudagsbíltúrum bernskunnar: Ís fyrir alla – mamma borgar!  

 

Nammibúðin

Loforðaflaumurinn í kosningastefnu Sjálfstæðisflokksins, einsog hann birtist í ræðu Bjarna, var ansi litríkur.

Heilbrigðiskerfið er öllum mikilvægt. Bjarni vill auka framlög til þess, og fjallaði sérstaklega um nauðsyn þess að gera Ísland samkeppnishæft í launum lækna. Það þýðir varla annað en drjúga launahækkun til þeirra góðu manna, sem halda okkur gangandi þegar á bjátar. En læknar eru ekki einu starfsmenn heilbrigðiskerfisins. Þar bjarga lífum dag hvern sjúkraliðar, lífeindafræðingar, hjúkrunarfólk, geislafræðingar, rafvirkjar og ræstitæknar. Margt fleira gott fólk á líka hlut í að gera okkar ómetanlega heilbrigðiskerfi að einni römmustu burðarstoð samfélagsins.

Bjarni hlýtur því að ætla launahækkun til læknanna að ná yfir alla starfsmenn heilbrigðiskerfisins. Það mun að lokum, eðlilega, ná yfir alla opinbera starfsmenn, eða hverja ætlar Bjarni að skilja útundan? – Kosningastefnan í ræðu Bjarna felur því í sér fyrirheit um launahækkun til allra opinberra starfsmanna.

Eldri borgarar hafa lengi búið við skarðan hlut og í kreppunni sem Sjálfstæðisflokkurinn leiddi yfir þjóðina, var ekki hægt að bæta hann nóg. Því ætlar Bjarni að kippa í liðinn. Flokkurinn ætlar að afnema skerðingar í lífeyriskerfinu, og hækka lífeyrinn.

Flokkurinn ætlar líka að láta ríkið hjálpa þeim, sem eiga um sárt að binda vegna skuldafjötra húsnæðislána. Bjarni lofar þeim hluta af tekjum ríkisins í gegnum skattaafslátt. Það er líklega dónaskapur að spyrja: Hvað með þá sem eru verst staddir, og borga enga skatta?

 

Þversögn Bjarna

Allt eru þetta góðar hugmyndir. Allar byggja þær á einhvers konar réttlæti. Það er líka póetískt réttlæti fólgið í því að Sjálfstæðisflokkurinn vilji hjálpa þeim, sem guldu fyrir hrunið sem hann stýrði samfélaginu inn í á átján ára valdatíð, einsog glöggt kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. 

Þversögnin í ræðu Bjarna er hinsvegar sú, að á sama tíma og hann ætlar að deila út miklum fjármunum í gegnum áveitukerfi ríkisins til sjúklinga, opinberra starfsmanna, skuldara og eldri borgara, þá ætlar hann líka að lækka skatta og draga úr útgjöldum ríkisins.

Í ræðunni hét hann þannig að afnema hátekjuskatt, lækka almenna skatta, og lækka skatta fyrirtækja. Nánast í sama orðinu sagði hann að Sjálfstæðisflokkurinn myndi líka sjá til þess að útgjöld ríkisins minnkuðu. Í þessu felast óleysanlegar andstæður.   

Það er ekki hægt að auka útgjöld til velferðarmála á sama tíma og skatttekjur ríkisins eru lækkaðar og lofa um leið að lækka útgjöld ríkisins! Ætli formaður Sjálfstæðisflokksins að standa við fyrirheitin um hvorutveggja skattalækkanir og aukin útgjöld til velferðar þýðir það eitt, og aðeins eitt: Stóraukin ríkisútgjöld á versta tíma.

Það er efnahagslegt ábyrgðarleysi sem gæti leitt okkur í nýjar ógöngur.

 

Greinin birtist í DV 25. febrúar 2013 (pdf).

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta