Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

27. febrúar 2013 UtanríkisráðuneytiðÖssur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra 2009-2013

Aðild opnar sjávarútvegi ný, arðbær tækifæri

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, skrifar

Menn gefa sér oft fyrirfram að aðild að Evrópusambandinu henti ekki hagsmunum íslensks sjávarútvegs. Við töpum fiskimiðunum. Við fáum ekki rönd reist við innrás erlends fjármagns. Við missum fyrirtækin í erlent eignarhald, og störfin úr landi. Þetta er ástæðulaus ótti. Í krafti reglna ESB, og sérlausna sem byggja á því sem aðrar þjóðir hafa náð í samningum, getum við með þeirri harðsnúnu samningatækni, sem Íslendingar eru þekktir fyrir í sjávarútvegi, náð tvennu: Annars vegar haldið því sem við höfum þegar, og hins vegar opnað greininni ný, arðbær tækifæri, bæði í útgerð og fullvinnslu.

Tryggjum aflahlutdeild
Í fyrsta lagi höldum við aflahlutdeild við inngöngu. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika festir óbreytta aflahlutdeild aðildarþjóða í krafti sögulegrar veiðireynslu. Það gildir jafnt um staðbundna stofna, sem þá flökkustofna, sem samið er um. Í dag erum við með fasta samninga um alla flökkustofna nema makríl. Það liggur í eðli máls að þeirri deilu lýkur áður en kemur til aðildar.

Í öðru lagi þurfum við að tryggja okkur gegn nýrri vá, sem er hugsanleg breyting á göngumynstri flökkustofna norður um höf vegna hlýnunar sjávar. Reglan um sögulega veiðireynslu tryggir þá hlutdeild sem við þegar höfum. Ef stofnarnir leita út úr lögsögunni, höfum við slagkraft sambandsins til að standa vörð um hagsmuni okkar. Þetta gildir líka um staðbundna stofna eins og þorsk, ef þeir flyttu sig norðar vegna hlýnunar á öldinni. Aðild er besta trygging okkar fyrir óbreyttri hlutdeild taki þeir á rás út úr lögsögunni.

Sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði
Í þriðja lagi: Hví skyldum við ekki geta tryggt varanlega sérstakt fiskveiðistjórnunarsvæði fyrir allt Ísland í krafti sömu raka og Norðmönnum dugðu til að tryggja sér slíkt stjórnsvæði norðan 62. gráðu tímabundið? Þeir náðu fram skilningi sambandsins á því að norðan hennar væri sjávarútvegur svo mikilvægur að þeir yrðu að fá að stjórna honum sjálfir - og fengu það. Ísland allt er norðan 62. gráðu.

Fiskveiðar eru hér enn mikilvægari en þær voru í Norður-Noregi. Við höfum enga sameiginlega lögsögu með ESB eins og Noregur. Okkar rök eru því sterkari en þeirra voru. Ef Norðmenn gátu fengið slíka sérlausn tímabundið, þá eiga Íslendingar að geta fengið hana varanlega.

Í fjórða lagi þarf Ísland að tryggja að aðild leiði ekki til að störf flytjist úr landi og að arðurinn úr greininni falli áfram til á Íslandi. Í dönskum sjávarútvegi er það tryggt með ákveðnum búsetukvöðum. Ef kerfið dugar í Danmörku, þá dugar það líka á Íslandi.

500 milljóna heimamarkaður
Í fimmta lagi mun aðild skapa skilyrði fyrir því að einn best rekni sjávarútvegur í heimi geti haslað sér enn sterkari völl erlendis og skapað þannig aukin verðmæti og tækifæri fyrir Ísland utan landsteinanna. Það er mögulegt, bæði í krafti samninga ESB um fiskveiðar við þriðju ríki, en ekki síður í sameiginlegum fjárfestingum í löndum þar sem eru vannýttir stofnar og fiskvinnsla enn vanþróuð. Í þessu liggja mikil tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg til að færa út kvíar og skapa þannig verðmæti sem styrkja Ísland.

Í sjötta lagi opnar aðild risastórt markaðssvæði fyrir fjölmörg lítil og sérhæfð fyrirtæki í fullvinnslu. Þau fengju tækifæri til að byggja sig upp á 500 milljón manna heimamarkaði án nokkurra tollaþröskulda og gætu hæglega vaxið í að verða alþjóðleg stórfyrirtæki. Tollar, til dæmis á tilbúnum fiskréttum, eru í dag illkleifur þröskuldur fyrir smáfyrirtæki sem framleiða hágæðavöru. Það vill svo til að það er vísir að slíkum fyrirtækjum í öllum helstu fiskiplássum Íslands. Mitt uppáhaldsfyrirtæki, Grímur kokkur í Eyjum, er rakið dæmi um þau. Öll bjóða upp á besta og ferskasta hráefnið í heimi. Aðildin gæti því opnað nýjan kafla í sjávarútvegssókn Íslendinga þar sem ný stórveldi yrðu til í atvinnulífi landsmanna og fjöldi nýrra vellaunaðra starfa í sjávarplássum hringinn í kringum landið.

Rakin vinningsstaða

Í sjöunda lagi þá er einn af ávinningum aðildar sá að hún opnar sjávarútveginum aðgang að fjármagni á lægri vöxtum. Miðað við skuldir hans í lok árs 2011 og miðað við hóflega vaxtalækkun upp á 1,5-2 % þá myndi upptaka evru þýða allt að níu milljörðum minna í vexti á ári.

Í þessu ljósi væri glapræði að hætta viðræðum og láta ekki reyna á samningana. Í því er engin áhætta fólgin. Ef þjóðinni líkar ekki samningurinn verður hann ekki samþykktur. Flóknara er málið ekki. Hins vegar eru allar líkur á því að aðild gæti fært íslenskum sjávarútvegi það sem við skákmenn köllum rakta vinningsstöðu.

Grein utanríkisráðherra í Morgunblaðinu 27. febrúar 2013. (PDF)

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta